Ferill 204. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1140  —  204. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um atvinnuréttindi útlendinga.

Frá félagsmálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ástu S. Helgadóttur frá félagsmálaráðuneyti, Heiðu Gestsdóttur frá Vinnumálastofnun, Kötlu Þorsteinsdóttur frá Alþjóðahúsi, Skúla Guðmundsson frá Hagstofu Íslands, Þórð Skúlason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Jón H. Magnússon frá Samtökum atvinnulífsins, Guðjón Atlason frá Mannréttindasamtökum innflytjenda, Antoinette M. Gyedu frá fjölmenningarráði, Halldór Grönvold frá Alþýðusambandi Íslands, Jóhann Jóhannsson og Georg Kr. Lárusson frá Útlendingaeftirlitinu.
    Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Alþýðusambandi Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Bændasamtökum Íslands, Flóttamannaráði Íslands, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Vélstjórafélagi Íslands, Mannréttindasamtökum innflytjenda á Íslandi, Toshiki Toma, presti innflytjenda, Samtökum atvinnulífsins, Lögmannafélagi Íslands, Samtökum fiskvinnslustöðva, Vinnumálastofnun, Útlendingaeftirlitinu, Jafnréttisstofu, fjölmenningarráði, Alþjóðahúsi, Rauða krossi Íslands og Biskupsstofu.
    Frumvarpið felur í sér heildarendurskoðun á lögunum en miklar breytingar hafa orðið á íslenskum vinnumarkaði frá gildistöku núgildandi laga. Við samningu frumvarpsins var litið til þeirrar framkvæmdar sem skapast hefur á grundvelli þeirra og er því m.a. verið að festa hana í sessi. Í frumvarpinu er að finna reglur um rétt útlendinga hér á landi til atvinnu að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Einnig er frumvarpinu ætlað að tryggja réttaröryggi útlendinga sem koma til landsins í atvinnuskyni. Jafnframt var við samningu frumvarpsins tekið tillit til þeirrar almennu þróunar sem orðið hefur í löggjöf á sviði stjórnsýsluréttar og mannréttinda og í alþjóðlegu samstarfi auk þess sem tekið var mið af frumvarpi til laga um útlendinga.
    Frumvarpið er nú endurflutt frá 126. löggjafarþingi. Örlitlar breytingar voru gerðar á frumvarpinu á milli þinga en helstu nýmæli þess eru eftirfarandi: Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir atvinnuleyfi til sérhæfðra starfsmanna fyrirtækja sem ekki hafa starfsstöð hér á landi. Í öðru lagi er heimilt að víkja frá skilyrðum um umsögn stéttarfélags í tilteknum tilvikum. Í þriðja lagi er að finna ákvæði um skyldu atvinnurekanda til að sjúkratryggja erlendan starfsmann sinn. Í fjórða lagi er heimilt að víkja frá þeirri meginreglu að tímabundið atvinnuleyfi skuli ætíð liggja fyrir áður en útlendingur kemur í fyrsta sinn til að starfa hér á landi ef ríkar sanngirnisástæður mæla með því. Í fimmta lagi er heimilt að veita nánustu aðstandendum


Prentað upp á ný.

útlendings tímabundið atvinnuleyfi að fullnægðum tilteknum skilyrðum. Í sjötta lagi er heimilt við vissar aðstæður að víkja frá skilyrðum varðandi óbundið atvinnuleyfi, svo sem vegna skilnaðar útlendings og Íslendings, andláts íslensks maka eða erlendra námsmanna. Í sjöunda lagi er að finna sérstakt ákvæði um íslenskukennslu og samfélagsfræðslu. Í áttunda lagi er í frumvarpinu að finna heimildarákvæði um tímabundið atvinnuleyfi sem veita má annars vegar hælisleitanda þar til ákvörðun hefur verið tekin um umsókn hans og hins vegar útlendingi, sem hefur endanlega verið synjað um hæli eða dvalarleyfi, þar til brottvísunin kemur til framkvæmda. Í níunda lagi er heimilt að víkja frá skilyrðum fyrir veitingu óbundins atvinnuleyfis ef um er að ræða maka útlendings eða uppkomin börn útlendings sem er með slíkt leyfi. Í tíunda lagi er í frumvarpinu nýr kafli um málsmeðferð. Loks er kveðið á um samráðsnefnd Vinnumálastofnunar og Útlendingastofnunar.
    Heimild ráðherra til að binda atvinnuleyfi öðrum skilyrðum en fram koma í lögunum er með frumvarpinu þrengd frá gildandi lögum þar sem heimildin er nú takmörkuð við mikilvæga almannahagsmuni. Nefndin leggur áherslu á að heimildinni sé ekki beitt nema fyrir hendi séu svokölluð „force major“ tilvik og þá fyrst og fremst við útgáfu nýrra leyfa.
    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali. Í fyrsta lagi telur nefndin nauðsynlegt að nánustu aðstandendur útlendings séu skilgreindir í frumvarpinu og leggur því til sömu skilgreiningu og er að finna á nánustu aðstandendum útlendings í frumvarpi til laga um útlendinga. Enn fremur er lagt til að útlendingar sem falla undir reglur stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu verði undanþegnir kröfu um atvinnuleyfi og er sú breyting í samræmi við nýjan stofnsamning EFTA sem undirritaður var 21. júní 2001. Þá eru lagðar til breytingar á refsiákvæðum frumvarpsins en í þeim er ítarlega greint frá því hvaða háttsemi skuli refsiverð samkvæmt lögunum, hver sé refsirammi og hverjar saknæmiskröfur. Loks leggur nefndin til fáeinar orðalagsbreytingar.

Alþingi, 5. apríl 2002.



Arnbjörg Sveinsdóttir,


form., frsm.


Magnús Stefánsson.


Jónína Bjartmarz.



Kristján Pálsson.


Drífa Hjartardóttir.


Pétur H. Blöndal.



Guðrún Ögmundsdóttir,


með fyrirvara.


Ásta R. Jóhannesdóttir,


með fyrirvara.


Steingrímur J. Sigfússon,


með fyrirvara.