Ferill 630. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1001  —  630. mál.Frumvarp til lagaum breytingu á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)


1. gr.

    Við 2. gr. laganna bætist eftirfarandi orðskýring í réttri stafrófsröð:
    Garðyrkjubýli, gróðrarstöð og garðyrkjustöð merkir í lögum þessum lögaðila eða býli, með virðisaukaskattsskylda veltu, sem framleiðir grænmeti (útirækt/ylrækt), skrautjurtir, garðplöntur eða tré og runna.

2. gr.

    Á eftir X. kafla laganna kemur nýr kafli, XI. kafli, Um framleiðslu og verðmyndun gróðurhúsaafurða 2002–2011, með fimm nýjum greinum, svohljóðandi, og breytist röð annarra kafla og greina samkvæmt því:

     a.      (50. gr.)
    Markmið með ákvæðum þessa kafla um framleiðslu og verðmyndun gróðurhúsaafurða eru:
     a.      að lækka verð til neytenda á innfluttum sem og innlendum garð- og gróðurhúsaafurðum,
     b.      að auka hagkvæmni og samkeppnishæfni innlendrar grænmetisframleiðslu til hagsbóta fyrir grænmetisframleiðendur og neytendur,
     c.      að treysta tekjugrundvöll grænmetisframleiðenda,
     d.      að styðja framleiðslu- og markaðsmöguleika innlendrar framleiðslu þegar hún er nægjanleg að magni og gæðum.

     b.      (51. gr.)
    Landbúnaðarráðherra er heimilt að gera samning við Bændasamtök Íslands eða Samband garðyrkjubænda um verkefni til þess að ná settum markmiðum skv. 50. gr. Heimilt er að semja um beinar greiðslur til framleiðenda til lækkunar á verði einstakra tegunda afurða, framlög til rekstraraðfanga, framlög til fjárfestinga, framlög til úreldingar á gróðurhúsum og framlög til kynningar-, rannsóknar-, þróunar- og endurmenntunarverkefna.
    Heimilt er landbúnaðarráðherra að fela öðrum stofnunum eða Bændasamtökum Íslands að annast faglega umsjón með verkefnum sem samið er um skv. 1. mgr. og framkvæmd þeirra, enda sé skipulag þeirra og starfsreglur í samræmi við ákvæði laga.
    Landbúnaðarráðherra setur reglugerð um framkvæmd verkefna skv. 1. mgr. Þar skal m.a. kveðið á um heildarfjárhæð beingreiðslna og skiptingu eftir tegundum, fjárhæð á kíló tegundar/afurðar og gæðaflokka eftir tímabilum, lækkun eða hækkun fjárhæðar á kíló tegundar/afurðar þegar frávik verða frá áætlun um selt magn. Landbúnaðarráðherra auglýsir áætlaðar beingreiðslur á kíló tegundar fyrir 15. desember og koma þær til greiðslu á næsta almanaksári.

     c.      (52. gr.)
    Rétt til beingreiðslna eiga allir framleiðendur tegunda sem samið er um skv. 51. gr. en réttur til beingreiðslna takmarkast jafnframt við að um sé að ræða viðskipti milli bókhaldsskyldra einstaklinga eða lögaðila með virðisaukaskattsskylda veltu samkvæmt lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.
    Landbúnaðarráðherra er heimilt að fela öðrum stofnunum eða Bændasamtökum Íslands að halda skrá yfir rétthafa beingreiðslna samkvæmt þessum kafla. Á hverju lögbýli skal aðeins einn framleiðandi vera skráður handhafi beingreiðslna. Þegar um fleiri sjálfstæða rekstraraðila er að ræða með aðskilinn búrekstur getur hver og einn þeirra verið handhafi beingreiðslna.

     d.      (53. gr.)
    Landbúnaðarráðherra setur reglugerð um uppgjör beingreiðslna, þar á meðal um skyldu umsækjenda til að taka fram upplýsingar um afurð, verð og viðskiptakjör og um frágang viðskiptaskjala.
    Ef framleiðandi verður ekki við kröfum skv. 1. mgr. skal réttur til beingreiðslna felldur niður þar til framleiðandi hefur gert fullnægjandi úrbætur. Framleiðandi sem hefur tekið við beingreiðslum á grundvelli rangrar upplýsingagjafar skal endurgreiða ofteknar beingreiðslur með 50% álagi.

     e.      (54. gr.)
    Ákvæði 42. gr. um úrskurðarnefnd gilda einnig um ágreining um beingreiðslur samkvæmt þessum kafla.
    Allir framleiðendur vörutegunda sem samningar skv. 51. gr. ná til eru háðir þeim breytingum á réttarstöðu sem lög þessi hafa í för með sér.
    Landbúnaðarráðherra setur með reglugerðum og öðrum stjórnvaldsreglum nánari ákvæði um framkvæmd þessa kafla.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Réttur til beingreiðslna skv. XI. kafla árin 2002 og 2003 skal takmarkaður við að hafin sé framleiðsla á viðkomandi vörutegund 1. mars 2002 í þeirri garðyrkjustöð sem sótt er um beingreiðslur vegna, eða vörutegundin hafi verið framleidd þar á árinu 2001. Þessi réttur er bundinn framleiðslustað en ekki framleiðanda.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í landbúnaðarráðuneytinu að tilhlutan landbúnaðarráðherra og hefur að geyma breytingar á ákvæðum laga nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum, sem miða að því að hafa áhrif á framleiðslu og markaðssetningu gróðurhúsaafurða og garðávaxta.
    Frumvarpið á rætur að rekja til þess að á árinu 2000 og í byrjun árs 2001 urðu miklar umræður um verðlagningu og verðhækkanir sem orðið höfðu á grænmeti hér á landi á undanförnum árum og mánuðum.
    Í apríl 2001 skipaði landbúnaðarráðherra starfshóp um framleiðslu- og markaðsmál gróðurhúsaafurða og garðávaxta sem m.a. var falið að meta starfsskilyrði við álagningu tolla og verðmyndun á gróðurhúsaafurðum og garðávöxtum við framleiðslu, heildsölu og smásölu. Enn fremur skyldi starfshópurinn gera tillögur til landbúnaðarráðuneytisins um hvernig tryggja mætti framleiðslumöguleika íslenskrar garðyrkju og lækka verð á gróðurhúsaafurðum og garðávöxtum til neytenda. Lögð var áhersla á að tillögugerð yrði hraðað svo sem frekast væri unnt. Starfshópinn skipuðu: Ari Edwald, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, fulltrúi sömu samtaka, Elín Björg Jónsdóttir, formaður Foss, fulltrúi Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, Kjartan Ólafsson, formaður Sambands garðyrkjubænda, fulltrúi Bændasamtaka Íslands, Kristján Bragason, framkvæmdastjóri SGS, fulltrúi Alþýðusambands Íslands, Sigurgeir Þorgeirsson, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands, fulltrúi sömu samtaka, Ólafur Friðriksson deildarstjóri, fulltrúi landbúnaðarráðuneytisins, og Guðmundur Sigþórsson skrifstofustjóri, fulltrúi landbúnaðarráðuneytisins, sem jafnframt var skipaður formaður starfshópsins.
    Starfshópurinn hóf þegar störf og aflaði ýmissa gagna, m.a. fól hann ASÍ að gera verðkannanir fyrir og eftir tollabreytingu á grænmeti síðasta vor. Einnig var unnin á vegum starfshópsins skýrsla um grænmetismarkaðinn í Danmörku þar sem lýst var markaðsfyrirkomulagi og verðmyndun á kartöflum, tómötum, salati, agúrkum, papriku, sveppum, hvítkáli, blómkáli og gulrótum tímabilið 1999–2000 og janúar–maí 2001. Þá var aflað ítarlegra gagna um opinberar stuðningsaðgerðir í Evrópusambandinu og verðmyndun grænmetis og kartaflna í Noregi. Auk þessa aflaði starfshópurinn ýmissa upplýsinga, m.a. frá Hagþjónustu landbúnaðarins, Bændasamtökum Íslands, Sambandi garðyrkjubænda, Garðyrkjuskóla ríkisins, Hagstofu Íslands, ráðgjafanefnd um inn- og útflutning landbúnaðarvara, Samkeppnisstofnun, Sölufélagi garðyrkjumanna svf., Ágæti hf., Banönum ehf., Rafmagnsveitum ríkisins, Landsvirkjun, tollstjóranum í Reykjavík og Þjóðhagsstofnun, svo og frá fjármálaráðuneyti, utanríkisráðuneyti og landbúnaðarráðuneyti.
    Í áfangatillögu starfshópsins til landbúnaðarráðherra frá 30. apríl 2001 var lagt til að tollar á afurðir innan 7. kafla tollskrár sem ekki eru framleiddar hér á landi yrðu felldir niður. Á grundvelli þessarar áfangatillögu lagði landbúnaðarráðherra fyrir ríkisstjórn 4. maí 2001 frumvarp til laga um breytingu á tollalögum sem ráðgjafanefnd um inn- og útflutning landbúnaðarvara hafði samið að beiðni hans. Frumvarpið fól í sér möguleika til að gefa aukið svigrúm til að fjölga þeim grænmetistegundum og því magni sem unnt yrði að flytja inn á lægri tollum eða án tolla. Um var að ræða vörur svo sem lauk, rósakál, jöklasalat, ertur og belgaldin, spergil, kúrbít, ólífur o.fl. Með lögum nr. 86/2001, um breytingu á tollalögum, nr. 55/1987, varð frumvarpið að lögum. Með reglugerð nr. 439/2001 um tollkvóta á grænmeti og niðurfellingu tolla kom þessi tillaga til framkvæmda með niðurfellingu á 30% verðtolli sem lagður var á þessar afurðir auk nokkurra magntolla.
    Sem kunnugt er hefur garð- og gróðurhúsaframleiðsla hér á landi aðeins fengið stuðning af aðflutningsgjöldum við innflutning eftir að innflutningur þessara afurða var gefinn frjáls við fullgildingu Íslands á samningi um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar árið 1995 (WTO-samningurinn) ásamt lagabreytingum sem fylgdu í kjölfarið. Í samanburði við aðrar búgreinar hefur þetta leitt til þess að neytendaverð á garð- og gróðurhúsaafurðum hefur verið tiltölulega hátt.
    Í áfangaáliti starfshópsins var lagt til að kannað yrði hvort æskilegt væri að taka upp beinar greiðslur til framleiðenda eða aðrar stuðningsaðgerðir í formi framlaga í stað markaðsverndar í formi tolla, svo og hvort fé skyldi varið til rannsóknar- og þróunarverkefna á sviði garðyrkju. Ljóst er að ákvarðanir um slíkar greiðslur verður að taka með hliðsjón af þeim takmörkunum sem alþjóðlegir samningar setja um þetta fyrirkomulag greiðslna, m.a. WTO-samningurinn frá 1995. Í áliti starfshóps landbúnaðarráðherra var niðurstaðan að WTO-samningurinn gæfi svigrúm til að veita þau framlög sem tillögur hópsins fela í sér.
    Lokatillögur starfshópsins til landbúnaðarráðherra í janúar 2002 voru eftirfarandi:
     1.      Verðtollur, sem nú er 30%, verði felldur niður af útiræktuðu grænmeti, sveppum og kartöflum. Magntollur sem tryggi markaðsstöðu innlendra afurða verði lagður á þegar framboð af innlendri framleiðslu er nægjanlegt að magni og gæðum. Þá er lagður til aukinn sveigjanleiki á tollum þannig að heimilt verði að skipta verð- og/eða magntolli upp í10/ 100í stað25/ 100á vörur sem fluttar eru inn samkvæmt tollkvótum sem tilgreindir eru í viðaukum IVA og B við tollalög, nr. 55/1987.
     2.      Til að lækka verð til neytenda falli verð- og magntollur niður af gúrkum, tómötum og papriku. Teknar verði upp beingreiðslur til framleiðenda út á þessar afurðir til að jafna samkeppnisskilyrði innlendra aðila gagnvart innflutningi. Heildarfjárhæð beingreiðslna á ári verði 195 millj. kr. sem skiptist niður á framleitt magn einstakra afurða innan ársins samkvæmt staðfestum upplýsingum um sölu þessara afurða, eftir nánari reglum.
     3.      Ylræktendum verði tryggt rafmagn til lýsingar á verði sem sé sambærilegt við það sem er í boði erlendis (Noregur, Kanada). Enn fremur verði veittir styrkir til fjárfestingar í lýsingarbúnaði í ylrækt sem nemi um 30% af kostnaði að hámarki, þó ekki umfram tiltekna fjárhæð á hvern fermetra. Áætlaður kostnaður þessa liðar er 30–35 millj. kr. á ári.
     4.      Boðnir verði styrkir til úreldingar á gróðurhúsum sem hafa verið í framleiðslu síðustu tvö ár, allt að 30 millj. kr. á ári í fimm ár, eftir nánari reglum. Í tillögunni er gert ráð fyrir að þessir styrkir verði takmarkaðir við gróðurhús þar sem framleiðsla grænmetis hefur farið fram árin 2000 og 2001.
     5.      Veitt verði sérstök framlög úr ríkissjóði, 25 millj. kr. á ári, til kynningar-, rannsóknar-, þróunar- og endurmenntunarverkefna í ylrækt og garðrækt í þeim tilgangi að efla samkeppnishæfni greinarinnar.
     6.      Tekin verði til endurskoðunar stofnlán til garðyrkju, fjármögnun og stærðarmörk í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að fyrirkomulag þeirra stuðli að óhagkvæmni í greininni.
     7.      Hvatt verði til öflugs verðlagseftirlits þar sem komið verði á formlegu samstarfi Bændasamtaka Íslands/Sambands garðyrkjubænda, verkalýðshreyfingar, Samtaka atvinnulífsins og stjórnvalda til greiningar og upplýsinga um myndun verðlags á grænmeti og ávöxtum.
    Landbúnaðarráðherra hefur nú þegar lagt fyrir Alþingi frumvarp til laga um breytingu á tollalögum, nr. 55/1987, með síðari breytingum, sem miðar að því að koma í framkvæmd tillögu í 1. tölul. í áliti starfshóps landbúnaðarráðherra. Af grænmetistegundum sem breytingin nær til má nefna hvítkál, rauðkál, kínakál, spergilkál og rauðrófur. Verðtollurinn hefur þegar verið felldur niður með reglugerðum nr. 114/2002 og 115/2002. Hins vegar er gert ráð fyrir að magntollum verði beitt þegar framboð af innlendri framleiðslu er nægjanlegt að magni og gæðum og lagt er til að þeim verði áfram stjórnað með reglugerð. Til að auka sveigjanleika við álagningu tolla þarf að breyta 3. mgr. 6. gr. A tollalaga, nr. 55/1987, þannig að heimilt verði að skipta verð- og/eða magntolli upp í10/ 100í stað25/ 100á vörur sem fluttar eru inn samkvæmt tollkvótum sem tilgreindir eru í viðaukum IVA og B við tollalög en þær breytingar eru fólgnar í fyrirliggjandi frumvarpi landbúnaðarráðherra.
    Í samræmi við greinargerð með tillögu í 2. tölul. hafa verð- og magntollar af gúrkum, tómötum og papriku verið felldir niður með reglugerð nr. 115/2002 en í stað þess er gert ráð fyrir að teknar verði upp beingreiðslur til framleiðenda fyrir þessar afurðir til að jafna samkeppnisskilyrði innlendra aðila gagnvart innflutningi. Í álitinu er lagt til að heildarfjárhæð beingreiðslna verði 195 millj. kr. á ári fyrir þessar afurðir en sú fjárhæð er grundvölluð á framleiðslumagni þessara afurða og mismuni á verði til framleiðenda og verðum þessara tegunda á mörkuðum erlendis. Í samræmi við það er gert ráð fyrir að tilgreindar fjárhæðir verði nýttar til að lækka verð afurðanna en þær eru eftirfarandi miðað við áætlað magn:
     a.      Af tómötum alls 81 millj. kr. á ári sem svarar til 82 kr./kg.
     b.      Af gúrkum alls 74 millj. kr. á ári sem svarar til 73 kr./kg.
     c.      Af papriku alls 40 millj. kr. á ári sem svarar til 190 kr./kg.
    Jafnframt er í tillögunni gert ráð fyrir að innan ársins verði greitt tiltekið hlutfall af áætlaðri greiðslu á kíló (t.d. 75–80%). Í lok hvers árs fari fram lokauppgjör til framleiðenda þannig að til greiðslu fyrir hverja þessara afurða komi áðurnefnd heildarfjárhæð. Aukist framleiðslumagn hverrar tegundar frá því sem áðurnefnd áætlun um einingaverð og heildarfjárhæðir byggist á lækka beingreiðslur fyrir hvert kíló hlutfallslega. Verði samdráttur í magni innan árs hækka beingreiðslur á einingu þó ekki umfram 5% það ár. Það sem afgangs kann að verða af fjármunum sérhverrar afurðar deilist á hinar afurðirnar í hlutfalli við magnaukningu hafi hún orðið, að öðrum kosti falla þeir niður.
    Þá er í tillögunni gert ráð fyrir að beingreiðslur til hvers framleiðanda verði greiddar mánaðarlega gegn framvísun afreiknings sem er áritaður af löggiltum endurskoðanda og eru þær bundnar við viðskipti milli bókhaldsskyldra einstaklinga eða lögaðila með virðisaukaskattsskylda veltu samkvæmt lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Heimilt verður þó að greiða mismunandi háar beingreiðslur eftir tímabilum til að laga framleiðsluna sem best að eftirspurn. Allir framleiðendur á tómötum, gúrkum og papriku skulu eiga rétt samkvæmt framanskráðu á samningstímanum. Réttur til beingreiðslna árin 2002 og 2003 verði þó takmarkaður við að hafin sé framleiðsla á viðkomandi vörutegund 1. mars 2002 í þeirri garðyrkjustöð sem sótt er um beingreiðslur vegna, eða vörutegundin hafi verið framleidd þar á árinu 2001. Þessi réttur verði bundinn framleiðslustað en ekki framleiðanda. Framleiðendur sem framleitt hafa eina tegund á árinu 2001 eða hafa hafið framleiðslu á viðkomandi tegund fyrir 1. mars 2002 geta haldið rétti til beingreiðslna ef þeir taka upp framleiðslu á öðrum tegundum sem veita rétt til beingreiðslna á árunum 2002 eða 2003.
    Við framkvæmd tillagna í 3.–5. tölul. er m.a. gert ráð fyrir að gróðurhúsalýsingar verði færðar yfir á nóttina, niðurgreiðslur greiddar úr ríkissjóði til orkusölufyrirtækja að hámarki 1,08 kr./kWst sem skiptist þannig að hluti greiðslunnar fer til að lækka verð hverrar kWst utan álagstíma og hluti til aflkaupa vegna garðyrkju samkvæmt sérstökum samningi sem gerður verði hverju sinni milli Rafmagnsveitna ríkisins og Landsvirkjunar. Sömu kjör verði einnig í viðskiptum garðyrkjuframleiðenda við önnur orkusölufyrirtæki, t.d. þeirra aðila sem eru á orkusölusvæði Orkuveitu Reykjavíkur. Gert verði samkomulag milli orkusölufyrirtækja sem viðskipti eiga við garðyrkjubændur, Sambands garðyrkjubænda og iðnaðarráðuneytis um orkuviðskipti. Með þessum tillögum er stefnt að því að ylræktendum verði tryggt rafmagn til lýsingar á verði sem sé sambærilegt við verð erlendis (í Noregi og Kanada). Enn fremur er gert ráð fyrir að veittar verði árlega 5 millj. kr. í styrki til fjárfestingar í lýsingarbúnaði í ylrækt er nemi allt að 30% af kostnaði. Jafnframt er gert ráð fyrir að veittir verði styrkir til úreldingar á gróðurhúsum þar sem framleitt var grænmeti árin 2000 og 2001 að hámarki 30 millj. kr. á ári að meðaltali í fimm ár eða alls 150 millj. kr. Miðað er við að heimilt verði að færa fjármuni milli ára. Gróðurhús sem úrelt hafa verið verði ekki heimilt að nota til framleiðslu og sölu garðyrkjuafurða og gert ráð fyrir að um það verði gerður bindandi samningur milli stjórnvalda og eigenda. Úrelding á gróðurhúsi kemur þó ekki í veg fyrir áframhaldandi framleiðslu grænmetis á viðkomandi býli og hagræðingu í rekstri þess með byggingu nýrra og hagkvæmari húsa. Til að efla samkeppnishæfni ylræktar og garðræktar er gert ráð fyrir að veitt verði framlög úr ríkissjóði til kynningar-, rannsóknar-, þróunar- og endurmenntunarverkefna. Um verði að ræða stuðning til eflingar inni- og útiræktun á grænmeti og kartöflum. Eftirtalin verkefni hafi forgang: rekstrarhagræðing, ræktunartækni og endurmenntun bænda.
    Í frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að tillögum í 2.–5. tölul. verði að vissu marki veitt lagagildi en þó þannig að landbúnaðarráðherra og Bændasamtökum Íslands verði veitt heimild til að semja um nokkur grundvallaratriði þeirra og jafnframt að nánari útfærsla á framkvæmd þeirra verði ákveðin í reglugerðum sem landbúnaðarráðherra setur. Nauðsynlegt er talið að landbúnaðarráðherra hafi víðtækar heimildir til að stjórna fjárhæðum beingreiðslna og öðrum ráðstöfunum sem fjallað er um í frumvarpinu þar sem gert er ráð fyrir að þessi atriði muni ráðast að verulegu leyti af framboði og eftirspurn einstakra vörutegunda á hverjum tíma.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Við skilgreiningar á hugtökum laganna er bætt skilgreiningu á garðyrkjubýli, gróðrarstöð, garðyrkjustöð.

Um 2. gr.

    Greinin felur í sér að bætt verður við nýjum kafla, sem verður XI. kafli og fjallar um framleiðslu og verðmyndun garð- og gróðurhúsaafurða, með fimm nýjum greinum, 50.–54. gr.

     Um a-lið (50. gr.).
    Í þessari grein eru sett fram markmið laganna um garð- og gróðurhúsaafurðir. Meginmarkmiðið er að lækka verð til neytenda á innfluttum sem og innlendum garð- og gróðurhúsaafurðum jafnhliða því að treysta tekjugrundvöll framleiðenda. Með garð- og gróðurhúsaafurðum er átt við kartöflur, grænmeti og sveppi.
     Um b-lið (51. gr.).
    Greinin felur í sér nýmæli sem heimilar landbúnaðarráðherra að semja um stuðningsaðgerðir við framleiðendur garð- og gróðurhúsaafurða til að ná markmiðum sem sett eru fram í 50. gr. Hliðstæð ákvæði er að finna í 30. gr. laganna, sem kveður á um samninga milli stjórnvalda og samtaka bænda um starfsskilyrði mjólkur- og sauðfjárframleiðenda. Með ákvæðum greinarinnar eru sett í lög ákvæði til að koma í framkvæmd „aðlögunarsamningi um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða“ sem gerður hefur verið milli Bændasamtaka Íslands og Sambands garðyrkjubænda annars vegar og landbúnaðarráðherra fyrir hönd ríkisstjórnarinnar hins vegar á grundvelli álits starfshóps landbúnaðarráðherra um framleiðslu og markaðsmál gróðurhúsaafurða og garðávaxta. Samningurinn er til tíu ára en var undirritaður með fyrirvara um samþykki Alþingis um nauðsynlega lagaheimild. Meginmarkmið samningsins er að stuðla að verðlækkun til neytenda með lækkun tolla og stuðningsaðgerðum við framleiðendur garð- og gróðurhúsaafurða til að mæta þeirri skerðingu á markaðsvernd sem framleiðendur hafa búið við. Gert er ráð fyrir að árleg framlög ríkissjóðs til að mæta þessari skerðingu nemi um 280 millj. kr. á ári. Þar af eru beingreiðslur til lækkunar á verði papriku, gúrkna og tómata 195 millj. kr. Til niðurgreiðslu á verði rafmagns til lýsingar og fjárfestingarbúnaðar í ylrækt eru ætlaðar 30 millj. kr. á ári en sú fjárhæð getur tekið breytingum í samræmi við breytingar á notkun rafmagns til lýsingar. Jafnframt eru ætlaðar 30 millj. kr. á ári í fimm ár til úreldingar óhagkvæmra gróðurhúsa til framleiðslu á papriku, tómötum og gúrkum, framlög til kynningar, rannsókna, þróunar og endurmenntunar eru áætluð 25 millj. kr. á ári. Framlög þessi eru óverðtryggð yfir tímabilið, en samið um að þau komi til endurmats fari árlegar verðlagshækkanir yfir 2,5% á ári. Ákvæði frumvarpsins gera ráð fyrir að fjárveitingar til áðurnefndra verkefna verði veittar hverju sinni með ákvæðum í fjárlögum á sama hátt og framlög ríkissjóðs vegna búvörusamnings um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar og samnings um framleiðslu sauðfjárafurða. Ákvæði greinarinnar fela í sér skyldu landbúnaðarráðherra til að setja reglugerð um nánari framkvæmd beingreiðslna til framleiðenda. Samið hefur verið um tiltekin framlög til framleiðenda á papriku, tómötum og gúrkum út frá áætlun um verð þessara afurða við innflutning og sölumagn innlendrar framleiðslu og söluverð. Landbúnaðarráðherra getur á samningstímanum tekið ákvörðun að fengnum tillögum framkvæmdanefndar búvörusamninga um aðra skiptingu beingreiðslufjárhæðarinnar verði varanlegar breytingar á markaðsskilyrðum þessara afurða. Þá verður enn fremur heimilt með reglugerð að taka ákvörðun um hærri greiðslur á kíló sérafurða, svo sem kirsuberja-, kjöt- og klasatómata en fyrir venjulega tegund tómata og að greiða hærri beingreiðslur fyrir litaða papriku en græna. Enn fremur verði heimilt til að laga framleiðslu að markaði að greiða misháar beingreiðslur á kíló eftir árstíðum í samræmi við ákvæði samningsins. Þar sem beingreiðslur á kíló af tómötum, papriku og gúrkum samkvæmt ákvæðum samningsins munu fara eftir þeirri fjárhæð sem hverri tegund er ákveðin og seldu magni skal um það gerð áætlun fyrir komandi almanaksár sem auglýst skal af landbúnaðarráðherra fyrir 15. desember ári áður. Landbúnaðarráðherra verður heimilt að fela öðrum stofnunum eða Bændasamtökum Íslands að annast faglega umsjón þeirra verkefna sem samningurinn tekur til.
     Um c-lið (52. gr.).
    Réttur framleiðenda þeirrar tegundar grænmetis sem beingreiðslu nýtur er jafn og óháður framleiðslumagni og verður til hefji nýir framleiðendur framleiðslu. Aðkoma nýrra aðila verður þó takmörkuð tímabundið, sbr. ákvæði til bráðabirgða. Til að eiga rétt til beingreiðslna sem fara fram samkvæmt viðskiptaskjölum um sölu afurðanna verða viðskipti að eiga sér stað milli tveggja bókhaldsskyldra aðila. Sala til einstaklinga sem neytenda fellur ekki innan þessa ramma. Beingreiðslur verða enn fremur takmarkaðar við að um virðisaukaskattsskylda veltu verði að ræða. Handhafar beingreiðslna verða skráðir af framkvæmdaaðila samningsins. Aðeins einn handhafi skal skráður á hverju lögbýli en fleiri sé um sjálfstæða lögaðila að ræða.
     Um d-lið (53. gr.).
    Í aðlögunarsamningi um garðyrkjuna er samið um að komið verði á verðlagseftirliti milli aðila vinnumarkaðarins, bænda og stjórnvalda til að fylgjast ítarlega með verðmyndun garðyrkjuafurða auk garðávaxta. Greinin felur í sér mjög ríka skyldu þess sem leitar eftir beingreiðslum um upplýsingagjöf. Enn fremur mun það auðvelda að fylgjast með réttmæti þeirra krafna um beingreiðslur sem verða settar fram, m.a. með mati á verði í viðskiptum miðað við heildarfjárhæð viðskipta og magns.
     Um e-lið (54. gr.).
    Ágreiningi um beingreiðslur má skjóta til úrskurðarnefndar sem starfar skv. 42. gr. laganna. Á það við um frágang viðskiptaskjala, rétt til beingreiðslna og fjárhæðir til greiðslu hverju sinni ásamt öðrum álitamálum er upp kunna að koma, svo sem gæðaflokkun, verði greiðslur takmarkaðar við einstaka flokka. Þá eru almenn ákvæði í þessari grein um setningu reglugerðar samkvæmt ákvæðum XI. kafla, sem koma til viðbótar ákvæðum um reglugerðir sem skylt er að setja.

Um 3. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Ákvæðið felur í sér að gert er ráð fyrir að þeir einir sem voru við framleiðslu þessara afurða á árinu 2001 eða hófu framleiðslu fyrir 1. mars á árinu 2002 eigi rétt til beingreiðslna þessi tvö ár og er rétturinn bundinn við framleiðslustað en ekki framleiðanda.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 99/1993,
um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum.

    Tilgangur með frumvarpinu er að kveða á um fyrirkomulag framleiðslu og markaðssetningar gróðurhúsaafurða og garðávaxta. Frumvarpið gefur landbúnaðarráðherra jafnframt heimild til að gera samning við Bændasamtök Íslands og/eða Samband garðyrkjubænda um að lækka grænmetisverð til neytenda, auka hagkvæmni í greininni, treysta tekjugrundvöll grænmetisframleiðenda og styðja við framleiðslu- og markaðsmöguleika innlendrar framleiðslu. Landbúnaðarráðherra er einnig heimilt að fela öðrum stofnunum eða Bændasamtökunum að annast faglega umsjón með samningnum.
    Miðað við að framkvæmd frumvarpsins verði í samræmi við tillögur starfshóps um framleiðslu- og markaðsmál gróðurhúsaafurða og garðávaxta er kostnaður og tekjumissir sem frumvarpið hefur í för með sér fyrir ríkissjóð um 360 m.kr. árlega fyrstu fimm árin, en lækkar svo í 330 m.kr. eftir það. Samanlagður kostnaður í tíu ár er um 3.450 m.kr. Þar af er gert ráð fyrir 195 m.kr. árlegum niðurgreiðslum til framleiðenda papriku, tómata og agúrku, 30 m.kr. árlegs framlags í fimm ár til úreldingar gróðurhúsa, 25 m.kr. árlegs framlags til kynningar, rannsókna, þróunar og endurmenntunar í ylrækt og garðyrkju. Einnig er gert ráð fyrir að veitt verði 30 m.kr. árleg niðurgreiðsla á raflýsingu og verður að haga niðurgreiðslu á hverja kWst innan þeirra marka. Þess má geta að nú þegar njóta garðyrkjubændur 50 m.kr. afsláttar af raforkuverði samkvæmt sérstökum samningi við Rafmagnsveitur ríkisins. Loks er gert ráð fyrir að um 80 m.kr. tapist í innheimtum tollum á innflutt grænmeti. Samanlagt er því gert ráð fyrir 280 m.kr. kostnaði ríkissjóðs fyrstu fimm árin frá gildistöku laganna og 250 m.kr. árlegu framlagi eftir það, auk þess sem tekjur af tollum lækka varanlega um 80 m.kr.