Ferill 384. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1023  —  384. mál.
Frumvarp til lagaum samgönguáætlun.

(Eftir 2. umr., 20. mars.)


1. gr.
Markmið.

    Tilgangur laga þessara er að samræma áætlanagerð við framkvæmdir og rekstur í samgöngumálum. Það skal gert með samgönguáætlun til tólf ára skv. 2. gr. og fjögurra ára áætlun skv. 4. gr. innan ramma samgönguáætlunar.

2. gr.
Samgönguáætlun.

    Samgönguráðherra leggur á fjögurra ára fresti fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun sem tekur til fjáröflunar og útgjalda til flugmála, vegamála og siglingamála, þ.m.t. hafnamála og sjóvarna, og rekstrar stofnana. Í samgönguáætlun skal skilgreina það grunnkerfi sem ætlað er að bera meginþunga samgangna og gera skal grein fyrir ástandi og horfum í samgöngum í landinu. Jafnframt skal mörkuð stefna fyrir allar greinar samgangna næstu tólf ár. Þá skal í samgönguáætlun meta og taka tillit til þarfa ferðaþjónustunnar fyrir bættar samgöngur.
    Í samgönguáætlun skal gera ráð fyrir eftirfarandi skilyrðum:
     a.      að ná fram samræmdri forgangsröð og stefnumótun,
     b.      að ná fram hagkvæmri notkun fjármagns og mannafla,
     c.      að ná fram víðtæku samspili samgöngumáta og samstarfi stofnana samgönguráðuneytisins.
    Við gerð samgönguáætlunar skal taka mið af því að fjármunir ríkissjóðs nýtist sem best og skal forgangsröðun byggjast á mati á þörf fyrir samgönguframkvæmdir í landinu í heild og í einstökum landshlutum.
    Áætlun um fjáröflun og útgjöld skal skipt á þrjú fjögurra ára tímabil og útgjöld sundurliðuð eftir helstu útgjaldaflokkum. Jafnframt er útgjöldum vegna nýrra framkvæmda á grunnkerfinu skipt á einstök stór verkefni á hverju hinna þriggja tímabila.
    Samgönguáætlun skal endurskoða á fjögurra ára fresti.

3. gr.
Samgönguráð.

    Samgönguráðherra skipar samgönguráð sem hefur yfirumsjón með gerð samgönguáætlunar. Í samgönguráði sitja flugmálastjóri, siglingamálastjóri og vegamálastjóri. Auk þess situr þar fulltrúi samgönguráðherra sem jafnframt er formaður. Skipunartími fulltrúa samgönguráðherra er fjögur ár en skal þó takmarkaður við embættistíma þess ráðherra sem skipar.
    Samgönguráð skal minnst einu sinni við gerð nýrrar samgönguáætlunar standa fyrir samgönguþingi sem ætlað er að veita ráðgjöf og leiðbeiningar við gerð samgönguáætlunar. Til samgönguþings skal öllum helstu hagsmunaaðilum samgöngumála boðið. Á samgönguþingi skal gera grein fyrir fyrirhuguðum forsendum og markmiðum áætlunarinnar. Samgönguráð skal hafa samráð við hagsmunaaðila eins og ástæða þykir til hverju sinni.

4. gr.
Fjögurra ára áætlun.

    Samgönguráðherra leggur fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um fjögurra ára áætlun samgönguáætlunar sem tekur til nánari sundurliðunar hennar. Tekjur og gjöld fjögurra ára áætlunar skulu rúmast innan ramma samgönguáætlunar. Í fjögurra ára áætlun skal vera áætlun fyrir hvert ár tímabilsins fyrir hverja stofnun samgöngumála, þ.e. Flugmálastjórn Íslands, Siglingastofnun Íslands og Vegagerðina. Sundurliðun fjögurra ára áætlunar skal hagað þannig að ábyrgð og fjárheimildir hverrar stofnunar komi skýrt fram. Kaflar hennar skulu m.a. skiptast í flugmálaáætlun, siglingamálaáætlun og vegáætlun. Gerð skal grein fyrir fjáröflun og útgjöld skulu sundurliðuð eftir einstökum framkvæmdum, rekstri, þjónustu og viðhaldi eftir því sem við á. Í fjögurra ára áætlun skal m.a. vera sundurliðun í samræmi við uppsetningu fjárlaga.
    Tillögur að fjögurra ára áætlun skulu unnar í stofnunum samgöngumála fyrir samgönguráð. Samgönguráð semur síðan endanlega tillögu og leggur fyrir samgönguráðherra.
    Fjögurra ára áætlun skal endurskoðuð á tveggja ára fresti og þá lögð fram ný þingsályktunartillaga um hana fyrir næstu fjögur árin, sbr. 1. mgr., þannig að ávallt sé í gildi áætlun fyrir a.m.k. tvö ár.

5. gr.
Skýrsla um framkvæmd samgönguáætlunar.

    Ráðherra skal árlega fyrir lok vorþings leggja fram á Alþingi skýrslu um framkvæmd samgönguáætlunar næstliðið ár.

6. gr.
Gildistaka samgönguáætlunar.

    Samgönguáætlun og fjögurra ára áætlun hennar taka gildi þegar Alþingi hefur samþykkt þær sem þingsályktunartillögur.

7. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Á 128. löggjafarþingi leggur samgönguráðherra í fyrsta sinn fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun 2003−2014. Í framhaldi af því leggur ráðherra fram tillögu til þingsályktunar um fjögurra ára áætlun hennar.