Ferill 90. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 220  —  90. mál.




Svar



dómsmálaráðherra við fyrirspurn Guðrúnar Ögmundsdóttur um nálgunarbann.

     1.      Hvernig hafa ákvæði um nálgunarbann í lögum nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, nýst?
    Ákvæði um nálgunarbann kom inn í lög um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, í nýjum XIII. kafla A og í 232. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, með breytingarlögum nr. 94/2000 sem tóku gildi í maí árið 2000. Úræði þetta var nýmæli sem hefur það markmið að veita fórnarlömbum ofbeldisbrota aukna vernd, einkum í tengslum við heimilisofbeldi. Ákvæðin um nálgunarbann leystu m.a. af hólmi refsiákvæði í almennum hegningarlögum þar sem fjallað var um refsingu við því að brjóta gegn svokallaðri lögregluáminningu. Samkvæmt eldri reglum var lögreglu heimilt að veita slíka áminningu þeim sem ónáðaði eða raskaði friði manns með því að ásækja hann eða ofsækja, t.d. með bréfum eða símhringingum. Voru lögregluáminningar tiltölulega fátíðar. Á því eina og hálfa ári sem liðið er frá gildistöku lagaákvæðanna hefur úrræði þetta nýst ágætlega, eins og sjá má af tölum um að dómstólar hafa fallist á nálgunarbann að kröfu lögreglu í næstum öllum tilvikum. Ætla má að beiting þessa ákvæðis aukist frekar eftir því sem úrræðið verður þekktara meðal þolenda ofbeldisbrota með tímanum.

     2.      Hversu margar kærur hafa borist til lögreglu vegna háttsemi sem leitt getur til nálgunarbanns og hvernig hafa þær skipst á milli lögregluembætta?
    Alls hafa komið fram 14 formlegar beiðnir um nálgunarbann hjá lögreglustjórum á fimm embættum á landinu. Embættin og skipting beiðna eftir þeim er eftirfarandi:

Embætti

Fjöldi beiðna

Reykjavík
5
Kópavogur
4
Selfoss
3
Ísafjörður
1
Akranes
1

     3.      Í hve mörgum tilfellum hefur lögregla krafist nálgunarbanns fyrir héraðsdómi?

    Lögreglan hefur í fjórum tilvikum óskað eftir úrskurði héraðsdóms um nálgunarbann á grundvelli beiðni brotaþola. Þrisvar sinnum hefur lögreglan á tveimur embættum óskað eftir slíkum úrskurði að eigin frumkvæði, þ.e. tvisvar í Reykjavík og einu sinni á Höfn í Hornafirði. Því hefur lögreglan krafist nálgunarbanns fyrir héraðsdómi alls sjö sinnum.

     4.      Í hve mörgum tilfellum hefur héraðsdómur orðið við slíkri kröfu lögreglu?

    Alls hafa dómstólar sex sinnum kveðið upp úrskurð um nálgunarbann en einu sinni hafnað slíkri kröfu.

     5.      Hvert er eðli þeirra mála sem upp hafa komið?

    Erfitt er að koma við nákvæmri flokkun á eðli þeirra mála sem upp hafa komið. Í sama málinu getur um verið að ræða grun um ofbeldisbrot, margs konar ónæði, eignarspjöll og hótanir. Í framangreindum 17 tilvikum þar sem úrræðið hefur komið til skoðunar hjá lögreglu, hvort heldur er að eigin frumkvæði hennar eða samkvæmt beiðni, hefur það verið af eftirfarandi ástæðum: Tvisvar sinnum hefur úrræðið komið til skoðunar vegna kvartana um ítrekuð eignarspjöll og ónæði. Fimm sinnum hefur úrræðið komið til skoðunar vegna margs konar ónæðis og hótana. Sjö sinnum hefur úrræðið komið til skoðunar vegna margs konar hótana, ónæðis og ofbeldis í kjölfar sambúðarslita og skilnaðar. Þrisvar sinnum hefur úrræðið komið til skoðunar vegna ofbeldisbrota.

     6.      Hefur farið fram sérstök kynning fyrir lögreglumenn á ákvæðum um nálgunarbann?
    Ekki hefur farið fram sérstök kynning á landsvísu fyrir lögreglumenn á ákvæðum um nálgunarbann. Fullyrða má þó að lögreglumenn séu almennt vel upplýstir um úrræðið og skilyrði þess. Enn sem komið er hafa álitaefni um nálgunarbann aðeins komið til skoðunar hjá stærstu embættunum, en þar hafa lögreglustjórar farið yfir úrræðið með lögreglumönnum innan síns umdæmis. Dómsmálaráðuneytið hefur nú sent öllum lögreglustjórum bréf þar sem óskað er að þeir kynni lögreglumönnum við embættin sérstaklega lagaákvæði um nálgunarbann. Þess má einnig geta að í ráðuneytinu er í undirbúningi útgáfa bæklings sem sérstaklega verður ætlaður þolendum ofbeldisbrota þar sem gerð verður grein fyrir þessu úrræði ásamt ýmsum öðrum leiðbeiningum þeim til handa.