Ferill 670. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1292  —  670. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 151 27. desember 1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, með síðari breytingum.

Frá 1. minni hluta sjávarútvegsnefndar.



    Með frumvarpi þessu er lagt til að loðnuveiðiflota landsmanna verði úthlutað varanlegri aflahlutdeild í norsk-íslenska síldarstofninum. Samkvæmt frumvarpinu skal Fiskistofa úthluta einstökum skipum í eigu íslenskra útgerðarmanna aflahlutdeild á grundvelli aflareynslu skipanna á árunum 1994–2001 að báðum árum meðtöldum. Út af fyrir sig eru rök til þess að miða úthlutun við lengri veiðireynslu en þrjú ár ef það er vilji meiri hluta alþingismanna að úthluta nú þessum réttindum til fárra útgerða með varanlegri aflahlutdeild. Það er hins vegar grundvallarspurning sem hver verður að svara fyrir sig. Ljóst er að það er minni ágreiningur um kvótastýrðar veiðar á uppsjávarafla en veiðar á botnfiskstofnum með kvótakerfi. Úthlutun verðmæta til útgerðarmanna einna þegar heimil er sala og leiga á veiðiréttinum án þess að atvinnuréttur sjómanna eða fólks í sjávarútvegsbyggðum sé á neinn hátt tryggður verður hins vegar ávallt mjög umdeild. Útgerðin átti aldrei að fá leigu- og sölurétt á óveiddum fiski. Útgerðin þurfti reglur um veiðirétt og nýtingarrétt sér til handa. Í veiðunum var varðveittur atvinnuréttur fólksins sem varð að söluvöru útgerðarmanna sem nú hafa sjálfdæmi um afkomu og framtíð fólks í sjávarbyggðum. Í lögum um veiðar utan lögsögu Íslands, nr. 151/1996, voru á sínum tíma sett sérstök ákvæði um innskilareglu. Í 4. mgr. 5. gr. þeirra laga er ákvæði um að binda megi úthlutun því skilyrði að skip afsali sér aflaheimildum úr fiskistofnum innan lögsögu Íslands er nemi, reiknað í þorskígildum, allt að 15% af þeim aflaheimildum sem ný úthlutun færir þeim eða þá allt að 15% þeirrar tegundar sem úthlutað er, reiknað í þorskígildum. Þessi aðferð var notuð í samræmi við lögin þegar úthlutað var rækjukvóta á Flæmingjagrunni um áramótin 1996–1997. Þar sem rækja á Flæmingjagrunni er ekki deilistofn, þ.e. veiðist ekki á lögsögumörkum 200 sjómílna fiskveiðilandhelginnar eins og norsk-íslenska síldin, var innskilareglan byggð á 4. mgr. 6. gr. fyrrgreindra laga en þar segir að innskil skuli vera allt að 7% af þeim aflaheimildum sem úthlutað var reiknað í þorskígildum. Þar var ákveðið að 4% af rækjuhlutdeild skyldi skilað inn. Sú regla hækkaði kvóta innan lögsögunnar um 274.423 kíló til annarra skipa.
    Þegar úthlutað var úthafskarfa á Reykjaneshrygg, sem veiðist bæði innan og utan lögsögu og er því deilistofn líkt og norsk-íslenska síldin, var ákveðið af ráðherra að 8% af þeirri úthafskarfahlutdeild sem úthlutað var ætti að skila inn til annarra skipa. Sú regla hækkaði kvóta annarra skipa innan lögsögunnar um 1.938.991 kíló.
    Enn ein regla er í lögum nr. 151/1996 um mögulega útfærslu til innskila sem byggist á nokkurs konar uppboði þeirra sem njóta vilja úthlutunar. Þar segir: „Þá getur hann [ráðherra] ráðstafað veiðiheimildum til skipa þeirra útgerða sem að undangenginni auglýsingu hafa lýst sig með skuldbindandi hætti reiðubúnar til þess að afsala af viðkomandi skipi mestum aflaheimildum, reiknað í þorskígildum, á tegundum sem heildarafli er takmarkaður af.“ Þrátt fyrir þessi lagaákvæði sem áður er vitnað til og fyrri framkvæmdir sjávarútvegsráðherra við beitingu innskilareglu þegar verið er að færa útgerðarmönnum einum eignar-, sölu- og leigurétt til viðbótar veiðiréttinum á nýjum kvótasettum fiskveiðistofnum, í þessu tilfelli norsk-íslensku síldinni, er ekki vikið orði að því í greinargerð með frumvarpinu né í nefndaráliti meiri hlutans að nú skuli farið að áðurnefndum ákvæðum laganna um að aflaheimildir annarra aukist lítillega þegar verið er að eignfæra norsk-íslensku síldina að öllu leyti til fárra útgerða.
    Einnig er litið fram hjá því að allt að 5% séu forgangur þeirra sem veiðarnar hófu eða náðu fyrstir árangri við veiðarnar þótt slíkt frumkvöðlaákvæði sé í lögunum og hafi áður verið virkt í úthlutun úthafskarfans á Reykjaneshrygg. Frá því að þessar veiðar hófust að nýju árið 1994 hefur verið deilt um hvernig þessum rétti skuli úthlutað. Einkum voru sjómenn ósáttir við að enn á ný yrði rétturinn útgerðarmanna einna. Á fylgiskjali með nefndaráliti þessu má sjá viðhorf skipstjórnarmanna sem birtust í umsögn F.F.S.Í. árin 1997 og 1998.

Alþingi, 20. apríl 2002.



Guðjón A. Kristjánsson,


frsm.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal.

Umsagnir Farmanna- og fiskimannasambands Ísland til sjávarútvegsnefndar.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.