Ferill 223. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 501  —  223. mál.




Svar



umhverfisráðherra við fyrirspurn Kolbrúnar Halldórsdóttur um akstur utan vega.

          1.      Hvernig er háttað eftirliti með akstri utan vega:
                  a.      innan friðlýstra svæða,
                  b.      í óbyggðum,
                  c.      almennt?

    Akstur utan vega er bannaður skv. 17. gr. náttúruverndarlaga, nr. 44/1999. Það er fyrst og fremst hlutverk lögreglu að sjá til þess að þessu sé fylgt. Náttúruvernd ríkisins hefur reynt á eigin vegum að halda úti reglulegu eftirliti með akstri utan vega og merktra vegarslóða, sérstaklega á friðlýstum svæðum, og er eftirlitið í höndum landvarða. Einnig hafa landverðir haft afskipti af slíku utan friðlýstra svæða þegar þeir standa ökumenn að verki og jafnframt hafa þeir afmáð för eftir ökutæki næst vegi.
     Innan friðlýstra svæða. Afskipti landvarða á náttúruverndarsvæðum eru tvenns konar, þ.e. annars vegar afskipti af ökumönnum þegar þeir eru staðnir að verki og hins vegar að afmá för utan vega þar sem ökumaður er horfinn af svæðinu. Ljóst er að landverðir ná ekki til nema lítils hóps ökumanna sem annaðhvort af ásetningi eða gáleysi virða ekki reglur um bann við akstri utan vega og merktra slóða.
     Í óbyggðum. Eftirlit á vegum Náttúruverndar ríkisins er fólgið í eftirliti landvarða sem starfa á náttúruverndarsvæðum á hálendinu og starfsmanna Náttúruverndar ríkisins þegar þeir eiga þar leið um.
     Almennt. Náttúruvernd ríkisins berast oft ábendingar um akstur utan vega eða um ljót för eftir akstur utan vega. Einnig berast ábendingar um för eftir akstur utan vega og lélegar merkingar á leyfðum vegarslóðum hafi ökumenn villst eða farið af réttri leið.
     Í þessu tilfelli er rétt að benda á undanþáguákvæði 17. gr. náttúruverndarlaga, nr. 44/1999, þar sem segir að einstaklingar sem starfa við landbúnað, landmælingar, línu- og vegarlagnir og rannsóknir geti fengið undanþágu frá reglum um bann við akstri utan vega. Nokkuð er um að sótt sé um slíka undanþágu vegna rannsóknarstarfa.

     2.      Hversu mörg tilvik um slíkan ólögmætan akstur hafa verið skráð og kærð árlega sl. fimm ár?
    Aðeins fá tilvik um akstur utan vega, sem landverðir eða starfsmenn Náttúruverndar ríkisins hafa orðið vitni að, hafa verið skráð og enn færri kærð.
    Samkvæmt upplýsingum Náttúruverndar ríkisins hafa átta mál verið skráð hjá stofnuninni og kærð til sýslumanna síðustu fimm ár. Afgreiðsla mála hefur verið með mismunandi hætti hjá lögreglustjórum og nýlega féll dómur í Héraðsdómi Suðurlands vegna kæru um akstur utan vega við Hrafntinnusker þar sem kærði var sýknaður að því er virðist vegna sannanaskorts og skorts á merkingum á svæðinu.

     3.      Til hvaða aðgerða hefur verið gripið til að koma í veg fyrir slíkan ólögmætan akstur?
    Landvörðum sem starfa á náttúruverndarsvæðum er ætlað að fylgjast með og reyna að koma í veg fyrir akstur utan vega. Í því skyni má t.d. nefna að stórum steinum hefur verið raðað fyrir vegslóða sem ekki er ætlast til að ekið sé á eða spotti strengdur milli tveggja stika. Einnig ber að nefna ýmiss konar fræðslu og upplýsingar til ferðamanna. Reglugerð um akstur í óbyggðum var þýdd á ensku, þýsku, dönsku, frönsku og ítölsku.
    Náttúruvernd ríkisins hefur hafið samstarf við Landmælingar Íslands og Vegagerðina um kortlagningu allra vega og slóða sem Vegagerðin sér um og verða þessar leiðir merktar með GPS.

     4.      Hvaða ráðum er beitt til að lagfæra tjón á landi og náttúru eftir akstur utan vega?
    Innan friðlýstra svæða og á náttúruverndarsvæðum þar sem landverðir starfa reyna þeir að lagfæra tjón eins og hægt er. Hér er um að ræða tímafrekt verk en markmiðið er að afmá för næst vegi til þess að koma í veg fyrir að fólk villist inn á leiðina og valdi þannig enn meiri spjöllum. Þegar landverðir hafa staðið ökumenn að verki hafa þeir látið þá taka þátt í því að afmá för. Einnig ber að nefna að landverðir hafa komið upp hindrunum, t.d. með því að raða steinum fyrir áberandi slóð eða strengja kaðal yfir slóðina eins og fyrr segir.

     5.      Hvaða refsingum hefur verið beitt fyrir ólögmætan akstur utan vega? Er stefnt að breytingum á refsiákvæðum fyrir lögbrot á þessu sviði?
    Ráðuneytinu er kunnugt um tvö mál, annars vegar í Árnessýslu og hins vegar í Rangárvallasýslu, þar sem lögreglustjórar gerðu sátt, með gerólíkum hætti þó, vegna aksturs utan vega þar sem ökumenn voru staðnir að verki. Ráðuneytinu er ekki kunnugt um að ökumenn hafi verið sakfelldir í framhaldi af kæru þar sem höfðað hefur verið mál, sbr. það sem segir hér að framan um dóm Héraðsdóms Suðurlands sem nýlega féll í einu slíku máli. Refsiákvæði náttúruverndarlaga eru í samræmi við refsiákvæði annarra laga um umhverfismál, þ.e. sektir eða fangelsi allt að tveimur árum. Einnig er að finna í almennum hegningarlögum, eins og þeim var breytt með lögum nr. 122/1999, sérstakt refsiákvæði en samkvæmt því skal sá sem veldur verulegu jarðraski þannig að landið breyti verulega um svip eða spillir merkum náttúruminjum sæta fangelsi allt að fjórum árum sé um meiri háttar brot gegn lagaákvæðum um verndun umhverfis að ræða. Refsiákvæði vegna brota á náttúruverndarlögum eru fullnægjandi og ekki stendur til að breyta þeim.

     6.      Stendur til að endurskoða reglugerð nr. 619/1998, um akstur í óbyggðum, og þá á hvern hátt?
    Reglugerð um akstur í óbyggðum nr. 619/1998 byggist á eldri lögum um náttúruvernd, nr. 93/1996. Núgildandi ákvæði er að finna í 17. gr. laga nr. 44/1999, um náttúruvernd, og er það miklu víðtækara en það sem gildandi reglugerð byggist á. Stefnt er að því að setja nýja reglugerð fyrir næsta sumar og er unnið að gerð hennar á vegum Náttúruverndar ríkisins og ráðuneytisins sem stendur.
    Rétt er að hafa í huga að hvað sem líður setningu reglugerðar um akstur í óbyggðum fara eftirlitsmenn á vegum Náttúruverndar ríkisins ekki með lögregluvald. Því er ljóst að ekki dugar að efla landvörsluna eina og sér heldur þarf ekki síður að efla löggæsluna.
    Ráðuneytið er þeirrar skoðunar að ýmislegt sé hægt að gera, svo sem með meiri upplýsingastarfsemi. Það virðist gefa góða raun að upplýsa ferðamenn um af hverju verið sé að setja reglur um akstur utan vega sem er fyrst og fremst vegna þess að landið er viðkvæmt en vaxtartíminn á hálendinu er aðeins tveir mánuðir og gróðurþekjan á hálendi á erfitt uppdráttar eftir að öfl á borð við vinda og vatn fara að vinna á henni, enn fremur að útgefendur ýmiss konar korta, ferðabóka og leiðbeiningarbæklinga gefi málinu meiri gaum, en í mörgum nýlegum útgáfum er að finna merktar slóðir, jafnvel vegi, þar sem aldrei hefur verið ekið eða slóðir sem myndast hafa vegna tímabundinnar starfsemi, svo sem smölunar. Eins og áður kemur fram er ætlunin að GPS-merkja alla vegi og slóða sem Vegagerðin sér um og mun það auðvelda ökumönnum að halda sig á réttum leiðum.
    Nauðsynlegt er að efla samstarf við lögregluna og má í því tilviki nefna að í eina tíð starfaði svokölluð „fjallalögregla“ yfir sumarmánuðina. Þar var um að ræða lögreglumenn sem fóru um hálendið yfir háannatímann. Það er mat starfsmanna Náttúruverndar ríkisins að vitneskjan um að von sé á lögreglu inn á vinsæl útivistarsvæði á hálendinu hafi dregið verulega úr akstri utan vega, svo ekki sé talað um ölvunarakstur en slíkum akstri fylgir oft akstur utan vega. Einnig þarf að efla samstarf við áhugamannafélög um umhverfismál og útivist, fyrirtæki og stofnanir. Það verkefni nær fyrst og fremst til innlendra ökumanna. Á sama hátt þarf að efla samstarf við skipafélögin og bílaleigurnar. Að þessu vinnur Náttúruvernd ríkisins sem stendur.