Ferill 375. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 587  —  375. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um rásir fyrir búfénað til að koma í veg fyrir slys.

Flm.: Þuríður Backman.



    Alþingi ályktar að við nýframkvæmdir samkvæmt vegáætlun verði gert ráð fyrir rásum fyrir búfénað undir vegi þar sem girt er meðfram vegum en bithagar beggja vegna. Jafnframt verði hafin vinna við gerð slíkra rása undir vegi þar sem umferð er þung og bithagar eru nytjaðir beggja vegna vegar.

Greinargerð.


    Þingsályktunartillaga þessi hefur verið lögð fram áður en ekki fengið framgang. Hún er því endurflutt óbreytt en upplýsingar sem fram koma í greinargerð hafa verið uppfærðar.
Árlega berast fréttir af alvarlegum umferðarslysum sem orðið hafa vegna þess að búfé gengur laust á vegum úti. Eftirfarandi tafla sýnir slysatíðni af þeim sökum árin 1994–2000 samkvæmt tölum frá Umferðarráði:

Ár Slys Dauði Mikið slasaðir Lítið slasaðir Óhöpp án meiðsla
1994 4 0 0 5 59
1995 3 0 0 4 91
1996 4 0 2 8 89
1997 5 0 1 4 117
1998 4 0 0 5 123
1999 4 0 1 4 122
2000* 2 0 0 2 130
* Tölur fyrir árið 2000 eru bráðabirgðatölur og geta því hækkað frá því sem hér er gefið upp

    Eins og hér kemur fram hefur fjöldi umferðaróhappa af völdum lausagöngu búfjár meira en tvöfaldast á því árabili sem upplýsingar liggja fyrir um. Alls hafa 36 manns slasast í þessum óhöppum.
    Umræðan um lausagöngu búfjár á vegum og hættuna sem af henni skapast verður sífellt háværari og hafa margir orðið til þess að hugleiða hvað væri til ráða. Ein þeirra lausna, sem litið hefur verið til, er að setja upp girðingar meðfram öllum vegum. Viðhald slíkra girðinga þarf að vera viðvarandi ef tryggja á að þær haldi búfénaði frá umferðarleiðum vélknúinna ökutækja. Girðingar meðfram vegum hafa hins vegar þann ókost að draga úr nýtingu túna og verða jafnvel einnig til þess að fé er rekið um þjóðvegi.
    Þá er þess að geta að víða háttar svo til að bithagar eru báðum megin vegar eða bithagar öðrum megin og vatnsból hinum megin. Við slíkar aðstæður hefur oft dregist að girða vegi vegna augljósra vandamála sem það hefði í för með sér. Sú lausn sem hér er gerð tillaga um yrði til þess að víkja þeim vandamálum úr sögunni.
    Framtíðarlausn gæti verið að leggja göng úr ræsahólkum undir alla nýja vegi og vegi sem verið er að endurnýja og laga. Þannig má tryggja leið fyrir búfénað. Mikilvægt væri að nota tækifærið og gera slíkar rásir fyrir búfénað um leið og vegur er lagður eða endurbættur til að draga sem mest úr viðbótarkostnaði. Ef tekin verður ákvörðun um að girða þjóðvegi á næstu árum má um leið gera ráð fyrir búfjárrásum eins og hér er lýst og hafa um staðsetningu þeirra samráð við staðkunnuga í hverju tilviki. Enginn verulegur aukakostnaður hlýst af þessu ef það er gert um leið og vegirnir eru lagðir. Í nánast öllum tilvikum er hægt að staðsetja búfjárrásir af þessu tagi þannig að þær nýttust einnig til að hleypa burt leysingarvatni á vorin en væru þurrar í annan tíma.
    Í tillögunni er jafnframt lagt til að hafin verði vinna við gerð slíkra rása undir vegi þar sem umferð er þung, reka þarf kýr yfir vegi til mjalta eða bithagar nytjaðir beggja vegna vega. Flutningsmaður gerir ekki tillögu að sérstakri viðmiðun umferðarþunga í þessu sambandi enda getur reynst erfitt að draga mörkin aðeins við ákveðinn bílafjölda. Hins vegar er rétt að benda á að Umferðaröryggisnefnd Mýra- og Borgarfjarðarsýslu og Akraness sendi nýlega frá sér ályktun um girðingar með fram vegum. Í ályktuninni er lögð áhersla á að girt verði meðfram vegum þar sem 300 bílar eða fleiri fara að meðaltali um á dag að sumarlagi.
    Víða um land er góð reynsla af umræddum búfjárrásum, sérstaklega hjá þeim kúabændum sem verða daglega að reka kýrnar yfir þjóðvegi til mjalta eða beitar. Móta þarf samræmda stefnu í uppsetningu búfjárrása við alla vegagerð. Sömuleiðis þarf að setja upp framkvæmdaáætlun um uppsetningu rása þar sem umferð er þung og rásirnar því nauðsynlegar til að auka öryggi í umferðinni. Bændur hafa tekið þátt í kostnaði við gerð búfjárrása, en ósamræmi hefur verið í kostnaðarskiptingunni. Líta má á rásirnar sem öryggisbúnað á vegum landsins og eiga því að falla undir kostnað Vegagerðar ríkisins.
    Rás eins og hér hefur verið lýst sést á eftirfarandi teikningu.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.