Ferill 361. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 518  —  361. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum.

Flm.: Árni R. Árnason, Guðmundur Hallvarðsson,


Einar K. Guðfinnsson, Drífa Hjartardóttir, Guðjón Guðmundsson.1. gr.


    Á eftir 1. málsl. 3. mgr. 36. gr. laganna kemur nýr málsliður svohljóðandi: Þó er heimilt að fjárfesta fyrir allt að 5% af hreinni eign sjóðsins í stofnfjárbréfum sparisjóða eða verðbréfum hlutafélaga sem stofnuð eru til að taka yfir starfsemi sparisjóða, eða í verðbréfum sem falla undir 6. tölul. 1. mgr. og ekki eru skráð á skipulegum markaði, enda séu a.m.k. 30% af heildarhlutafé viðkomandi fyrirtækja í eigu ríkis eða sveitarfélaga þegar fjárfesting fer fram.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

G r e i n a r g e r ð.


    Með lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, var komið á almennri löggjöf um lífeyristryggingar. Í VII. kafla laganna, 36.–39. gr. eru ákvæði um fjárfestingarstefnu lífeyrissjóða sem m.a. setja mörk um fjárfestingar þeirra í einstökum tegundum verðbréfa við hlutfall af hreinni eign. Þau ákvæði takmarka heimildir sjóðanna til fjárfestingar í verðbréfum sem ekki hafa skráð kaup- og sölugengi á skipulegum markaði við 10% af hreinni eign sjóðs.
    Í þessu tilliti er ekki gerður greinarmunur á óskráðum verðbréfum eftir því hve trygg endurgreiðsla þeirra er metin. Á því takmörkun samkvæmt þessum ákvæðum jafnt við um fjárfestingu í ríkisbréfum, ríkistryggðum verðbréfum eða skuldabréfum sveitarfélaga sem í hlutabréfum fyrirtækja. Takmarkanirnar draga úr áhættudreifingu lífeyrissjóða í fjárfestingum og bein afleiðing þess er aukin áhætta. Höfuðhlutverk lífeyrissjóða er að ávaxta lífeyrissparnað fólks, en áhrif aukinnar áhættu vegna takmarkaðrar áhættudreifingar birtist í lakari ávöxtum lífeyrissparnaðar en ella væri.
    Ákvæðin hafa leitt til þess að lífeyrissjóðir fjárfesta umtalsvert í erlendum verðbréfum sem falla undir skilyrði um skráð kaup- og sölugengi á skipulegum markaði. Gengislækkun skráðra verðbréfa, innlendra sem erlendra, hefur í mörgum tilvikum leitt til þess að eign lífeyrissjóða í óskráðum bréfum hefur hækkað sem hlutfall af hreinni eign þeirra og orðið hærri en sem nemur 10% án viðbótarfjárfestingar í þeim. Möguleikar sjóðanna til þátttöku í fyrirtækjum á starfssvæðum sjóðfélaga eru því verulega takmarkaðir þar sem flest þeirra eru ekki skráð á skipulegum markaði fyrr en alllöngu eftir stofnun.
    Tilgangur þessa frumvarps er tvíþættur, að draga úr takmörkunum áhættudreifingar í fjárfestingum lífeyrissjóða og veita þeim þannig möguleika á betri ávöxtun lífeyrissparnaðar og jafnframt að skapa lífeyrissjóðunum rýmri heimildir til fjárfestinga í innlendum óskráðum verðbréfum fyrirtækja, um allt að 5% af hreinni eign þeirra, sem hér segir:
     1.      Annars vegar að heimila þeim að fjárfesta í stofnfjárbréfum sparisjóða eða verðbréfum hlutafélaga sem stofnuð eru til að taka yfir starfsemi sparisjóða þótt þau séu ekki skráð á skipulegum markaði. Sparisjóðir og hlutafélög sem stofnuð verða til að yfirtaka starfsemi þeirra eru háð eftirliti Fjármálaeftirlitsins og ársreikningar þeirra öllum aðgengilegir. Lífeyrissjóðir eru víða meðal stærstu stofnfjáraðila sparisjóðanna. Stofnfé hefur verið aukið til að standast kröfur laga um eiginfjárhlutfall viðskiptabanka og sparisjóða sem leiðir til þess að auka þarf eigið fé til móts við aukin umsvif í útlánum. Þótt sparisjóðir hafi nú fengið heimild til að færa starfsemi sína í hlutafélög kunna þeir að þurfa nokkurn tíma til undirbúnings því, ellegar að þau hlutafélög verða ekki strax skráð á Verðbréfaþingi. Meðan svo stendur er nauðsyn að auðvelda lífeyrissjóðum að gegna áfram sama hlutverki í starfi sparisjóðanna og að nýta sér þann fjárfestingarkost sem stofnfjárbréf þeirra eru eða hlutabréf í þeim þar til skráning fer fram.
     2.      Hins vegar að heimila þeim að fjárfesta í verðbréfum fyrirtækja sem ríki eða sveitarfélög stofna til að taka við starfsemi fyrirtækja sinna eða stofnana sem breytt er í hlutafélög í þeim tilgangi að fá aðra aðila að rekstri þeirra, eða hlutafélaga sem stofnuð eru til fjármögnunar efnilegra viðskiptahugmynda í atvinnuþróunarstarfi. Hið fyrra kann að koma upp þegar raforkufyrirtæki starfa í samkeppni, en þau hafa hingað til starfað hvert um sig á sínu tilgreinda svæði, án allrar samkeppni og þess aðhalds sem hún veitir. Það kann einnig að eiga við um áhaldahús eða vélamiðstöðvar sveitarfélaga sem eru í samkeppni við verktakafyrirtæki. Þá þykir eðlilegt að ríki og sveitarfélög takmarki áhættu sína, selji jafnvel eignarhluta sína til að stunda ekki samkeppni við fyrirtæki annarra aðila sem eiga að öðru leyti mál sín undir afstöðu ríkis og sveitarfélaga sem stjórnvalda. Hið síðara varðar uppbyggingu eignarhaldsfélaga sem eru hlutafélög sveitarfélaga, Byggðastofnunar fyrir hönd ríkissjóðs og annarra fjárfesta, stofnuð víða um land til að greiða fyrir fjármögnun nýrra viðskiptahugmynda eða endurfjármögnun sprotafyrirtækja. Sú uppbygging mun ganga mjög hægt við núgildandi takmarkanir í heimildum lífeyrissjóða til að fjárfesta í þeim og eignast hluta þess sem ráðgert er að verði í eigu annarra en ríkis og sveitarfélaga. Í þessum tilvikum eru lífeyrissjóðir álitlegir til að gegna hlutverki leiðandi fjárfesta hver á sínu svæði og hafa forustu um hlutafjárkaup annarra aðila af ríki og sveitarfélögum eða til móts við þau.