Ferill 638. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1018  —  638. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, með síðari breytingum .

(Lagt fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)


1. gr.

    2. mgr. 3. gr. laganna orðast svo:
    Hollustuvernd tekur til eftirlits með matvælum, fegrunar- og snyrtiefnum, eiturefnum og hættulegum efnum, húsnæði, öðrum vistarverum og umhverfi þeirra og öryggisþáttum þeim tengdum. Einnig tekur hún til sóttvarna og fræðslu í þessum efnum, m.a. með tilliti til manneldismála.

2. gr.

    4. gr. laganna verður svohljóðandi:
    Til þess að stuðla að framkvæmd hollustuverndar setur ráðherra í reglugerð almenn ákvæði um:
     1.      útgáfu og efni starfsleyfa fyrir atvinnurekstur sem fellur undir þessa grein,
     2.      umgengni og þrifnað utan húss,
     3.      meindýravarnir og eyðingu meindýra,
     4.      hreinsun hunda, m.a. vegna sullaveiki, katta og annarra gæludýra,
     5.      þátttöku heilbrigðisnefnda í öryggismálum og sóttvörnum og framkvæmd þeirra,
     6.      töku sýna og úrvinnslu þeirra,
     7.      viðmiðanir fyrir eðlis-, efna- og örverufræðilega þætti,
     8.      íbúðarhúsnæði,
     9.      starfsmannabústaði og starfsmannabúðir,
     10.      gistihús, matsöluhús og aðra veitingastaði, fjallaskála, frístundahúsasvæði, tjald- og hjólhýsasvæði,
     11.      skóla og aðra kennslustaði,
     12.      rakarastofur, hárgreiðslustofur, nuddstofur, húðflúrstofur og hvers konar aðrar snyrtistofur og stofur þar sem fram fer húðgötun og húðrof,
     13.      leikskóla, leikvelli, daggæslu í heimahúsum og önnur heimili og stofnanir fyrir börn og unglinga,
     14.      heilbrigðisstofnanir, dvalarheimili og meðferðar- og vistunarstofnanir og stofnanir fyrir fatlaða,
     15.      íþróttastöðvar, íþróttasvæði, íþróttahús, almenningssalerni, sundstaði, baðhús, gufubaðsstofur, sólbaðsstofur og almenna baðstaði, baðvatn og þess háttar,
     16.      fangelsi og aðrar vistarverur handtekinna manna,
     17.      samkomustaði og samkomuhús, þar á meðal kirkjur og söfn,
     18.      samgöngumiðstöðvar, farþegaskip, almenningsbifreiðar, farþegaflugvélar og þess háttar,
     19.      verslunarmiðstöðvar,
     20.      verslanir sem selja vörur er innihalda fegrunar- og snyrtiefni, hættuleg efni og eiturefni,
     21.      dýraspítala, dýralæknastofur, dýrasnyrtistofur, dýrasýningar, dýragæslustaði, gæludýraverslanir, hestaleigur og reiðskóla,
     22.      garðaúðun,
     23.      önnur sambærileg atriði.

3. gr.

    Á eftir 4. gr. laganna kemur ný grein, 4. gr. a, svohljóðandi:
    Stofnanir, fyrirtæki og önnur starfsemi sem talin er upp í fylgiskjali III með lögum þessum skulu hafa gilt starfsleyfi gefið út af heilbrigðisnefnd. Óheimilt er að hefja starfsleyfisskylda starfsemi hafi starfsleyfi fyrir hana ekki verið gefið út. Ráðherra er heimilt, ef ríkar ástæður mæla með og að fenginni umsögn Hollustuverndar ríkisins og viðkomandi heilbrigðisnefndar, að veita tímabundna undanþágu frá starfsleyfi.
    Gefa skal út starfsleyfi til tiltekins tíma. Rekstraraðila ber að veita heilbrigðisnefnd upplýsingar um fyrirhugaðar breytingar á starfsemi sem varðað geta ákvæði starfsleyfis með hæfilegum fyrirvara. Heilbrigðisnefnd er heimilt að endurskoða starfsleyfi áður en gildistími þess er liðinn vegna breyttra forsendna, svo sem ef breytingar verða á rekstrinum, vegna tækniþróunar eða breytinga á reglum um framkvæmd hollustuverndar.
    Í starfsleyfi skal tilgreina rekstraraðila og staðsetningu starfsemi, tegund hennar, skilyrði, gildistíma og endurskoðun starfsleyfis, auk ákvæða um eftirlit, umgengni, hreinlæti, öryggisráðstafanir, sóttvarnir, gæðastjórnun og innra eftirlit eftir því sem við á hverju sinni.

4. gr.

    Á eftir 5. gr. laganna kemur ný grein, 5. gr. a, svohljóðandi:
    Allur atvinnurekstur sem haft getur í för með sér mengun skal hafa gilt starfsleyfi. Óheimilt er að hefja starfsleyfisskyldan atvinnurekstur hafi starfsleyfi ekki verið gefið út. Ráðherra er heimilt, ef ríkar ástæður mæla með og að fenginni umsögn Hollustuverndar ríkisins og eftir atvikum heilbrigðisnefndar, að veita tímabundna undanþágu frá starfsleyfi.
    Gefa skal út starfsleyfi til tiltekins tíma. Útgefanda starfsleyfis er heimilt að endurskoða starfsleyfi áður en gildistími þess er liðinn vegna breyttra forsendna, svo sem ef mengun af völdum atvinnurekstrar er meiri en búist var við þegar leyfið var gefið út, ef breytingar verða á rekstrinum sem varðað geta ákvæði starfsleyfis, vegna tækniþróunar eða breytinga á reglum um mengunarvarnir.
    Í starfsleyfi skal tilgreina rekstraraðila og staðsetningu starfsemi, tegund hennar og stærð, skilyrði, gildistíma og endurskoðun starfsleyfis, auk ákvæða um viðmiðunarmörk, orkunýtingu, meðferð úrgangs, mengunarvarnir, tilkynningarskyldu vegna óhappa eða slysa, innra eftirlit, vöktun, eftirlitsmælingar og rannsóknir, svo og rekstur og viðhald mengunarvarnabúnaðar, eftir því sem við á hverju sinni. Krafist skal bestu fáanlegrar tækni við mengunarvarnir í þeim atvinnugreinum þar sem slíkt hefur verið skilgreint og skulu ákvæði um mengunarvarnir taka mið af því.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. mgr. 14. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „Héraðslæknir eða sá heilsugæslulæknir sem hann tilnefnir“ í 1. málsl. kemur: Yfirlæknir heilsugæslu á viðkomandi eftirlitssvæði, tilnefndur af landlækni,
     b.      Í stað orðsins „Héraðslæknir“ í 2. og 3. málsl. kemur: Yfirlæknir heilsugæslu.

6. gr.

    Við 4. málsl. 19. gr. laganna bætist: sem heilbrigðisnefndum ber að fylgja.


7. gr.

    Við 2. málsl. 1. mgr. 31. gr. laganna bætist: eða 5. gr. laga um meðhöndlun úrgangs.

8. gr.

    Við lögin bætist nýtt fylgiskjal, svohljóðandi:

Starfsemi sem skal hafa starfsleyfi skv. 4. gr. a, gefið út af heilbrigðisnefnd.

Akstursíþróttasvæði.
Almenningssalerni.
Baðstofur og gufubaðsstofur.
Daggæsla í heimahúsum með sex börn eða fleiri.
Dvalarheimili.
Dýragæsla.
Dýralæknastofur.
Dýrasnyrtistofur.
Dýraspítalar.
Dýrasýningar.
Fangelsi og fangagæsla.
Fjallaskálar, nema sæluhús.
Fótaaðgerðarstofur og fótsnyrtistofur.
Frístundahúsasvæði.
Garðaúðun.
Gististaðir.
Gæludýraverslanir.
Gæsluvellir.
Götuleikhús og tívolí.
Hársnyrtistofur.
Heilsugæslustöðvar.
Heilsuræktarstöðvar.
Heimili og stofnanir fyrir börn og unglinga, með               sex börn eða fleiri.
Hestaleigur og reiðskólar.
Húðflúrstofur og stofur þar sem fram fer húðgötun,               húðrof og fegrunarflúr.
Íþróttahús.
Íþróttamiðstöðvar.
Íþróttavellir.
Kírópraktorar.
Leikskólar.
Læknastofur.
Nálastungustofur.
Nuddstofur.
Sambýli þar sem veitt er þjónusta allan sólarhring-    inn.
Samgöngumiðstöðvar og almenningssamgöngutæki.
Samkomuhús.
Sjúkrahús.
Sjúkrastofnanir.
Sjúkraþjálfun.
Skólar og aðrir kennslustaðir fyrir börn eða sex eða               fleiri fullorðna.
Snyrtistofur.
Sólbaðsstofur.
Starfsmannabúðir.
Starfsmannabústaðir.
Sundstaðir.
Tannlæknastofur.
Tjald- og hjólhýsasvæði.
Útihátíðir.
Veitingastaðir.
Verslunarmiðstöðvar.
Verslun með vörur sem innihalda hættuleg efni og               eiturefni.
Verslun með fegrunar- og snyrtiefni.
Vöruflutningamiðstöðvar.
Önnur sambærileg starfsemi.

9. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi þessu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Í fyrsta lagi eru lagðar til breytingar á ákvæðum laganna um starfsleyfi varðandi skyldu atvinnurekstrar og annarrar starfsemi til að hafa gilt starfsleyfi. Starfsleyfi þessi eru samkvæmt núgildandi lögum tvenns konar, annars vegar starfsleyfi sem gefin eru út af heilbrigðisnefndum til að stuðla að framkvæmd hollustuverndar og hins vegar starfsleyfi sem gefin eru út af heilbrigðisnefndum eða Hollustuvernd ríkisins til handa atvinnurekstri sem haft getur í för með sér mengun. Ákvæði laganna hafa verið túlkuð og framkvæmd þannig að þau feli í sér skyldu fyrir tiltekna starfsemi og atvinnurekstur til að hafa gilt starfsleyfi og að óheimilt sé að hefja slíka starfsemi eða atvinnurekstur án þess að starfsleyfi hafi verið gefið út. Rétt þykir að kveða skýrar á um starfsleyfisskyldu og aðrar þær kvaðir sem þeirri skyldu fylgja í lögunum. Hins vegar er lagt til að allar reglur um nákvæmari útfærslu á starfsleyfisskyldunni og þeim kvöðum sem í starfsleyfum er að finna verði áfram í reglugerðum settum af ráðherra.
    Í öðru lagi er lagt til að skilgreining hugtaksins hollustuvernd og heimild til að setja almennar reglur um framkvæmd hollustuverndar verði rýmkuð nokkuð frá því sem nú er. Í skilgreiningu hugtaksins hollustuvernd bætist eftirlit með fegrunar- og snyrtiefnum við eftirlit með matvælum, eiturefnum og hættulegum efnum þeim tengdum. Jafnframt mun hollustuvernd taka til eftirlits með öryggisþáttum þessu tengdu. Á vissum sviðum eru atriði er varða öryggi almennings og slysavarnir svo tengd heilbrigðiseftirliti að rétt þykir að víkka skilgreiningu hugtaksins hollustuvernd þannig að það nái einnig til þessara þátta. Á þetta sérstaklega við um öryggismál á íþrótta- og sundstöðum og stöðum þar sem börn dvelja.
    Að lokum er lagt til að gerðar verði smávægilegar breytingar á nokkrum ákvæðum laganna.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Lagt er til að skilgreining hugtaksins hollustuvernd í 3. gr. núgildandi laga verði rýmkuð þannig að undir greinina falli eftirlit með fegrunar- og snyrtiefnum og tilteknum öryggisþáttum. Eins og fram kemur í almennum athugasemdum þessa frumvarps eru þættir er varða öryggismál og slysavarnir oft svo nátengdir framkvæmd hollustuverndar og almennu heilbrigðiseftirliti að eðlilegt verður að teljast að eftirlitið nái til þeirra. Á þetta sérstaklega við um öryggismál á íþrótta- og sundstöðum og stöðum þar sem börn dvelja, t.d. varðandi hita á vatni, geymslu hættulegra efna og eiturefna og öryggi leiktækja. Í samræmi við ákvæði 2. gr. laganna er hins vegar gert ráð fyrir að ákvæði annarra laga er varða öryggi fólks og slysavarnir haldi gildi sínu, svo sem ákvæði laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum .

Um 2. gr.

    Hér er lagt til að breytingar verði gerðar á 4. gr. núgildandi laga. Ákvæðið felur í sér heimild til handa ráðherra til að setja í reglugerð almenn ákvæði um þau atriði sem talin eru upp í 1.–23. tölul. í því skyni að stuðla að framkvæmd hollustuverndar.
    Fyrstu sjö töluliðirnir eru efnislega óbreyttir frá núgildandi lögum en uppröðun þeirra hefur verið breytt. Í þeim eru almenn atriði sem framkvæmd hollustuverndar tekur til og sett eru almenn ákvæði um í reglugerð, þ.e. útgáfa og efni starfsleyfa skv. 4. gr. a, umgengni og þrifnaður utan húss, meindýravarnir og eyðing meindýra, hreinsun hunda, katta og annarra gæludýra, þátttaka heilbrigðisnefnda í sóttvörnum og framkvæmd þeirra, taka sýna og úrvinnsla þeirra og viðmiðanir fyrir eðlis-, efna- og örverufræðilega þætti. Þó hefur öryggismálum verið bætt við fimmta tölulið til samræmis við breytta skilgreiningu hugtaksins hollustuvernd.
    Áttundi töluliður er efnislega óbreyttur, var áður hluti 5. tölul., og tekur til íbúðarhúsnæðis. Í 9.–23. tölul. er síðan talin upp sú starfsemi sem fallið getur undir ákvæði reglugerðar ráðherra um framkvæmd hollustuverndar. Vísast í þessu samhengi jafnframt til athugasemda með 3. og 8. gr. frumvarpsins um starfsleyfisskylda starfsemi. Í 9.–23. tölul. eru nokkur ný atriði. Meginhluti þeirrar starfsemi sem bætt er við ákvæði þetta hefur fram að þessu verið bundinn af almennum reglum um hollustuvernd og leiðir þessi viðbót því ekki til mikilla breytinga fyrir þá starfsemi. Meginbreytingin felst hins vegar í að nú eru verslanir sem selja fegrunar- og snyrtiefni, eiturefni og hættuleg efni felld undir ákvæðið.
    Þær breytingar sem lagðar eru til eru eftirfarandi:
    9. tölul.: Var áður hluti 5. tölul. Efnislega óbreytt.
    10. tölul.: Var áður 6. tölul. Fjallaskála, frístundasvæði og tjald- og hjólhýsasvæði bætt við ákvæðið.
    11. tölul.: Var áður 7. tölul. Óbreytt.
    12. tölul.: Var áður 8. tölul. Húðflúrstofum og stofum þar sem fram fer húðgötun og húðrof bætt við ákvæðið.
    13. tölul.: Var áður 9. tölul. Daggæslu í heimahúsum og öðrum heimilum og stofnunum fyrir börn og unglinga bætt við ákvæðið.
    14. tölul.: Var áður 10. tölul. Óbreytt.
    15. tölul.: Var áður 11. tölul. Íþróttasvæðum og almenningssalernum bætt við ákvæðið.
    16. tölul.: Var áður 12. tölul. Óbreytt.
    17. tölul.: Var áður 13. tölul. Samkomustöðum bætt við ákvæðið og tekin af öll tvímæli um að söfn teljist til samkomuhúsa.
    18. tölul.: Var áður 14. tölul. Samgöngumiðstöðvum bætt við ákvæðið.
    19. tölul.: Nýtt ákvæði um verslunarmiðstöðvar.
    20. tölul.: Nýtt ákvæði um byggingavöruverslanir, lyfjaverslanir, snyrtivöruverslanir og verslanir sem selja hættuleg efni og eiturefni.
    21. tölul.: Nýtt ákvæði um dýraspítala, dýralæknastofur, dýrasnyrtistofur, dýrasýningar, dýragæslustaði, gæludýraverslanir, hestaleigur og reiðskóla.
    22. tölul.: Nýtt ákvæði um garðaúðun.
    23. tölul.: Var áður 18. tölul. Óbreytt.

Um 3. gr.

    Hér er lagt til að tekið verði upp nýtt ákvæði um starfsleyfi sem gefin eru út til að stuðla að framkvæmd hollustuverndar. Ákvæðinu er ætlað að vera efnisákvæði um starfsleyfi og starfsleyfisskyldu. Ekki er gert ráð fyrir að breyting verði á núverandi framkvæmd varðandi starfsleyfi þessi, einungis að tryggð verði nægjanleg lagastoð fyrir þeim, sbr. umfjöllun í almennum athugasemdum með frumvarpi þessu.
    Í 1. mgr. er kveðið á um að stofnanir, fyrirtæki og önnur starfsemi sem talin er upp í fylgiskjali III með lögunum skuli hafa gilt starfsleyfi gefið út af heilbrigðisnefnd. Er þetta gert til að taka af öll tvímæli um hvaða starfsemi er starfsleyfisskyld. Starfsemi þessi er margvísleg, ýmist rekin af hinu opinbera eða einkaaðilum, og því er farin sú leið að telja hana upp í fylgiskjali. Skv. 2. málsl. er óheimilt að hefja starfsleyfisskylda starfsemi hafi starfsleyfi ekki verið gefið út. Ákvæði þessu er ekki ætlað að breyta þeirri framkvæmd sem nú er við lýði heldur einungis, eins og fram kom í almennum athugasemdum frumvarpsins, að kveða skýrar að orði í lögunum. Þegar sérstaklega stendur á er ráðherra heimilt að veita tímabundna undanþágu frá starfsleyfi.
    Í 2. mgr. er tekið fram að starfsleyfi skuli gefa út til tiltekins tíma. Algengt er að þau gildi í fjögur ár. Kveðið er á um að rekstraraðila beri að veita heilbrigðisnefnd upplýsingar um fyrirhugaðar breytingar á starfsemi sem varða ákvæði starfsleyfis með hæfilegum fyrirvara. Síðan er lagt til að heilbrigðisnefnd verði heimilt að endurskoða starfsleyfi áður en gildistími þess er liðinn vegna breyttra forsendna. Þetta ákvæði er nauðsynlegt til að tryggja virka framkvæmd hollustuverndar enda eru ákvæði starfsleyfa sniðin að þeirri starfsemi sem í hlut á, t.d. ákvæði um eftirlit, hreinlæti, öryggisráðstafanir, sóttvarnir o.fl. Ella væri hætt við að unnt væri að sniðganga slík ákvæði með því að breyta starfseminni á miðjum starfsleyfistímanum.
    Í 3. mgr. er ákvæði um efni starfsleyfis. Þar skal tilgreina rekstraraðila og staðsetningu starfsemi, tegund hennar, skilyrði, gildistíma og endurskoðun starfsleyfis, auk ákvæða um eftirlit, umgengni, hreinlæti, öryggisráðstafanir, sóttvarnir, gæðastjórnun og innra eftirlit eftir því sem við á hverju sinni. Reglur á þessu sviði eru afar víðtækar og ítarlegar og er eðlilegt að nánari útfærsla fari fram í reglugerð. Heimild til að setja nánari reglur um útgáfu og efni starfsleyfa samkvæmt þessari grein er að finna í 4. gr. laganna, sbr. 2. gr. frumvarpsins. Rétt þykir að hafa reglugerðarheimildir varðandi framkvæmd hollustuverndar allar í einni grein.

Um 4. gr.

    Hér er lagt til að bætt verði inn í núgildandi lög nýju ákvæði, 5. gr. a. Ákvæði þetta er hliðstætt ákvæði 3. gr. frumvarpsins en fjallar um aðra gerð starfsleyfa, þ.e. starfsleyfi sem gefin eru út til handa atvinnurekstri sem haft getur í för með sér mengun. Hér er því um að ræða framkvæmd mengunarvarna og mengunarvarnaeftirlits sem er annar meginþáttur laga um hollustuhætti og mengunarvarnir. Þessar tvær gerðir starfsleyfa lúta að formi til svipuðum reglum, en eru efnislega ólík og fjalla um mismunandi atriði, þ.e. annars vegar um framkvæmd hollustuverndar og hins vegar um mengunarvarnir. Af þeim sökum var farin sú leið að fjalla um þau í tveimur aðskildum ákvæðum. Er það til samræmis við þá leið sem farin er í núgildandi lögum. Yfirleitt eru starfsleyfi þau sem hér um ræðir meira íþyngjandi fyrir rekstraraðila og leggja á hann meiri kvaðir. Eins og fram kemur í almennum athugasemdum er ekki gert ráð fyrir breytingu á framkvæmd varðandi starfsleyfi þessi heldur er verið að styrkja lagastoð þeirra.
    Í 1. mgr. ákvæðisins er kveðið á um skyldu atvinnurekstrar sem haft getur í för með sér mengun að hafa gilt starfsleyfi. Skv. 6. gr. núgildandi laga eru starfsleyfi þessi annars vegar gefin út af Hollustuvernd ríkisins og hins vegar af heilbrigðisnefndum. Sú tegund atvinnurekstrar sem fær útgefin starfsleyfi af Hollustuvernd ríkisins er talin upp í fylgiskjali með lögunum. Hins vegar er gert ráð fyrir því að ákveðið sé með reglugerð hvaða atvinnurekstur fær útgefið starfsleyfi af heilbrigðisnefndum, sbr. 2. mgr. 6. gr. núgildandi laga. Ekki er lagt til að breyting verði á þessu fyrirkomulagi.
    Hvað varðar 2. mgr. ákvæðis þessa þá vísast til umfjöllunar um sambærilegt ákvæði í 3. gr. frumvarpsins. Hér er þó um að ræða annars konar ástæður sem mundu réttlæta endurskoðun starfsleyfis áður en gildistími þess er liðinn. Taldar eru upp aðstæður sem leitt gætu til slíkrar endurskoðunar, þ.e. ef mengun af völdum atvinnurekstrar er meiri en búist var við, breytingar verða á rekstri sem varða ákvæði starfsleyfis, tækniþróun eða breytingar á reglum um mengunarvarnir. Í starfsleyfum eru yfirleitt ákvæði um vöktun og eftirlit. Nauðsynlegt er að mengunarvarnaryfirvöld geti brugðist strax við breyttum aðstæðum með því að endurskoða starfsleyfið þannig að ekki þurfi að bíða með aðgerðir þar til starfsleyfistíminn er liðinn.
    Í 3. mgr. er ákvæði um efni starfsleyfis. Þar er kveðið á um að í starfsleyfi skuli tilgreina rekstraraðila og staðsetningu starfsemi, tegund hennar og stærð, skilyrði, gildistíma og endurskoðun starfsleyfis, auk ákvæða um viðmiðunarmörk, orkunýtingu, meðferð úrgangs, mengunarvarnir, tilkynningarskyldu vegna óhappa eða slysa, innra eftirlit, vöktun, eftirlitsmælingar og rannsóknir, svo og rekstur og viðhald mengunarvarnabúnaðar, eftir því sem við á hverju sinni. Jafnframt segir í ákvæðinu að krafist skuli bestu fáanlegrar tækni við mengunarvarnir í þeim atvinnugreinum þar sem slíkt hefur verið skilgreint og skuli ákvæði um mengunarvarnir taka mið af því. Ákvæðið er hliðstætt við ákvæði 1. og 2. tölul. 5. gr. núgildandi laga þar sem ráðherra er veitt heimild til að setja almennar reglur á þessu sviði og er við gerð starfsleyfa höfð hliðsjón af þessum almennu reglum.

Um 5. gr.

    Hér er lagt til að í stað héraðslækna verði yfirlæknar heilsugæslu á viðkomandi eftirlitssvæði heilbrigðisnefndum til ráðgjafar og aðstoðar um heilbrigðisþjónustu. Ekki er gert ráð fyrir að ákvæðið breytist að öðru leyti. Breyting þessi er lögð til vegna framlagningar frumvarps heilbrigðisráðherra um breytingar á lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 97/1990, og fleiri lögum, þar sem lagt er til að embætti héraðslækna verði lögð niður. Í athugasemdum með því frumvarpi segir að með yfirlæknum heilsugæslu sé átt við yfirlækna heilsugæslustöðva, yfirlækni (lækningaforstjóra) heilsugæslunnar í Reykjavík og yfirlækna heilsugæslu í heilbrigðisstofnunum. Ákvæðið er skýrt hér á sama hátt og í framangreindu frumvarpi. Þar sem fleiri en einn yfirlæknir heilsugæslu geta verið starfandi innan eins heilbrigðiseftirlitssvæðis er gert ráð fyrir að landlæknir tilnefni þann lækni sem starfa skal með heilbrigðisnefnd.

Um 6. gr.

    Ákvæði þessu er ætlað að leggja áherslu á að heilbrigðisnefndum beri að fara eftir leiðbeiningum og viðmiðunarreglum Hollustuverndar ríkisins. Eigi Hollustuvernd ríkisins að geta sinnt lögbundnu yfirumsjónar- og samræmingarhlutverki innan málaflokksins er nauðsynlegt að tryggja að farið verði eftir leiðbeiningum og viðmiðunarreglum stofnunarinnar þannig að samræmis sé gætt í landinu öllu.

Um 7. gr.

    Ákvæði þetta tekur mið af 5. gr. laga um meðhöndlun úrgangs sem fjallar um starfsleyfi fyrir móttökustöðvar fyrir úrgang, en frumvarp til þeirra laga er lagt fram af umhverfisráðherra á þessu þingi. Gert er ráð fyrir að umhverfisráðherra hafi úrskurðarvald um starfsleyfi fyrir slíkar móttökustöðvar eins og önnur starfsleyfi samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Um 8. gr.

    Listi þessi sem hér er lagt til að verði að fylgiskjali III með lögunum er unninn af starfshópi sem haft hefur það verkefni með höndum að semja nýja reglugerð um hollustuvernd. Í starfshópnum eru fulltrúar frá Hollustuvernd ríkisins, umhverfisráðuneytinu, Félagi heilbrigðis- og umhverfisfulltrúa, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og vinnuhópi um almennt heilbrigðiseftirlit. Fjölmargar stofnanir og félagasamtök hafa fengið listann til umsagnar. Stærstur hluti þeirrar starfsemi sem talin er upp hér er starfsleyfisskyldur samkvæmt núgildandi heilbrigðisreglugerð nr. 149/1990, með síðari breytingum. Helsta breytingin er að hér er lagt til að ýmiss konar starfsemi með dýr verði gerð starfsleyfisskyld, en einnig verslanir sem selja eiturefni og hættuleg efni, svo og fegrunar- og snyrtivörur. Sjá jafnframt athugasemdir um 3. gr.

Um 9. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 7/1998,
um hollustuhætti og mengunarvarnir, með síðari breytingum.

    Megintilgangur með frumvarpinu er að í lögunum sé skýrt kveðið á um starfsleyfisskyldu og efni starfsleyfa fyrir þá starfsemi og atvinnurekstur sem undir lögin falla. Rýmkuð er skilgreining á hugtakinu hollustuvernd og lagðar til lítils háttar breytingar í tengslum við önnur lagafrumvörp.
    Ekki verður séð að lögfesting frumvarpsins hafi í för með sér aukinn kostnað fyrir ríkissjóð.