Ferill 293. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 358  —  293. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 57/1990, um flokkun og mat á gærum og ull, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
     a.      3. mgr. fellur brott.
     b.      5. mgr., sem verður 4. mgr., orðast svo:
             Heimilt er landbúnaðarráðherra að setja nánari ákvæði um starfssvið gæru- og ullarmatsmanna og nefnda skv. 1. og 2. mgr.

2. gr.

    1. mgr. 7. gr. laganna orðast svo:
    Kostnaður af starfi gæru- og ullarmatsnefnda greiðist úr ríkissjóði en kostnað af starfi matsmanna greiða viðkomandi afurðastöðvar.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í landbúnaðarráðuneytinu að tilhlutan landbúnaðarráðherra en með því er stefnt að því að leggja niður starf eftirlitsmanns með ullarmati sem starfar á grundvelli 6. gr. laga nr. 57/1990, um flokkun og mat á gærum og ull, með síðari breytingum. Samkvæmt framangreindu ákvæði ræður landbúnaðarráðherra eftirlitsmann með ullarmati samkvæmt tillögu ullarmatsnefndar og skal hann hafa sérþekkingu á því sviði. Ullarverð hefur hins vegar verið lágt síðustu árin en kostnaður við ullarsöfnun mikill og umræður því verið um að lækka beri þennan kostnað eins og unnt er. Samkvæmt 5. gr. laganna er gert ráð fyrir að löggiltir ullarmatsmenn annist mat á ull. Jafnframt er þar gert ráð fyrir að með reglugerð sé unnt að skylda afurðastöðvar og söluaðila (þar með taldar sútunarverksmiðjur) til að hafa á sinn kostnað í þjónustu sinni löggilta matsmenn til að annast mat á ull samkvæmt lögunum og að sjá þeim fyrir aðstöðu við matið. Matinu er heimilt að skjóta til sérstakra kærunefnda sem einnig starfa á grundvelli laganna og eru skipaðar af landbúnaðarráðherra. Einungis einn kaupandi er að ull frá framleiðendum hér á landi en ullarverðið er verð sem byggist á samkomulagi milli Bændasamtaka Íslands og kaupandans. Þessi kaupandi hefur haft í þjónustu sinni matsmenn samkvæmt framangreindum ákvæðum og hefur reynslan sýnt að mat þeirra uppfyllir í meginatriðum þær kröfur sem markaðurinn gerir til vörunnar. Þá er gert ráð fyrir að framangreind kæruheimild verði áfram í lögunum ef ágreiningur rís um ullarmat. Í samræmi við það er ekki lengur talið nauðsynlegt að hafa eftirlitsmann með ullarmati starfandi með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í núgildandi lögum. Í frumvarpi þessu eru því lagðar til breytingar sem hafa í för með sér að starf eftirlitsmanns með ullarmati verður lagt niður.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Hér er lagt til að fellt verði brott ákvæði sem gerir ráð fyrir að landbúnaðarráðherra ráði sérstakan eftirlitsmann með ullarmati með sérþekkingu. Með því móti er dregið úr kostnaði við vinnslu ullarinnar sem því nemur. Kostnaður við störf hans hefur verið greiddur úr ríkissjóði. Ef afurðastöðvar eða aðrir vilja halda uppi eftirliti með ullarmatinu er þeim að sjálfsögðu heimilt að ráða slíkan eftirlitsmann á eigin kostnað.

Um 2. gr.

    Þetta ákvæði verður sjálfkrafa leitt af þeim breytingum sem lagðar eru til í 1. gr. frumvarpsins en eins og áður segir hafa laun eftirlitsmanns með ullarmati verið greidd úr ríkissjóði.

Um 3. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 57/1990,
um flokkun og mat á gærum og ull, með síðari breytingum.

    Tilgangur frumvarpsins er að leggja niður starf eftirlitsmanns með ull og gærum sem nú starfar á grundvelli 6. gr. laganna.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er gert ráð fyrir að árlegur kostnaður ríkissjóðs vegna verkefnisins lækki um 8 m.kr.