Ferill 111. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 302  —  111. mál.




Svar



samgönguráðherra við fyrirspurn Kristjáns Pálssonar um einbreiðar brýr.

     1.      Hve margar einbreiðar brýr eru óbreikkaðar á þjóðvegi 1, sundurliðað eftir kjördæmum samkvæmt nýrri kjördæmaskipan?
    Gert er ráð fyrir að um næstu áramót verði 78 einbreiðar brýr á hringveginum. Þessar brýr eru í þremur kjördæmum samkvæmt nýrri kjördæmaskipan og er skipting þeirra eftirfarandi:

Norðvesturkjördæmi 7 brýr
Norðausturkjördæmi 27 brýr
Suðurkjördæmi 44 brýr

     2.      Hvaða áform eru uppi um breikkun einbreiðra brúa á þjóðvegi 1, sundurliðað eftir kjördæmum samkvæmt nýrri kjördæmaskipan, og hver mun kostnaðurinn verða?
    Samkvæmt núgildandi vegáætlun sem samþykkt var 13. maí 2000 og nær til ársins 2004 er gert ráð fyrir að taka úr umferð, ýmist með endurbyggingu eða breikkun, 16 einbreiðar brýr. Bæði er um að ræða stök verkefni og verkefni tengd vegaframkvæmdum. Fjárveitingar í vegáætlun til þessara verkefna, bæði til vega- og brúargerðar, eru um 1.900 m.kr.
    Fjöldi þeirra einbreiðu brúa sem teknar verða úr umferð á tímabili vegáætlunarinnar skiptist þannig milli kjördæma:

Norðvesturkjördæmi 3 brýr
Norðausturkjördæmi 5 brýr
Suðurkjördæmi 8 brýr

    Hugmyndir eru um frekari fækkun einbreiðra brúa í langtímaáætlun í vegagerð sem samþykkt var á Alþingi 2. júní 1998 og nær til ársins 2010. Þar er um að ræða 11 brýr, ýmist í stökum verkefnum eða í tengslum við breytingar og endurbætur á vegum. Kostnaður við þessi verkefni er áætlaður um 1.600 m.kr. og er þá talinn kostnaður við vega- og brúargerð.
    Fjöldi þeirra einbreiðu brúa sem fara úr umferð samkvæmt tillögum í langtímaáætlun á árunum 2005–2010 skiptist milli kjördæma á eftirfarandi hátt:

Norðvesturkjördæmi 4 brýr
Norðausturkjördæmi 2 brýr
Suðurkjördæmi 5 brýr

    Í flestum þessara verkefna eru stórar brýr, en auk þess verður haldið áfram að setja stálrör í stað smærri einbreiðra brúa, þar sem það er unnt. Fjöldi þeirra eða skipting milli kjördæma liggur ekki fyrir.