Ferill 333. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 980  —  333. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um eldi nytjastofna sjávar.

Frá meiri hluta sjávarútvegsnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Kristin Hugason frá sjávarútvegsráðuneytinu, Halldór Runólfsson, Sigurð Ingvarsson, Sigurð Helgason og Gísla Jónsson frá fisksjúkdómanefnd.
    Þá bárust nefndinni umsagnir frá Vélstjórafélagi Íslands, Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar, Eyþingi – Sambandi sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, Útgerðarfélagi Akureyringa hf., Landssambandi veiðifélaga, Þjóðhagsstofnun, Þróunarstofu Austurlands, Byggðastofnun, Landssambandi smábátaeigenda, Náttúruvernd ríkisins, dýralækni fisksjúkdóma, fisksjúkdómanefnd, veiðimálastjóra, Hollustuvernd ríkisins, Hólaskóla – fiskeldisbraut, Verslunarráði Íslands, Hafrannsóknastofnuninni, Veiðimálastofnun og Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum.
    Frumvarp sama efnis var lagt fram á 126. löggjafarþingi og þá í tengslum við frumvarp til laga um breytingar á lögum um lax- og silungsveiði, nr. 76/1970. Frumvarpið er nú lagt fram að nýju með breytingum sem kynntar voru í sjávarútvegsnefnd sl. vor.
     Í frumvarpinu er kveðið á um skipun fiskeldisnefndar en henni er ætlað það hlutverk að leiða saman og samræma þau sjónarmið sem uppi eru annars vegar varðandi eldi vatnafiska og hins vegar varðandi eldi nytjastofna sjávar. Í lögum um lax- og silungsveiði er sams konar ákvæði um fiskeldisnefnd.
    Nefndin fjallaði sérstaklega um þau skilyrði sem sett eru í frumvarpinu fyrir útgáfu rekstrarleyfa. Meiri hlutinn telur að skilyrðin geti verið mjög íþyngjandi og fráhrindandi fyrir aðila sem einungis stunda, eða hyggjast stunda, eldi í smáum stíl. Til að forðast tæknilegar hindranir í þessum efnum leggur meiri hlutinn til að sjávarútvegsráðherra verði veitt heimild til að gera vægari kröfur til þessara aðila og til afmörkunar verði heimild ráðherra miðuð við fiskeldisstöðvar sem ekki falla undir matsskyldu samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er grein fyrir í sérstöku þingskjali.
    Breytingarnar eru eftirfarandi:
     1.      Lagt er til áskilnaður 1. mgr. 3. gr. um að Fiskistofa skuli afla umsagnar Hollustuverndar ríkisins áður en hún gefur út rekstrarleyfi falli brott. Ástæða þessa er að starfsleyfi samkvæmt lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, er skilyrði rekstrarleyfis skv. 2. mgr. 3. gr. frumvarpsins og er aðkoma Hollustuverndar tryggð með því.
     2.      Í 2. mgr. 3. gr. frumvarpsins segir að að umsókn um rekstrarleyfi skuli fylgja skilríki um afnot vatns. Skilyrði þetta á greinilega rót sína að rekja til laga um lax- og silungsveiði en á bersýnilega ekki við hér.
     3.      Loks er lagt til að ráðherra verði heimilt, þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 3. gr., að kveða sérstaklega á um skilyrði fyrir veitingu rekstrarleyfa til stöðva sem ekki falla undir matsskyldu samkvæmt lögum nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum. Um þessa breytingu var rætt hér að framan.
    Árni Steinar Jóhannsson sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hann ósamþykkur áliti þessu.

Alþingi, 14. mars 2002.



Einar K. Guðfinnsson,


form., frsm.


Kristinn H. Gunnarsson.


Vilhjálmur Egilsson.



Helga Guðrún Jónasdóttir.


Jónas Hallgrímsson.


Guðmundur Hallvarðsson,


með fyrirvara.