Ferill 453. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1074  —  453. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 17/1991, um einkaleyfi, með síðari breytingum.

Frá iðnaðarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jón Ögmund Þormóðsson frá iðnaðarráðuneyti og Ástu Valdimarsdóttur og Lilju Aðalsteinsdóttur frá Einkaleyfastofunni. Umsagnir bárust um málið frá áfrýjunarnefnd hugverkaréttinda á sviði iðnaðar, Samtökum atvinnulífsins, Félagi umboðsmanna vörumerkja og einkaleyfa, Samtökum iðnaðarins, Einkaleyfastofunni og laganefnd Lögmannafélags Íslands.
    Frumvarpið er lagt fram í því skyni að laga lög um einkaleyfi að breytingum á samstarfssáttmálanum um einkaleyfi (PCT-sáttmálanum) og koma á því fyrirkomulagi að umboðsmenn einkaleyfishafa þurfi ekki að vera búsettir hér á landi, en það skilyrði núgildandi laga stríðir gegn meginmarkmiðum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið um frjálst flæði þjónustu.
    Nefndin gerir smávægilegar breytingartillögur við frumvarpið. Þær eru þessar:
     1.      Lagt er til að ákvæði 6. gr. verði bráðabirgðaákvæði þar sem sú regla sem það hefur að geyma er í eðli sínu tímabundin og eðlilegt að hún standi ekki til frambúðar í einkaleyfalögum.
     2.      Nefndin leggur jafnframt til að gildistökuákvæði frumvarpsins verði breytt, en útlit er fyrir að það verði ekki að lögum fyrir 1. apríl nk. eins og gert var ráð fyrir, en á þingi Alþjóðahugverkastofnunarinnar sl. haust var ákveðið að þær breytingar sem stafa af breytingum á samstarfssáttmálanum um einkaleyfi skyldu leiddar í lög aðildarríkja fyrir þennan tíma. Þess í stað leggur nefndin til að í gildistökuákvæði verði kveðið á um að lögin öðlist þegar gildi svo að unnt verði að beita ákvæðum þeirra strax eftir birtingu í Stjórnartíðindum.
    Nefndin bendir einnig á að í athugasemdum við 5. gr. frumvarpsins segir að sé umboðsmaður ekki tilnefndur fari um birtingu stefnu eftir lögum um meðferð einkamála, nr. 91/1991, með síðari breytingum. Í þeim lögum sé m.a. kveðið á um birtingu stefnu þegar stefndi eigi heimili eða aðsetur erlendis, sbr. einkum 89.– 91. gr. laganna. Nákvæmara væri hins vegar að fjalla almennt um birtingu stefnu eftir einkamálalögunum, nr. 91/1991, hvort sem umboðsmaður hefur verið tilnefndur eða ekki og án nánari tilgreiningar þannig að eingöngu kæmi fram að um birtingu stefnu færi eftir lögum um meðferð einkamála, nr. 91/1991, með síðari breytingum.

    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Ísólfur Gylfi Pálmason var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 25. mars 2002.



Hjálmar Árnason,


form., frsm.


Guðjón Guðmundsson.


Bryndís Hlöðversdóttir.



Pétur H. Blöndal.


Svanfríður Jónasdóttir.


Helga Guðrún Jónasdóttir.



Jón Bjarnason.


Kjartan Ólafsson.