Ferill 178. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 181  —  178. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um nefnd er leiti sátta um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða.

Flm.: Össur Skarphéðinsson, Steingrímur J. Sigfússon, Sverrir Hermannsson.



    Alþingi ályktar að skipa nefnd fimm þingmanna, einn frá hverjum þeirra þingflokka sem eiga sæti á Alþingi, til að leita sátta um stjórn fiskveiða.
    Aðalforsendur nefndarstarfsins verði fyrning veiðiréttar úr núgildandi kerfi. Veiðiheimildum verði endurráðstafað í formi aflahlutdeildarsamninga á grundvelli jafnræðis byggðanna og útgerðar til nýtingar þeirra.

Greinargerð.


    Þær hatrömmu deilur sem staðið hafa um stjórn fiskveiða eiga aðalrætur í þeirri mismunun og óréttlæti sem felst í þeim úthlutunarreglum sem gilda og margvíslegum fylgikvillum þessa kerfis fyrir sjómenn, verkafólk og byggðir landsins.
    Þrátt fyrir þungan áróður árum saman frá hendi stjórnvalda um að þetta sé besta kerfi í heimi og hagkvæmni þessa fyrirkomulags sé svo mikil að ekkert annað geti jafnast á við það hefur þjóðin verið staðföst í andstöðu sinni og aftur og aftur hafnað þessari leið í skoðanakönnunum.
    Þótt andstaða þjóðarinnar hafi legið fyrir hefur stefna stjórnvalda á undanförnum árum verið að festa þetta fyrirkomulag í sessi. Formenn stjórnarflokkanna lofuðu þó fyrir síðustu kosningar að beita sér fyrir sáttum í málinu. Efndir þeirra loforða virðast nú vera að koma í ljós með niðurstöðu meiri hluta nefndar um endurskoðun laga um stjórn fiskveiða um að farin verði svokölluð veiðigjaldsleið. Sú tillaga er ekki framlag til sátta um þau grundvallaratriði sem í raun er deilt um.
    Sjálfstæðisflokkurinn boðar nú þessa tillögu sem framtíðarstefnu sína og að minnsta kosti hluti Framsóknarflokksins aðhyllist hana en hún tekur á engan hátt á aðalágreiningsefninu sem er eignarhald útgerðarinnar á auðlindinni. Víðtækur stuðningur hefur hins vegar komið fram við að leitað verði sátta um fyrningarleið sem leiði til þess að jafnræði komist á um nýtingu auðlindarinnar í framtíðinni.
    Formenn þeirra stjórnmálaflokka sem eru í stjórnarandstöðu telja afar mikið í húfi fyrir þjóðina og fyrir sjávarútveginn að friður komist á um nýtingu auðlindarinnar og vilja því freista þess að gera tilraun til að forða mönnum frá enn hatrammari deilum en staðið hafa til þessa. En í það stefnir ótvírætt verði þeim stríðshanska kastað í andlit þjóðarinnar sem það er að ætla að festa í sessi óbreytt kerfi, eignarhald útgerðarinnar í reynd, með málamyndagjaldtöku.
    Niðurstaða þessa máls næst einungis með víðtæku pólitísku samkomulagi.
    Þessi tillaga er áskorun og tilboð til stjórnarflokkanna um að gerð verði úrslitatilraun til þess að ná sáttum um þetta mikilvæga mál á þessu löggjafarþingi. Takist það ekki er ljóst að hatrammur ófriður mun standa áfram um mikilvægustu auðlind þjóðarinnar næstu ár.