Ferill 339. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 445  —  339. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á sveitarstjórnarlögum, nr. 45/1998.

Flm.: Guðmundur Árni Stefánsson, Rannveig Guðmundsdóttir,


Sigríður Jóhannesdóttir, Kristján L. Möller,     Össur Skarphéðinsson,


Jóhanna Sigurðardóttir, Svanfríður Jónasdóttir.



1. gr.

    Við fyrri málslið 5. mgr. 61. gr. laganna bætist: þ.m.t. fjárhagslegar skuldbindingar vegna einkafjármögnunar og rekstrarleigu.

2. gr.

    Við 1. málsl. 3. mgr. 67. gr. laganna bætist: þ.m.t. fjárhagslegar skuldbindingar vegna einkafjármögnunar og rekstrarleigu.

3. gr.

    Lög þessi ölast þegar gildi.

Greinargerð.


    Í seinni tíð hafa sumar sveitarstjórnir í auknum mæli „fjármagnað“ byggingarframkvæmdir og raunar einnig rekstur húsnæðis með samningum við einkaaðila sem byggja, eiga og reka viðkomandi húsnæði, en sveitarfélögin greiða fyrir afnotaréttinn með langtímasamkomulagi. Þessi leið hefur verið farin hvort heldur um er að ræða lögbundin verkefni sveitarfélaga eða ekki. Um þessa leið hafa verið pólitísk átök og sýnist sitt hverjum um fjárhagslegan ávinning sveitarfélaga af slíkum lántökum þegar ráðast þarf í brýnar fjárfestingar. Fleiri álitamál hafa vaknað í þessu sambandi.
    Um það er þó ekki deilt að ákvörðunarvald af þessum toga liggur hjá hverri sveitarstjórn, svo fremi sem fjárhagsleg geta sveitarfélagsins leyfir slíkar skuldbindingar, auk þess að slíkir samningar við einkaaðila gangi að öðru leyti ekki gegn gildandi lögum og reglum.
    Á hinn bóginn hefur verið óvissa um hvernig slíkar skuldbindingar skuli færa í ársreikninga sveitarfélaga, sbr. 67. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998. Hliðstæð álitamál hafa einnig verið uppi varðandi einkaframkvæmdir og rekstrarleigu við gerð og afgreiðslu fjárhagsáætlana, hvort heldur er til eins eða þriggja ára, sbr. 61. og 63. gr. sveitarstjórnarlaga, enda einkaframkvæmdarsamningar þess eðlis að hverfandi eða enginn kostnaður fellur á sveitarfélög fyrr en framkvæmdum er lokið.
    Á því hefur borið að einstök sveitarfélög hafi reynt að komast hjá því að gera fullnægjandi grein fyrir slíkum fjárhagsskuldbindingum í fjárhagsáætlunum og ársreikningum. Það er með öllu óviðunandi að sveitarfélög geti skuldbundið skattgreiðendur jafnvel um milljarða króna
til langs tíma án þess að sérstaklega sé gerð grein fyrir þeim í fjárhagsáætlunum, né heldur að þær séu færðar nákvæmlega til bókar í efnahagsreikningi ársreiknings.
    Félagsmálaráðuneytið hefur reynst ófært um að veita fullnægjandi svör við fyrirspurnum sveitarstjórnarmanna um þessi álitaefni og hefur m.a. vísað til þess að hér sé um nýmæli að ræða hjá sveitarfélögum hérlendis og að ekkert sé sérstaklega um þau atriði fjallað í sveitarstjórnarlögum. Ekki nægir að taka á þessum veigaþungu álitamálum í reglugerð ráðherra sem honum ber að setja um nánari ákvæði varðandi bókhald og ársreikninga sveitarfélaga að höfðu samráði við Hagstofu Íslands og Samband íslenskra sveitarfélaga. Alþingi verður að setja lög um hvernig með skuli fara, þannig að allri óvissu sé eytt.
    Til að taka af öll tvímæli í þessum efnum er þetta frumvarp flutt. Í því er gerð ljós sú skylda sveitarfélaga að upplýsa nákvæmlega um fjárhagsskuldbindingar vegna einkafjármögnunar og rekstrarleigu í fjárhagsáætlunum og ársreikningum.