Ferill 404. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 661  —  404. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um stofnun og rekstur tónminjasafns á Stokkseyri.

Flm.: Ísólfur Gylfi Pálmason, Ólafur Örn Haraldsson, Margrét Frímannsdóttir,


Drífa Hjartardóttir, Magnús Stefánsson, Katrín Fjeldsted.


    Alþingi ályktar að skipuð verði nefnd til að undirbúa stofnun og rekstur tónminjasafns á Stokkseyri í samstarfi við sveitarfélagið Árborg, héraðsnefnd Árnessýslu og Byggðasafn Árnessýslu.

Greinargerð.


    Með gildum rökum má segja að vagga tónlistarlífs á Íslandi í þeirri mynd sem nú er sé í þorpunum við suðurströndina, Stokkseyri og Eyrarbakka. Frá þessum þorpum koma þeir menn sem stóðu í fremstu víglínu á sviði tónsköpunar, kennslu og uppbyggingar tónlistarlífsins á fyrri hluta 20. aldar. Nægir að nefna aðeins fáa menn, tónskáldin og tónlistarmennina Sigfús Einarsson, Pál Ísólfsson og Friðrik Bjarnason og athafnamanninn og menningarfrömuðinn óþreytandi, Ragnar Jónsson sem kenndur var við Smára. Þessir menn áttu sér einnig forfeður sem stóðu fyrir blómlegu tónlistarstarfi og öðru menningarlífi í þessum þorpum og lögðu þar grunninn með starfi sínu. Má þar nefna Selsbræður, Bjarna, Jón, Ísólf og Gísla Pálssyni, á Stokkseyri.
    Tónmenningu Íslands hefur verið illa sinnt, lítið verið skráð og fjallað um starf íslenskra tónlistarmanna og sama og ekkert gefið út af texta um þá. Þá er hvergi til sértækt safn um menningu og sögu tónlistarinnar í takt við aðrar list- og menningargreinar. Hvergi er til einn staður þar sem finna má upplýsingar um menningu og sögu tónlistarinnar, hvorki í formi muna né ritaðra upplýsinga um þróunina.
    Hlutverk tónminjasafns verður að safna og varðveita og sýna hvers kyns gömul verðmæti er tengjast tónlist á Íslandi frá upphafi, svo sem hljóðfæri, hljómtæki, hljóðupptökur, nótur, bækur og myndir, svo og heimildir um íslenska tónmenningu í formi frásagna, bréfa, viðtala, blaða- og tímaritsgreina, ævisagna og kvikmynda sem endurspegla íslenska tónlistarflóru, hverju nafni sem hún nefnist.
    Reynslan sýnir að víða um land liggja hjá einkaaðilum munir og gögn sem tengjast tónlistarlífi þjóðarinnar allt frá lokum 19. aldar. Þá fer þeim einstaklingum fækkandi sem muna einstaka tónlistarviðburði í héruðum landsins sem aldrei var sagt frá á prenti eða í bréfum en hafa gildi í þessu sambandi. Tónminjasafn á að hafa frumkvæði að söfnun slíkra upplýsinga og kalla til samstarfs þá aðila sem fram að þessu hafa sýnt frumkvæði og áhuga á að safna slíkum gögnum. Þá skal leitast við að hafa samstarf við önnur söfn er nú þegar varðveita upplýsingar um íslenska tónlist, bæði í Reykjavík svo og héraðssöfn um land allt.
    Enginn skal efast um mikinn áhuga á að slíku safni verði komið á fót því áhuginn á tónlist hefur engin landamæri. Má í því sambandi nefna fjölmarga aðila meðal stofnana, fyrirtækja, félaga, skóla, kóra, kirkna, hljómsveita, leikfélaga, einstaklinga, menningarsjóða og sveitarfélaga sem líklegir væru til að veita slíku safni liðveislu.
    Á Stokkseyri er nú þegar fyrir hendi stór, lítið nýtt en vönduð bygging sem vel er haldið við, hraðfrystihúsið, sem með nauðsynlegum breytingum mætti gera að fyrirmyndartónminja- og menningarsetri við ströndina með glæsilegu útsýni yfir eina af fegurstu ströndum landsins og hafið sem mótað hefur tónmál Íslands meira en flest annað. Í þessu húsi mætti kortleggja tónlistarsögu landsins og miðla í formi fyrirlestra og námskeiðahalds auk upplýsinga til hins almenna safnagests, gera sögu íslenskrar tónlistar lifandi í glæsilegu menningarumhverfi. Safnið mundi ekki aðeins hýsa söguna heldur yrði það um leið upplýsingamiðstöð íslenskrar tónlistarsögu sem sinnt gæti fyrirspurnum um hana á netinu.
    Stokkseyri er steinsnar frá þéttbýlustu svæðum landsins og með væntanlegum suðurstrandarvegi yrði safn þetta staðsett sem hornsteinn í nýjum menningarhring út frá suðvesturhorni landsins og mundi henta vel skólanemendum sem almenningi. Með stofnun og starfrækslu þessa safns yrði tónlistinni í fyrsta sinn gert jafnhátt undir höfði og öðrum menningargreinum þjóðarinnar og minningu þeirra sem ruddu brautina reistur veglegur minnisvarði. Á sama hátt má hugsa sér möguleika á Eyrarbakka í tengslum við Húsið og þær byggingar sem Byggðasafn Árnesinga hefur yfir að ráða.
    Segja má að á tuttugustu öldinni sé fyrst hægt að tala um hljóðfæratónlist á Íslandi. Á þeirri öld og öldunum á undan var tónlistariðkun á Íslandi aðallega bundin söngnum og væri leikið á hljóðfæri var það gert til að styðja eða leika með söng. Á fyrstu áratugum tuttugustu aldar var einnig oft talað um söngsali þar sem tónleikahald fór fram og var það aðallega bundið einsöngs- og kórtónlist. Það var einnig fyrst upp úr aldamótunum að íslensk tónskáld fóru að gefa út sönglög sín á nótum að einhverju ráði. Breiddust þau skjótt um landið og voru þessi nýju íslensku lög sungin af allri þjóðinni, mörg þeirra eru það enn.
    Fyrir kom að hingað slæddist „einstaka söngfugl“, þ.e. hingað komu erlendir söngvarar og hljóðfæraleikarar og héldu hér tónleika í upphafi aldarinnar, en vart var hægt að tala um að meðal Íslendinga væri að finna hljóðfæraleikara framan af, að undanskildum Sveinbirni Sveinbjörnssyni og Haraldi Sigurðssyni, en þeir bjuggu báðir erlendis. Þó höfðu nokkrar konur lært að leika á píanó og komu þær aðallega fram sem undirleikarar á söngtónleikum. Þegar leið á annan og þriðja áratuginn fór að bera á menntuðum íslenskum píanó- og fiðluleikurum.
    Þegar Sigfús Einarsson og Páll Ísólfsson fluttust til Íslands fóru að heyrast raddir þess efnis, bæði á fundum og í blaðaskrifum, að gera yrði átak til uppbyggingar tónlistarlífinu; bæta yrði söngkennslu í skólum og stofna yrði tónlistarskóla og hljómsveit. Þórarinn Guðmundsson gerði tilraun til stofnunar Hljómsveitar Reykjavíkur árið 1921 en starfsgrundvöllur slíkrar hljómsveitar var þá ekki fyrir hendi. Árið 1925 er stofnuð hljómsveit að nýju, undir sama heiti, og nú undir stjórn Sigfúsar Einarssonar. Þessar hljómsveitir, en í þeim voru að mestu sömu mennirnir, voru upptaktur að stofnun Sinfóníuhljómsveitar Íslands um miðja öldina.
    Alþingishátíðin árið 1930 var viðburðarík og áhrifamikil hvað varðar tónlistarlífið. Sú áhersla sem lögð var á að hér léki hljómsveit, að mestu skipuð Íslendingum, varð til þess að hingað voru ráðnir hæfir erlendir stjórnendur. Fyrstur var ráðinn Johannes Velden (1929) til að kenna hljómsveitarmeðlimum, en stærsta skrefið var stigið þegar Franz Mixa var ráðinn til að stjórna hljómsveitinni á sjálfri hátíðinni. Hann samþykkti að koma hingað til lands að nýju um haustið ef stofnaður yrði tónlistarskóli og nýttu menn til þess hinn mikla félagsanda sem skapast hafði í kringum Alþingishátíðina. Það má til sanns vegar færa að meðlimir Hljómsveitar Reykjavíkur hafi stofnað Tónlistarskólann í Reykjavík haustið 1930. Er rekstur skólans var kominn í þrot 1932 var stofnað styrktarfélag um rekstur hans sem fékk heitið Tónlistarfélagið. Tónlistarskólinn átti síðar eftir að skila farsælu starfi á öldinni, ekki síst fyrir tilstilli frábærra kennara sem að honum völdust, bæði innlendra og erlendra.
    Við stofnun Ríkisútvarpsins haustið 1930 jókst aðgangur almennings að klassískri tónlist og varð útvarpið eins konar óbein uppeldisstofnun landsmanna í tónlist, sem og á öðrum sviðum. Hefur „gufan“ alla tíð frá stofnun átt sér stóran hóp velvildarmanna þó svo að samtímis hafi heyrst raddir er kvörtuðu sífellt undan „sinfóníugauli“ og vildur heyra harmonikkutónlist í staðinn.
    Tónlistarfélagið varð ekki aðeins styrktarfélag um rekstur Tónlistarskólans, heldur sá félagið, með tímanum, um umfangsmikið tónleikahald næstu 50 árin. Voru á vegum þess settar upp óperettur og óperur, hingað komu erlendir tónlistarflytjendur, einstaklingar og hópar, og má segja að tónleikahald Tónlistarfélagsins hafi opnað félögum þess tónlistarglugga inn í tónbókmenntir klassíska og rómantíska tímans með bestu fáanlegu flytjendum hverju sinni.
    Annað félag hefur staðið reglulega að tónlistarflutningi eftir miðja öldina, en það er Kammermúsíkklúbbutinn. Fyrsti klúbburinn með því heiti var stofnaður 1945 og stóð að tónleikahaldi um hríð. Nýr klúbbur með sama heiti var svo stofnaður 1957 og hefur staðið myndarlega að flutningi á kammertónlist æ síðan.
    Framan af voru réttindamál tónlistarmanna í ólestri. Þó fengu kennarar sem kenndu við Tónlistarskólann, og voru um leið Tónlistarfélagsmenn, laun fyrir sína vinnu, einnig fyrir leik sinn í Hljómsveit Reykjavíkur eftir að Tónlistarfélagið tók við henni við stofnun þess. Utanfélagsmenn börðust fyrir tilveru sinni, ekki aðeins í hljómsveitinni heldur einnig á dans- og kaffihúsum því að fínna þótti að kynna erlend nöfn á slíkum stöðum. Þetta ástand varð til þess að hagsmunafélag hljóðfæraleikara, Félag íslenskra hljómlistarmanna – FÍH – var stofnað árið 1932. Hefur það æ síðan barist fyrir réttindum félagsmanna sinna. Síðar kom annað slíkt félag, Félag íslenskra tónlistarmanna, en innan þess félags voru hljóðfæraleikarar sem flestir höfðu sótt framhaldsnám erlendis. Fæstir þeirra komust inn í FÍH því inntökuskilyrðin voru m.a. þau að geta leikið dægurtónlist eftir eyranu, en það gátu þeir fæstir eða vildu a.m.k. ekki segja frá því.
    Þegar leið á fimmta áratuginn vænkaðist hagur tónskáldanna hvað varðar réttindamál þeirra því árið 1945 var stofnað Tónskáldafélag Íslands og þremur árum síðar Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar – STEF. Hafa þessi félög æ síðan unnið að réttindamálum tónskálda í landinu og barist fyrir auknum flutningi á tónlist félagsmanna auk þess að gæta hagsmuna þeirra.
    Árið 1950 var sögulegt, einnig á sviði tónlistar. Það ár var Þjóðleikhúsið tekið í notkun sem um leið opnaði leið til umfangsmeira tónleikahalds en áður hafði verið. Strax frá upphafi var ráðist í óperettu- og óperusýningar og voru þær fluttar nokkuð reglulega fram yfir 1960, en eftir það voru þær mjög stopular.
    Árið 1950 er einnig sögulegt því að þá var stofnuð sinfóníuhljómsveit. Hljómsveit Reykjavíkur lagði smám saman upp laupana og hélt hún sína síðustu tónleika undir því heiti árið 1949. Tónlistarfélagið hafði ekki lengur fjárhagslegt bolmagn til að standa eitt að rekstri slíkrar hljómsveitar og varð að hætta honum. Varð Ríkisútvarpið helsti rekstraraðili hinnar nýju hljómsveitar og hefur æ síðan varið sterkur bakhjarl hennar. Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur vaxið jafnt og þétt með árunum og er í dag þekkt víða um heim fyrir vandaðan flutning sinn, bæði á tónleikum og í útgefnum hljóðritunum.
    Segja má að hin svokallaða nútímatónlist, þ.e. tónlist sem samin er á tuttugustu öldinni, hafi fyrst af alvöru farið að heyrast hér á landi árið 1960 er félagsskapurinn Musica Nova hóf reglulegt tónleikahald sitt. Félag þetta var stofnað af skapandi og flytjandi listamönnum, þ.e. ungum tónskáldum og hljóðfæraleikurum sem verið höfðu við framhaldsnám erlendis í greinum sínum en fengu hvergi inni með tónlist sína – og alls ekki hjá Tónlistarfélaginu. Félag þetta var grasrótarhreyfing og starfaði til ársins 1973. Félag þetta hefur aldrei verið lagt niður, en síðar var stofnað annað félag með sama nafni sem vann að sömu markmiðum. Vegna breyttra aðstæðna í tónlistarheiminum hefur hvorugt þessara félaga verið virkt um hríð.
    Íslensk tónskáld áttu lengi framan af í örðugleikum með að fá verks sín útgefin og kynnt fyrir hinum stóra heimi. Tónskáldin voru misdugleg við að fá verk sín prentuð og er það m.a. ástæðan fyrir því að enn eru mörg íslensk tónverk aðeins til í handritum.
    Árið 1968 stofnuðu íslensk tónskáld útgáfufélag sem fékk heitið Íslensk tónverkamiðstöð og var hún stofnuð að fyrirmynd slíkra félaga erlendis. Má segja að miðstöðin hafi vaxið hægt, en þétt og örugglega, og vinnur hún nú að blómlegri útgáfu á íslenskri tónlist, bæði á nótum og í hljóðritunum eftir því sem rekstrarrammi hennar leyfir.
    Tónleikahald hefur verið öflugt allt frá því að Tónlistarfélagið hóf reglulegt tónleikahald sitt árið 1937. Árið 1970 hófst svo nýr þáttur í íslensku tónleikahaldi þegar listahátíðunum var hrundið af stað. Þá voru skapaðar aðstæður til hátíðar á „heimsvísu“, með því að ekki aðeins komu helstu tónlistarflytjendur heimsins hingað og héldu tónleika heldur komu listamenn úr öðrum listgreinum og sýndu og fluttu okkur list sína. Þessi hátíð hefur verið haldin annað hvert ár æ síðan.
    Svo ríkt hefur tónlistarlífið verið á seinasta fjórðungi aldarinnar að fátt eitt af því verður talið upp hér. Þó mætti draga saman hluti eins og tónlistarflutning Kammersveitar Reykjavíkur og margra annarra samspilshópa, stofnun og starfsemi íslenskrar óperu, tónlistarhátíðir, t.d. á Kirkjubæjarklaustri, í Reykholti, á Egilsstöðum og víðar um land, stofnun sinfóníuhljómsveitar á Akureyri, tónleikahald á vegum Tónskáldafélagsins, Myrka músíkdaga, ErkiTíð og tónleikahald í kirkjum eins og Hallgrímskirkju, Dómkirkjunni, Langholtskirkju og víðar. Einnig má nefna öflugt kórstarf, bæði blandaðra kóra og karla- og barnakóra, öflugt starf tónlistarskóla og lúðrasveita og stóraukna útgáfu á hljóðritunum á verkum tónskáldanna, svo og með leik flytjenda.
    Hér hefur aðeins verið minnst á nokkra þætti í hinni almennu þróun tónlistarmálanna hér á landi á þessari öld. Að lokum má benda á fyrirsögn sem birtist í tímaritinu Þjóðólfi 23. september árið 1881 en hún hljóðar svo: „Um hús til sönglegra skemmtana, gleðileika o.fl. handa bæjarbúum.“ Er það ekki þetta hús sem við erum enn þá að berjast fyrir?