Ferill 65. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 224  —  65. mál.




Svar



landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Ástu R. Jóhannesdóttur um sölu ríkisjarða.

     1.      Hvaða ríkisjarðir hafa verið seldar á undanförnum fimm árum, hverjum var selt og á hvaða verði?
    Í landbúnaðarráðuneytinu er ekki til samantekt um þær upplýsingar sem óskað er svara við undir þessum lið. Ljóst er að það tekur mun lengri tíma að vinna slíka samantekt en ráðuneytinu er gefinn til að svara fyrirspurn þessari í bréfi Alþingis dags. 4. október 2001 og getur haft í för með sér töluverðan kostnað. Hér á eftir fara hins vegar nöfn þeirra ríkisjarða á forræði landbúnaðarráðuneytisins sem seldar hafa verið á árunum 2000 og 2001:

     Árið 2000.
    Akur, Hvolhreppi, Rangárvallasýslu.
    Bakkakot, Rangárvallahreppi, Rangárvallasýslu.
    Breiðabólsstaður, Skaftárhreppi, Vestur-Skaftafellssýslu.
    Flókastaðir, Fljótshlíðarhreppi, Rangárvallasýslu.
    Hafnardalur, Hólmavíkurhreppi, Strandasýslu.
    Hóll í Firði, Ísafjarðarbæ, Ísafjarðarsýslu.
    Indriðakot, Vestur-Eyjafjallahreppi, Rangárvallasýslu.
    Kaldbakur, Hrunamannahreppi, Árnessýslu.
    Klauf, Vestur-Landeyjahreppi, Rangárvallasýslu.
    Krókur, Biskupstungnahreppi, Árnessýslu.
    Lambastaðir, Hraungerðishreppi, Árnessýslu.
    Lækjartún, Ásahreppi, Rangárvallasýslu.
    Meiðavellir, Kelduneshreppi, Norður-Þingeyjarsýslu.
    Norður-Foss, Mýrdalshreppi, Vestur-Skaftafellssýslu.
    Ormskot, Vestur-Landeyjarhreppi, Rangárvallasýslu.
    Rannveigarstaðir, Djúpavogshreppi, Suður-Múlasýslu.
    Reykjakot II, Ölfusi, Árnessýslu.
    Sauðhagi II, Austur-Héraði, Norður-Múlasýslu.
    Seljanes, Reykhólahreppi, Austur-Barðastrandarsýslu.
    Uppsalir, Hvolhreppi, Rangárvallasýslu.
    Ytri-Tunga, Staðarsveit, Snæfellsnessýslu.

     Árið 2001.
    Akursel, Öxarfjarðarhreppi, Norður-Þingeyjarsýslu.
    Árhvammur, Reykdælahreppi, Suður-Þingeyjarsýslu.
    Borgarholt, Biskupstungnahreppi, Árnessýslu.
    Hluti úr landi Brandshúsa, Gaulverjabæjarhreppi, Árnessýslu.
    Breiðabólsstaður, Dalabyggð, Dalasýslu.
    Brúarland, Borgarbyggð, Mýrasýslu.
    Bræðraból, Ölfusi, Árnessýslu.
    Eyjar, Breiðdalshreppi, Suður-Múlasýslu.
    Framnes, Kaldrananeshreppi, Strandasýslu.
    Grímshús, Aðaldælahreppi, Suður-Þingeyjarsýslu.
    Grænahraun, Hornafirði, Austur-Skaftafellssýslu.
    Gröf í Svarfaðardal, Dalvíkurbyggð, Eyjafjarðarsýslu.
    Hjalli, Reykdælahreppi, Suður-Þingeyjarsýslu.
    Hólmahjáleiga, Austur-Landeyjahreppi, Rangárvallasýslu.
    Hrærekslækur, Norður-Héraði, Norður-Múlasýslu.
    Klængshóll, Dalvíkurbyggð, Eyjafjarðarsýslu.
    Kvoslækur, Fljótshlíðarhreppi, Rangárvallasýslu.
    Melgraseyri, Hólmavíkurhreppi, Strandasýslu.
    Minni-Ólafsvellir, Skeiðahreppi, Árnessýslu.
    Pula, Holta- og Landsveit, Rangárvallasýslu.
    Stekkur í Hafnarfirði.
    Syðri-Vellir I, Gaulverjabæjarhreppi, Árnessýslu.
    Vesturkot, Skeiðahreppi, Árnessýslu.

    Kaupendur jarðanna voru ábúendur sem höfðu áunnið sér kauprétt á þeim skv. 38. gr. jarðalaga, nr. 65/1976, með síðari breytingum, í þremur tilvikum sveitarfélög, sbr. 1. mgr. 37. gr. sömu laga, og í nokkrum tilvikum aðilar sem gert höfðu hagkvæmustu tilboð í jarðirnar miðað við verð og greiðsluskilmála eftir að þær höfðu verið auglýstar til sölu fyrir milligöngu Ríkiskaupa, sbr. 2. lið hér á eftir.
    Samkvæmt starfsreglum ráðuneytisins dags. 1. maí 1999 var söluverð framangreindra jarða sem seldar voru ábúendum og sveitarfélögum á grundvelli 1. mgr. 37. gr. og 38. gr. jarðalaga, nr. 65/1976, metið af aðilum utan ráðuneytisins, oftast af Ríkiskaupum.
    Alþingi hefur með setningu upplýsingalaga, nr. 50/1996, lögfest þá meginreglu að verja beri gögn sem varða einka- og fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt þykir og eðlilegt að leynt fari. Enda þótt gildissvið þessara laga taki ekki til Alþingis og stofnana sem undir það heyra er þó til þess að líta að fundir þingsins eru háðir í heyranda hljóði og gögn sem þar eru lögð fram eru almenningi aðgengileg en þau eru prentuð í Alþingistíðindum og einnig birt á vefsíðu þingsins. Þegar litið er til þess er ljóst að mat á inntaki stjórnarskrárvarins upplýsingaréttar þingsins og takmarkanir sem hann sætir hljóta að byggjast á sömu sjónarmiðum og þær takmarkanir sem lögfestar hafa verið gagnvart upplýsingarétti almennings. Í ábendingum sem fram komu í skýrslu um starfsskilyrði stjórnvalda og lögð var fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi, sbr. þskj. 376, er þessi skilningur staðfestur. Jafnframt var þar bent á að æskilegt væri að inntak þessa réttar yrði nánar afmarkað í þingskapalögum, þar á meðal hvaða upplýsingar ráðherra væri heimilt að undanþiggja í svörum við fyrirspurnum frá Alþingi. Endurskoðun á þingskapalögum um þessi atriði hefur hins vegar enn ekki farið fram og verður þetta mat því ekki byggt á öðrum sjónarmiðum en þeim sem þingið hefur sjálft lagt til grundvallar í framangreindum lögum.
    Samkvæmt 5. gr. upplýsingalaga, nr. 50/1996, er óheimilt að veita aðgang að upplýsingum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt þykir og eðlilegt að leynt fari. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur ítrekað skýrt þetta ákvæði m.t.t. aðgangs að upplýsingum um kaup- og söluverð ríkisjarða. Samkvæmt þeim fordæmum sem úrskurðir hennar veita eru upplýsingar um kaup- og söluverð ríkisjarða undanþegnar aðgangi almennings og byggist það á einkahagsmunum kaupenda. Þegar upplýsingar eru með þessum hætti undanþegnar aðgangi almennings leiðir jafnframt af því að stjórnvöld eru bundin þagnarskyldu gagnvart öðrum en þeim sem upplýsingarnar varða, nema annað leiði ótvírætt af lögum. Hafi samningum sem innihalda slíkar upplýsingar hins vegar verið þinglýst á grundvelli 9. gr. reglugerðar nr. 284/1996, um þinglýsingar, sem sett er með stoð í þinglýsingalögum, nr. 39/1978, og þeir þannig gerðir opinberir eru þeir ekki lengur undanþegnir aðgangi almennings og ber þá að veita aðgang að þeim.
    Að þessu virtu og þar sem ráðuneytinu er ekki kunnugt um hvort framangreindum kaupsamningum hefur verið þinglýst af kaupendum telur ráðuneytið sér ekki fært að veita upplýsingar um söluverð einstakra jarða.

     2.      Hvernig var staðið að hverri sölu, var eignin auglýst, var um útboð að ræða eða hvaða háttur var hafður á við söluna?
    Flestar framangreindar ríkisjarðir voru seldar ábúendum þeirra sem höfðu áunnið sér kauprétt á þeim skv. 38. gr. jarðalaga, nr. 65/1976, með síðari breytingum, og voru þær því ekki auglýstar til sölu. Ábúendur ríkisjarða öðlast slíkan kauprétt að ábýlisjörðum sínum ef þeir hafa haft ábúð á þeim í 10 ár eða lengri tíma og leggja fram meðmæli hlutaðeigandi sveitarstjórnar og jarðanefndar með kaupunum. Eftirtaldar ríkisjarðir voru seldar með öðrum hætti: jörðin Akursel var seld Öxarfjarðarhreppi, jörðin Stekkur var seld Hafnarfjarðarbæ og hluti úr landi Brandshúsa var seldur sveitarfélaginu Gaulverjabæjarhreppi í Árnessýslu skv. 1. mgr. 37. gr. jarðalaga, nr. 65/1976, en samkvæmt því ákvæði er heimilt að selja ríkisjarðir sveitarfélögum sem jarðirnar eru í. Jarðirnar Eyjar í Breiðdalshreppi, Suður-Múlasýslu, Framnes í Kaldrananeshreppi, Strandasýslu, Gröf í Svarfaðardal, Dalvíkurbyggð, Eyjafjarðarsýslu, Hjalli í Reykdælahreppi, Suður-Þingeyjarsýslu, Hrærekslækur í Norður-Héraði, Norður-Múlasýslu, Kvoslækur í Fljótshlíðarhreppi, Rangárvallasýslu, Minni-Ólafsvellir, Skeiðahreppi, Árnessýslu, og Reykjakot II, Ölfusi, Árnessýslu, voru allar auglýstar til sölu með opinberri auglýsingu í fjölmiðlum í samræmi við starfsreglur ráðuneytisins. Ríkiskaup höfðu milligöngu um að auglýsa jarðirnar til sölu. Leitað var eftir kauptilboðum í jarðirnar og voru kaupendur jarðanna þeir sem áttu hagkvæmustu tilboð í þær miðað við verð og greiðsluskilmála, sbr. og reglugerð nr. 651/1994, um ráðstöfun eigna ríkisins, sem sett er með stoð í lögum nr. 52/1987, um opinber innkaup, sbr. nú lög nr. 94/2001 um sama efni.

     3.      Hvert var markaðsverð á sambærilegum eignum á sama tíma á sama svæði?
    Í landbúnaðarráðuneytinu eru ekki til upplýsingar um þau atriði sem óskað er svara við undir þessum lið. Jafnframt er ljóst að það tæki langan tíma að afla slíkra upplýsinga og hefði í för með sér töluverðan kostnað.

     4.      Hverjir eru eigendur þessara jarða í dag?
    Samkvæmt þeim upplýsingum sem til eru í skjalasafni ráðuneytisins hafa einungis tvær framangreindra jarða verið seldar aftur eftir að ráðuneytið seldi þær ábúendum og sveitarfélögum samkvæmt framansögðu, þ.e. Kaldbakur í Hrunamannahreppi, Árnessýslu, og Uppsalir í Hvolhreppi, Rangárvallasýslu. Aðrar jarðir sem ráðuneytið hefur selt, sbr. svar við 1. lið, eru enn í eigu sömu aðila og keyptu þær af ráðuneytinu.