Ferill 493. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 783  —  493. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins.

(Lagt fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)

1. gr.

    Við lögin bætast tvær nýjar greinar, svohljóðandi:

    a. (39. gr.)
    Lögreglumanni, sem leystur er frá embætti sínu þegar hann er fullra 65 ára, skal reiknaður ellilífeyrir skv. 15. eða 24. gr. eftir því sem við á hverju sinni en þó þannig að lífeyrir skal reiknaður eins og hann hefði starfað til 70 ára aldurs.
    Við útreikning viðbótarréttinda til 70 ára aldurs fyrir virkan sjóðfélaga í A-deild samkvæmt þessari grein skal miðað við meðalstigaávinning vegna lögreglustarfa síðustu þrjú heilu almanaksárin fyrir töku lífeyris. Á sama hátt skal við útreikning viðbótarréttinda til 70 ára aldurs fyrir virkan sjóðfélaga í B-deild samkvæmt þessari grein miða við meðalstarfshlutfall síðustu þrjú heilu almanaksárin fyrir töku lífeyris.
    Ákvæði 4. mgr. 15. gr. um hækkun lífeyris sjóðfélaga A-deildar vegna frestunar á töku lífeyris tekur ekki til þeirra sem taka lífeyri skv. 1. mgr.
    Ákvæði 25. gr. um rétt vaktavinnufólks til viðbótarlífeyris falla ekki undir útreikning viðbótarréttinda skv. 1. mgr.

    b. (40. gr.)
    Við upphaf lífeyristöku lögreglumanns sem fær reiknuð réttindi skv. 39. gr. skal reikna út kostnað vegna aukinna lífeyrisréttinda samkvæmt ákvæðum greinarinnar og skal ríkissjóður greiða lífeyrissjóðnum þá fjárhæð. Útreikningur þessara réttinda skal byggður á sömu tryggingafræðilegum forsendum og notaðar eru við mat á skuldbindingum sjóðsins. Með greiðslunni hefur ríkissjóður einnig gert að fullu upp skuldbindingar vegna lífeyrishækkana skv. 33. gr. vegna þeirra viðbótarréttinda sem reiknuð eru skv. 39. gr.

2. gr.

    Fyrirsögn IV. kafla laganna verður: Lagaskil og sérákvæði.

3. gr.

    Við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þeim lögreglumönnum, sem þegar eru orðnir fullra 65 ára við gildistöku laganna en eru ekki enn orðnir 70 ára og hafa ekki fengið lausn frá embætti, skal reiknaður lífeyrir skv. 39. gr., enda hafi þeim verið veitt lausn frá embætti fyrir 1. október 2002.
    Ákvæði 39. gr. tekur einnig til þeirra lögreglumanna sem eru orðnir fullra 65 ára og hafa látið af embætti eftir 13. júlí 2001 og hafið töku lífeyris í framhaldi af því.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að tekin verði upp sérákvæði um útreikning á lífeyri lögreglumanna. Er það í samræmi við yfirlýsingu dómsmálaráðherra og fjármálaráðherra með samkomulagi fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og Landssambands lögreglumanna frá 13. júlí 2001. Í yfirlýsingunni segir að ríkisstjórnin muni beita sér fyrir því að ákvæðum lögreglulaga, nr. 90/1996, verði breytt þannig að lögreglumenn verði leystir frá embætti sínu þegar þeir eru orðnir fullra 65 ára eða fyrr, eftir því sem dómsmálaráðherra ákveður með reglugerð. Jafnframt kemur fram í yfirlýsingunni að ríkisstjórnin muni beita sér fyrir nauðsynlegum breytingum á ákvæðum laga nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, þannig að lífeyrir verði reiknaður eins og viðkomandi hefði starfað til 70 ára aldurs. Samhliða frumvarpi þessu mun dómsmálaráðherra einnig leggja fram frumvarp til laga um breyting á lögreglulögum, nr. 90 13. júní 1996, vegna styttingar á starfsaldri lögreglumanna.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    A-liður (39. gr.) tekur einungis til þeirra sem eru í starfi lögreglumanns þegar þeim er veitt lausn frá embætti við 65 ára aldur og hefja töku ellilífeyris í beinu framhaldi af því. Ákvæðið tekur því ekki til þeirra sem fengið hafa lausn frá embætti fyrir 65 ára aldur. Með lögreglumanni er átt við þann sem telst lögreglumaður samkvæmt lögreglulögum, nr. 90/1996, og tekur laun samkvæmt kjarasamningi fjármálaráðherra og Landssambands lögreglumanna.
    Hér er um að ræða sérreglu um útreikning á ellilífeyri lögreglumanna. Mismunandi útreikningsaðferðir gilda eftir því hvort sjóðfélagi á aðild að A- eða B-deild sjóðsins. Gert er ráð fyrir að sú sérregla sem hér er tekin upp taki einnig til útreiknings á makalífeyri þannig að hafi sjóðfélaga verið reiknuð viðbótarréttindi við útreikning lífeyris samkvæmt greininni, þ.e. sjóðfélagi hefur hafið töku lífeyris, fái maki hans aukin réttindi í samræmi við það ef til greiðslu makalífeyris kemur. Rétt er að undirstrika að af orðalagi ákvæðisins leiðir að það tekur ekki til þeirra sem hafa hafið töku örorkulífeyris fyrir 65 ára aldur, sbr. 16. og 26. gr., og með sama hætti eiga ákvæði 25. gr. um rétt vaktavinnufólks til viðbótarlífeyris ekki við þegar reiknaður er viðbótarréttur lögreglumanns samkvæmt ákvæðinu.
    Gert er ráð fyrir að lögreglumönnum verði reiknaður lífeyrir eins og þeir hefðu starfað til 70 ára aldurs hvort sem þeir eru sjóðfélagar í A- eða B-deild lífeyrissjóðsins. Fyrir sjóðfélaga í A-deild sjóðsins er gert ráð fyrir að mat á lífeyri þeirra skuli miða við meðalstigaávinning síðustu þriggja almanaksára. Undanskilin eru fyrirmæli 4. mgr. 15. gr. sem taka til þeirra sem fresta töku lífeyris fram yfir 65 ára aldur. Fyrir sjóðfélaga í B-deild sjóðsins skulu viðbótarréttindi miðast við meðalstarfshlutfall síðustu þriggja almanaksára.
    B-liður (40. gr.) fjallar um greiðslu ríkissjóðs á viðbótariðgjaldi til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins í hvert sinn sem lögreglumanni er úrskurðaður viðbótarlífeyrir skv. 39. gr., þ.e. á sama tíma og viðbótarréttindin verða virk. Þetta viðbótariðgjald verður samkvæmt greininni reiknað í hvert sinn sem taka ellilífeyris hefst. Útreikningurinn tekur mið af þeim tryggingafræðilegu forsendum sem eru notaðar hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Auðvelt er að taka mið af slíku uppgjöri í tryggingafræðilegum útreikningum á sjóðnum. Ákvæðið gerir ekki ráð fyrir að viðbótarskuldbindingar, sem kunna að myndast í framtíðinni vegna lögreglumanna sem láta munu af störfum við 65 ára aldur, hafi áhrif á mismun áfallinnar skuldbindingar og eignar sjóðsins eða raski þar skuldbindingum launagreiðenda innbyrðis. Þá hefur ákvæðið ekki áhrif á útreikning á iðgjaldaprósentu launagreiðenda til A-deildar skv. 4. mgr. 13. gr. Sú skipan sem hér er lögð til leiðir til þess að þær skuldbindingar sem hér er stofnað til verða ekki virkar gagnvart ríkinu fyrr en hlutaðeigandi lögreglumaður hefur látið af embætti sínu við 65 ára aldur og hafið töku lífeyris í framhaldi af því. Að því leyti sem þær verða reiknaðar með í framtíðarskuldbindingum (heildarskuldbindingum) lífeyrissjóðsins verður að sama skapi reiknað með framtíðariðgjöldum vegna þeirra.

Um 2.gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 3. gr.

    Tilgangur ákvæðisins er að tryggja samræmi við bráðabirgðaákvæði í frumvarpi dómsmálaráðherra sem vísað er til í almennum athugasemdum frumvarpsins. Er hér fylgt sömu tímamörkum og lögð eru til í frumvarpi dómsmálaráðherra. Þannig er við það miðað að lögreglumönnum sem orðnir eru 65 ára við gildistöku laganna en hafa ekki enn látið af störfum, verði veitt lausn í síðasta lagi 1. október 2002, enda hafi þeir þá ekki valið að um starfslok þeirra fari eftir eldri reglum.
    Í samræmi við yfirlýsingu dómsmálaráðherra og fjármálaráðherra sem vísað er til í almennum athugasemdum frumvarpsins þykir rétt að þeir lögreglumenn sem fengu lausn við 65 ára aldur, eftir 13. júlí 2001, og hófu töku lífeyris í framhaldi af því, eigi einnig kost á því að fá lífeyri sinn reiknaðan skv. a-lið 1. gr. frumvarpsins.

Um 4. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.