Ferill 457. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 737  —  457. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

Flm.: Gunnlaugur Stefánsson, Guðmundur Árni Stefánsson, Ásta R. Jóhannesdóttir,


Gísli S. Einarsson, Guðrún Ögmundsdóttir, Jóhann Ársælsson, Jóhanna Sigurðardóttir,
Karl V. Matthíasson, Katrín Andrésdóttir, Kristján L. Möller, Lúðvík Bergvinsson, Mörður Árnason, Rannveig Guðmundsdóttir, Sigríður Jóhannesdóttir,
Svanfríður Jónasdóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Össur Skarphéðinsson.


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 17. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „börn hans og kjörbörn“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: börn hans, kjörbörn, stjúpbörn og fósturbörn.
     b.      2. málsl. 1. mgr. orðast svo: Sama rétt til lífeyris öðlast börn, kjörbörn, stjúpbörn og fósturbörn sjóðfélaga sem nýtur fulls örorkulífeyris.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    17. gr. laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, fjallar um rétt til barnalífeyris þegar sjóðfélagi í lífeyrissjóði andast eða missir starfsorku. Í 1. mgr. er mælt fyrir um almenn skilyrði þess að eiga rétt til barnalífeyris, 2. mgr. mælir fyrir um lágmarksfjárhæð barnalífeyris á mánuði og 3. mgr. skyldar lífeyrissjóði til að útfæra nánar í samþykktun sínum reglur um töku barnalífeyris.
    Í 1. mgr. 17. gr. laganna er mælt fyrir um að barnalífeyrir skuli einvörðungu greiddur með börnum örorkulífeyrisþega sem fædd eða ættleidd eru fyrir orkutap hans en ekki gert ráð fyrir að börn örorkulífeyrisþega sem fædd eru eða ættleidd eftir orkutapið geti átt rétt á barnalífeyri. Þá er ekki gert ráð fyrir því í lögunum að stjúpbörn og fósturbörn örorkulífeyrisþega geti átt rétt til barnalífeyris. Barnalífeyrir er einnig greiddur á grundvelli 14. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, en þau réttindi eru óháð greiðslum lífeyrissjóða og gera ekki greinarmun á því hvenær börn örorkulífeyrisþega eru fædd. Þá veita lögin stjúpbörnum örorkulífeyrisþega einnig rétt til greiðslu barnalífeyris.
    Þetta frumvarp er flutt til þess að tryggja öllum börnum öryrkja jafnan lífeyrisrétt hvort sem þau eru börn öryrkjans, kjörbörn, stjúpbörn eða fósturbörn en í dag er 2. málsl. 1. mgr. 17. gr. svohljóðandi: Sama rétt til lífeyris öðlast börn fædd eða ættleidd fyrir orkutap sjóðfélaga sem nýtur fulls örorkulífeyris.
    Það getur ekki talist réttlátt að börn sem öryrkjar eignast njóti ekki sömu réttinda og þau börn sem voru fædd, ættleidd eða tekin í fóstur fyrir orkutap. Ekki verður séð hvaða rök liggja að baki núverandi skipan önnur en þau að spara lífeyrisjóðum fjármuni. Núverandi skipan má skilja sem skilaboð til öryrkja um að þeir eigi ekki að ala börn. Það hlýtur að brjóta í bága við öll almenn gildi mannréttinda og sú spurning verður áleitin hvort þessi skipan brjóti gegn mannréttindaákvæðum og jafnræðisreglu stjórnarskrár. Það hlýtur að teljast til grundvallarmannréttinda að ala börn og sjá fyrir þeim. Sá réttur verður ekki af öryrkja tekinn. Ljóst er að þörfin á auknum lífeyri með börnum öryrkja er mikil og vart verður séð að öryrkja sé kleift að ala upp barn án þess að barnalífeyrir úr lífeyrissjóði komi til. Örorkubætur duga tæpast til eigin framfærslu.
    Núverandi skipan gerir ráð fyrir að börn öryrkja, sem fædd eru eftir orkutap, öðlist ekki rétt til lífeyris og gildir hið sama um kjörbörn, fósturbörn og stjúpbörn. Fyrir gildistöku laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, naut ekki almennra laga sem mæltu fyrir um lágmarksinntak réttinda sem lífeyrissjóðum bar að fara eftir. Sérlög voru almennt sett um hvern lífeyrissjóð og setti viðkomandi lífeyrissjóður sér reglugerð sem samþykkt var af aðildarfélögum og staðfest af ráðherra. Reglur um barnalífeyri hafa ekki verið samræmdar að fullu með framangreindum lögum. Almennt virðist ekki gert ráð fyrir því að börn sem til koma eftir orkutap sjóðfélaga geti notið lífeyris. Þó má benda á að í 3. mgr. 18. gr. laga nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, skal greiða barnalífeyri með börnum örorkulífeyrisþega sem fæðast á næstu 12 mánuðum eftir orkutapið en aðeins með kjörbörnum sem ættleidd eru fyrir orkutapið. Þá eru reglur um fósturbörn og stjúpbörn nokkuð ólíkar. Þannig kveður 3. mgr. 12. gr. laga nr. 12/1999, um Lífeyrissjóð bænda, t.d. á um að fósturbörn og stjúpbörn sjóðfélaga skuli eiga sama rétt og börn hans og kjörbörn. Sambærilegt ákvæði var einnig í eldri lögum um þann lífeyrissjóð. Í 4. mgr. 12. gr. laga nr. 2/1997, um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga, er fósturbörnum sjóðfélaga veittur jafn réttur til barnalífeyris á við börn og kjörbörn sjóðfélaga og í 4. mgr. 18. gr. laga um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins er talað bæði um fósturbörn og stjúpbörn. Þá má benda á að 14. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, gerir ekki greinarmun á réttarstöðu barna, kjörbarna og stjúpbarna að þessu leyti.
    Ekki liggja fyrir upplýsingar um hversu mörg börn er um að ræða sem ekki njóta lífeyris vegna gildandi reglna en talið að þau séu ekki mjög mörg. Því er erfitt að meta nákvæmlega hver kostnaðarauki lífeyrissjóðanna yrði við breytinguna. Þó er ljóst að hann verður óverulegur í samanburði við hagsmuni og réttindi þeirra fjölskyldna sem hér eiga hlut að máli.
    Samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun ríkisins námu heildargreiðslur Tryggingastofnunar vegna barnalífeyris rúmum einum milljarði króna til 3.965 lífeyrisþega vegna 6.584 barna (desember 2000) en óskertar ársgreiðslur þess árs voru 159.234 kr. fyrir hvert barn eða um 13.270 kr. á mánuði að meðaltali. Samkvæmt lögum mega barnalífeyrisgreiðslur lífeyrissjóða aldrei nema lægri fjárhæð en 5.500 kr. með hverju barni örorkulífeyrisþega en að lágmarki 7.500 kr. á mánuði eftir lát sjóðfélaga til 18 ára aldurs barnsins. Upphæðirnar taka breytingum samkvæmt vísitölu neysluverðs (grunnvísitala 173,5 stig). Reglur um greiðslu barnalífeyris virðast þó vera eitthvað mismunandi milli lífeyrissjóða enda um lágmarksgreiðslur að ræða samkvæmt lögunum. Sem dæmi um fjárhæðir má nefna að Lífeyrissjóður verzlunarmanna greiðir nú 9.549 kr. á mánuði til 20 ára aldurs barnsins, Sameinaði lífeyrissjóðurinn greiðir 13.412 kr. á mánuði en Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, A-deild, greiðir nú 9.536 kr. til 22 ára aldurs barnsins vegna örorku foreldris og B-deild greiðir helming af barnalífeyri almannatrygginga eins og hann er á hverjum tíma eða 7.538 kr. nú.
    Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að 17. gr. laganna verði breytt þannig að börn örorkulífeyrisþega sem eru fædd eftir orkutap hans njóti sama réttar til lífeyris og börn sem fædd eru fyrir orkutapið. Þá er lagt til að réttur til barnalífeyris taki einnig til kjörbarna, stjúpbarna og fósturbarna örorkulífeyrisþegans.