Ferill 670. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1086  —  670. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum nr. 151 27. desember 1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)


1. gr.

    Við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða er orðast svo:
    Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 5. gr. skal Fiskistofa úthluta einstökum skipum aflahlutdeild í norsk-íslenska síldarstofninum á grundvelli aflareynslu þeirra á árunum 1994–2001 að báðum árum meðtöldum. Hafi skip komið í stað skips sem áunnið hefur sér aflareynslu, sbr. b-lið 2. gr. laga nr. 38 11. maí 1998, um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum, skal það skip sem í staðinn kemur njóta þeirrar aflareynslu.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum hófust aftur frá Íslandi árið 1994 eftir 27 ára hlé. Á því ári veiddu Íslendingar 21 þús. lestir af síld. Árið 1995 gerðu Íslendingar og Færeyingar með sér tvíhliða samkomulag um nýtingu síldarinnar eftir árangurslausar viðræður þessara þjóða við Rússa og Norðmenn. Árið 1996 tókust samningar milli Færeyinga, Norðmanna, Rússa og Íslendinga um nýtingu síldarstofnsins og árið 1997 bættist Evrópusambandið í hóp samningsaðila. Hlutur Íslands á ári úr leyfilegum heildarafla hefur síðan 1995 verið á bilinu 132–233 þús. lestir.
    Um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum giltu á árunum 1998–2001 sérstök lög, nr. 38 11. maí 1998, sem féllu úr gildi í lok síðustu síldarvertíðar. Samkvæmt þeim lögum hefur veiðiskipum verið skipt upp í tvo hópa eftir því hvort þau stunduðu veiðar eða ekki á árunum 1995, 1996 eða 1997 og þeim úthlutað sérstöku aflahámarki í síld. Samkvæmt þeim lögum bar að skipta a.m.k. 90% heildarkvótans milli þeirra skipa sem stunduðu veiðar á þeim viðmiðunarárum og skipa sem komu í stað skipa sem stunduðu veiðar þann tíma. Þá bar að skipta allt að 10% kvótans milli þeirra skipa sem ekki höfðu stundað veiðar á viðmiðunarárunum. Þeim kvóta sem þannig kom í hlut hvors skipaflokks var skipt milli einstakra skipa þannig að 60% var skipt jafnt en 40% var skipt á grundvelli burðargetu þeirra. Sú takmörkun var á úthlutun til skipa sem ekki höfðu stundað veiðar á viðmiðunarárunum að aldrei mátti meira magn koma í hlut hvers skips en nam 25% af meðatalsaflahámarki skipa í hinum flokknum. Þau skip sem stunduðu veiðar á viðmiðunarárunum eða komið hafa stað þeirra hafa nýtt sér heimildir til veiða en önnur ekki. Heimildir til framsals aflahámarks voru takmarkaðar á árunum 1998 og 1999 og miðuðust við veiði skipsins á fyrri síldarvertíðum en tvær síðustu vertíðir var framsalsheimild skipa sem höfðu stundað veiðar á viðmiðunarárunum rýmkuð verulega.
    Í 2. mgr. 5. gr. laga nr. 151/1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, er fjallað um hvernig standa skuli að úthlutun aflahlutdeildar til einstakra skipa þegar ákvörðun er tekin um að takmarka heildarafla úr stofni sem veiðist bæði innan og utan lögsögu Íslands. Samkvæmt þessari grein skal hlutdeild hvers skips ákveðin á grundvelli veiðireynslu þess miðað við þrjú bestu veiðitímabil þess á undangengnum sex veiðitímabilum.
    Í frumvarpi þessu er lagt til að vikið verði frá úthlutunarreglu 2. mgr. 5. gr. laga um fiskveiðar utan lögsögu Íslands með tvennum hætti. Í fyrsta lagi verði aflareynslan alveg frá upphafi síldveiða á árinu 1994 látin ráða aflahlutdeildinni og í öðru lagi verði kveðið með skýrum hætti á um það að hafi skip komið í stað skips þá flytjist aflareynslan jafnframt á milli skipanna. Ástæða þess að lagt er til að miðað verði við veiðar frá upphafi við úthlutun aflahlutdeildar er sú að hluta tímabilsins hefur stjórn veiðanna verið með þeim hætti að skipum hefur verið úthlutað ákveðnu aflahámarki sem hefur verið framseljanlegt, að minnsta kosti að hluta. Framsal aflaheimilda hefur því haft mikil áhrif á aflareynslu skipanna og þar af leiðandi aflahlutdeild þeirra. Með því að miða við veiðar öll árin í stað þriggja þeirra bestu er í raun komið í veg fyrir að sama skipið geti notið fullrar aflareynslu en hafi jafnframt haft áhrif á aflareynslu annarra skipa með framsali. Að aflareynsla flytjist milli skip er í raun í samræmi við þá framkvæmd er tíðkast hefur við sambærilegar úthlutanir veiðiheimilda en ástæða þykir til að kveða með skýrum hætti á um það hér.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 151 27. desember 1996,
um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, með síðari breytingum.

    Tilgangur frumvarpsins er að kveða á um úthlutunarreglur úr norsk-íslenska síldarstofninum.
    Frumvarpið er ekki talið hafa í för með sér kostnaðarauka fyrir ríkissjóð verði það óbreytt að lögum.