Ferill 265. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 310  —  265. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, með síðari breytingum.

Flm.: Ögmundur Jónasson.



1. gr.

    1. mgr. 5. gr. laganna verður svohljóðandi:
    Einn dómari skipar dóm í hverju máli. Nú neitar ákærði sök og dómari telur sýnt að niðurstaða kunni að verulegu leyti að ráðast af mati á sönnunargildi framburðar vitna fyrir dómi og skal þá dómstjóri ákveða að þrír héraðsdómarar skipi dóm í málinu.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 150. gr. laganna:
     a.      2. mgr. fellur brott.
     b.      Orðin „eða 2.“ í 3. mgr. falla brott.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Venjulega eru tvö dómstig í dómsmálum hér á landi. Frá því eru þó undantekningar í svokölluðum minni málum. Er þar átt við einkamál þar sem fjárhagslegir hagsmunir eru ekki miklir og opinber mál þar sem refsingar eru ekki þungar. Í slíkum málum þarf leyfi frá Hæstarétti til þess að unnt sé að áfrýja héraðsdómi, sbr. 152. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, og 150. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mál.
    Röksemdir fyrir takmörkun á rétti til áfrýjunar eru fyrst og fremst þær að takmarka málafjölda á áfrýjunarstigi. Miklir hagsmunir eru bundnir við að álag á áfrýjunarstigi verði ekki of mikið þannig að málsmeðferð dragist á langinn. Undanfarin ár hefur náðst mikill árangur hvað varðar málshraða fyrir Hæstarétti.
    Hér er lagt til að felldar verði niður lögbundnar takmarkanir við því að maður sem hefur verið sakfelldur í opinberu máli geti áfrýjað niðurstöðunni til Hæstaréttar. Ákvörðun handhafa ríkisvaldsins um að ákæra einstakling fyrir refsiverðan verknað er að sjálfsögðu stór ákvörðun. Leiði ákæran til sakfellingar getur slíkt verið mikið áfall fyrir þann sem fyrir verður. Það hlýtur að þurfa sterk rök og mikla þjóðfélagslega hagsmuni til þess að setja lagareglu sem takmarkar rétt sakfellds manns til þess að bera sakfellinguna undir dómara á æðra dómstigi. Að mati flutningsmanns eru rökin fyrir óheftum áfrýjunarrétti sakfelldra manna í opinberum málum svo sterk að önnur rök verða að víkja. Sparnaðarrökum má ekki tefla fram á kostnað réttlætis og mannréttinda.
    Þegar um er að ræða mál sem ráðast af sönnunargildi framburðar vitna er líklegt að nauðsynlegt sé að vega og meta ýmis álitaefni og er eðlilegt við slíkar aðstæður að fleiri en einn dómari dæmi. Með þessum hætti er stuðlað að traustara réttaröryggi.