Ferill 562. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1293  —  562. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

Frá 1. minni hluta sjávarútvegsnefndar (JÁ, SvanJ).    Þetta frumvarp fjallar um veiðigjald og fleira. Sú útfærsla sem lögð er til byggist á niðurstöðum meiri hluta nefndar sem sjávarútvegsráðherra skipaði 28. september 1999 til að endurskoða lögin um stjórn fiskveiða. Gjaldið leggst á úthlutaðar veiðiheimildir hjá meiri hluta flotans, en á landaðan afla hjá bátum á sóknardögum Samkvæmt frumvarpinu mun gjaldtaka hefjast árið 2004 og fara smáhækkandi fram til ársins 2009.
    Ríkisstjórnin og þingmeirihlutinn á Alþingi hefur með þessu frumvarpi valið veiðigjaldsleið sem er ætlað að verja sérréttindi kvótahafanna og það einokunarfyrirkomulag sem gildir í stað „fyrningarleiðar“ og sátta. Því veiðigjaldi sem lagt er til að upp verði tekið virðist vera ætlað að taka mið af afkomu greinarinnar. Ekkert tillit er þó tekið til verðmætis aflaheimildanna sem viðkomandi útgerðarmenn fá. Sú viðmiðun er þó aðgengileg því að verðmæti aflaheimilda liggur alltaf fyrir á markaði sem er sívirkur. Fyrir fram má sjá að ýmsir gallar munu verða á framkvæmdinni. Í fyrsta lagi verður gjaldið miðað við meðalafkomu í greininni árið á undan. Gjaldið sem lagt er til er afar lágt miðað við raunverð þeirra aflaheimilda sem ríkið er að úthluta viðkomandi útgerðum. Ef tillit er tekið til þess að um leið og það verður lagt á verða önnur gjöld á útgerðina lögð niður er um óverulega hækkun álaga á útgerðina að ræða sé miðað við afkomu fyrri ára. Þótt haft sé á orði að miða skuli við afkomu í sjávarútvegi er samt vitað að vegna aðferðarinnar við að ákveða gjaldið munu einstakar greinar útgerðar, ef illa árar í þeim, þurfa að borga sama gjald og hinar sem vel gengur. Þetta er mjög varhugavert og getur valdið óþolandi mismunun ef gjaldið verður hækkað í framtíðinni. Þá er gjaldið innheimt miðað við kvótaígildi en ekki aflaverðmæti sem skekkir mjög stöðuna milli útgerðarsvæða, t.d. í þorski á milli Norður- og Suðurlands. Augljóst er að þær útgerðir sem til lengri tíma skila hagnaði munu skila gjaldinu til ríkisins að frádregnum skatti en hinar sem ekki hafa hagnað greiða gjaldið að fullu í ríkissjóð. Þegar það er haft í huga að margar útgerðir hafa verið reknar áratugum saman án þess að sýna hagnað virðist hér komin aðferð til að láta þær greiða til ríkissjóðs þótt í litlu sé. Almennt má segja um þessa leið að hún er sniðin að hagsmunum þeirra sem nú eru handhafar veiðiréttarins.
    Í aðferðinni, þ.e. að leggja gjaldið á úthlutaðar veiðiheimildir án þess að hróflað sé við sérréttindum kvótahafana, er fólgin sú afstaða að ríkisstjórnin ætlar með öllum ráðum að verja einkaeignarhald kvótahafanna á því að nýta þjóðarauðlindina. Það er lokasvar ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar við spurningu sem brunnið hefur á landsmönnum síðan fyrir síðustu kosningar til Alþingis, spurningunni um hvernig Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn ætla að standa við loforð foringja sinna um að leita sátta í deilunum um stjórn fiskveiða. Þessi niðurstaða hefur að vísu legið í loftinu síðan auðlindanefndin skilaði áliti sínu, en við það tækifæri setti forsætisráðherra fram sína skoðun á því hvernig bæri að túlka þann afskilnað. Eftir það hefur ekki farið á milli mála að forsætisráðherra vildi fara þá leið sem hér liggur fyrir. Auðvitað talaði hann þá fyrir báða stjórnarflokkana í þessu máli. Sjávarútvegsráðherra kom síðan í fótspor foringjans með yfirlýsingar um að þessi svokallaða veiðigjaldsleið væri leiðin til „betri sátta“.
    Í kjölfarið hófst svo leikþáttur í kring um nefnd sem sjávarútvegsráðherra skipaði. Nú er það orðið alveg ljóst að sú nefnd hafði aldrei annað hlutverk en að skila samkomulagi foringjanna frá sér í tillöguformi. Allt sýnir þetta að fyrir talinu um sátt var engin innistæða.
    Um einstakar greinar í frumvarpinu vill 1. minni hluti taka eftirfarandi fram:
    Heimild er í 1. gr. til ráðherra til að ákveða að afli sem fenginn er við vísindalegar rannsóknir Hafrannsóknastofnunarinnar, en einnig rannsóknir annara vísindamanna eða stofnana, skuli ekki reiknast til heildarafla. Með þessari breytingu er opnað á þann möguleika að fleiri en Hafrannsóknastofnunin geti stundað fiskirannsóknir og veitt fisk í rannsóknarskyni án þess að hafa til þess veiðiheimildir. Gert er ráð fyrir að umsögn Hafrannsóknastofnunarinnar þurfi að liggja fyrir. Slíkt hlýtur að vera umhugsunarefni vegna þess að samkeppni milli vísindamanna getur vel haft áhrif á slíkar umsagnir. Að öðru leyti telur 1. minni hluti þessa breytingu jákvæða.
    2. gr. hefur ekki efnislega þýðingu.
    3. gr. er ætlað að styrkja framkvæmd Fiskistofu á flutningi veiðiréttar af skipi sem hverfur úr rekstri til annars skips. Nefndarmönnum var tjáð að þessi breyting hefði ekki áhrif á gerða samninga milli kaupenda og seljenda skipa.
    Ákvæði 4. gr. um að árlega skuli úthluta 1.500 þorskígildistonnum í óslægðum botnfiski til skipa í byggðarlögum sem lent hafa í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi skal taka gildi 1. september 2002 samkvæmt breytingartillögu meiri hlutans. Ennig verður ráðherra heimilt, að höfðu samráði við Byggðastofnun, að úthluta á fiskveiðiárinu 2001/2002 allt að 500 þorskígildislestum af fyrrnefndum 1.500 í óslægðum botnfiski til skipa sem gerð eru út frá byggðarlögum sem verða talin hafa lent í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi.
    Rétt er að ræða í samhengi við þetta að í ákvæði til bráðabirgða XXV er gert ráð fyrir því að úthluta 3.000 lestum af þorski til aflamarksbáta fram til ársins 2006. Meiri hlutinn leggur nú til að sú úthlutun verði varanleg. Sama máli gegnir um ákvæði til bráðabirgða XXVI en í því er gert ráð fyrir að Byggðastofnun úthluti aflaheimildum sem nema alls 1.500 þorskígildislestum til og með fiskveiðiárinu 2005/2006. Þetta verður gert varanlegt samkvæmt tillögum meiri hlutans og sjávarútvegsráðuneytinu falin úthlutunin með sama hætti og gert er ráð fyrir í 4. gr. frumvarpsins.
    Hér eru á ferðinni tillögur sem lýsa vel áhrifum einkaeignarhaldsins sem gildir á veiðiréttinum. Hvert byggðarlagið á fætur öðru lendir í óvissu og vanda. Þá er hlaupið til með handstýrðar úthlutanir og aðgerðir sem eru jafnvel fundnar út með því að skoða stöðu og þarfir einstakra útgerða. Þingmenn ríkisstjórnarflokkanna lýsa sig andvíga kerfinu og harma afleiðingar þess en ríkisstjórninni tekst ævinlega að kaupa einstaka þingmenn til stuðnings við óréttlátt kerfi sem mismunar einstaklingum og byggðarlögum með hrossakaupum sem lýsa sér ágætlega í þeim tillögum sem hér er fjallað um.
    Í 5. gr. er lögð til sú breyting að krókaaflamarksbátar megi vera allt að 15 brúttótonn í stað 6 brúttórúmlesta eða 6 brúttótonna í gildandi lögum. Útgerð krókaaflamarksbáta er nú burðarás í atvinnulífi ýmissa byggðarlaga sem hafa glatað aflaheimildum í núgildandi kerfi. Þessir bátar eru auðvitað allt of smáir til útgerðar á vetrum. Það er hins vegar umdeilanlegt hvar þessi stærðarmörk ættu helst að liggja. Skynsamlegt er öryggis vegna að hækka þau verulega. Þótt einungis væri leyfð stækkun upp í 10 brúttótonn væri um að ræða næstum tvöföldun á stærð bátanna. Hér er ætlunin að leyfa þreföldun á stærð stærstu bátanna. Þetta þýðir að inn í kerfið koma bátar í stærðum sem notaðar eru á alls kyns veiðar aðrar en krókaveiðar, jafnvel net, snurvoð, skel og fleira. Þetta hefur það einnig í för með sér að inn í þennan hóp koma bátar sem hafa aðrar skyldur vegna skráningar áhafnar. Til að tvístra ekki útgerðarmönnum í þessum hópi hefur meiri hlutinn lagt fram frumvarp um breytingu á lögunum um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun sem á að tryggja að krókaaflamarksbátar upp í 15 brúttótonn verði áfram hjá Landssambandi smábátaeigenda. Það frumvarp þarf hins vegar nána skoðun og það þarf að fara yfir áhrif af breytingunni með hagsmunaaðilum til að tryggja að ekki komi upp vandamál vegna kjarasamninga eða annarra atriða. Vert er að hafa í huga að ríkisstjórnin hefur nú þegar hrundið af stað endurskoðun sem getur leitt til þess að lögin um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun verði numin úr gildi að einhverju leyti.
    Í 6. gr. voru lagðar til miklar breytingar á leyfilegri hámarksaflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra aðila. Meiri hlutinn dregur úr þessum áformum með breytingartillögum sínum og leggur til að hámarksaflahlutdeild einstakra aðila í ýsu, ufsa og grálúðu verði 20%, en 35% í karfa. Frumvarpið hafði gert ráð fyrir að hámarkskvótahlutdeild yrði 50% í öllum þessum tegundum. Eftir situr þess vegna tillaga um hækkun hámarkskvótahlutdeildar í karfa úr 20% upp í 35%, sem þýðir að þrjár útgerðir geta ráðið öllum karfastofnunum við landið, í ýsu á að hækka hámarkshutdeild úr 10% í 20% og í þorski úr 10% í 12%. Þá er hámark samanlagðar aflahlutdeildar fiskiskipa í eigu einstakra aðila, einstaklinga eða lögaðila hækkuð úr 8% upp í 12%. Hér eru þrátt fyrir breytingartillögur meiri hlutans miklar breytingar á ferðinni sem greinilega er ætlað að greiða fyrir enn meiri samruna í sjávarútvegi.
    Í 7. gr. er leitast við að styrkja framkvæmd Fiskistofu við flutning aflaheimilda milli aðila.
    Í 8. gr. er lagt til að samráðsnefnd útgerðarmanna, sjómanna og ráðuneytis verði lögð niður. Þessi nefnd hefur ekki starfað en þær aðstæður gætu komið upp að slík nefnd gæti orðið að gagni og því hefði, meðan ekki næst betri sátt um málefni sjávarútvegsins, verið ástæða til að hafa þennan möguleika til samráðs tiltækan.
    Í 9. gr. er leitast við að ná öruggari tökum á eftirliti Fiskistofu með eignarhaldi skipa til þess að kvótinn rati í „réttar“ hendur samkvæmt þeim reglum sem gilda.
    Í 10 gr. eru tillögur um þær reglur sem ætlað er að láta gilda um svokallað veiðigjald, útreikning og innheimtu á því. Athyglisvert er að sjá hringlandaháttinn í öllu málinu sem lýsir sér vel í því að enn er verið að breyta með tillögum meiri hlutans viðmiðunum um útreikning og upphæðir gjaldsins. Breyting frá haustþingi sem fól í sér að heimilt væri að flytja 30% krókaaflamarks milli fiskveiðiára fellur brott þannig að sama regla verður látin gilda um flutning krókaaflamarks og aflamarks. Lagt er til að heimilt verði að flytja allt krókaaflamark í ýsu, steinbít og ufsa frá fiskveiðiárinu 2001/2002 til fiskveiðiársins 2002/2003. Með því er komið til móts við óskir Landssambands smábátaeigenda um að ekki sé að fullu lokið við úthlutun aflaheimilda til handa smábátunum, eigendur þeirra eigi erfitt með að skipuleggja veiðar sínar og hætta sé á að aflaheimildir einstakra báta nýtist ekki. Einnig að ráðherra hafi 500 lestir af óslægðum þorski til ráðstöfunar til tilrauna með áframeldi í þorski sem er afar þörf tillaga.
    Lagðar eru til breytingar á gildistökuákvæði frumvarpsins. Gildistaka veiðigjaldsins er þó óbreytt frá því sem er í frumvarpinu. Ákvæði 4. gr. frumvarpsins skal taka gildi 1. september 2002. Ráðherra verður þá heimilt, að höfðu samráði við Byggðastofnun, að úthluta á fiskveiðiárinu 2001/2002 allt að 500 þorskígildislestum af óslægðum botnfiski til skipa sem gerð eru út frá byggðarlögum sem verða talin hafa lent í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi.
    Sú niðurstaða þess þingmeirihluta sem styður ríkisstjórn Davíðs Oddssonar í mesta pólitíska ágreiningsmáli íslenskra stjórnmála til margra ára sem hér liggur fyrir með þessu frumvarpi er óskiljanleg í ljósi loforða foringa stjórnarflokkanna fyrir síðustu kosningar. „Þjóðarsáttin“ varð að hraksmánarlegum hrossakaupum milli stjórnarflokkanna og LÍÚ og endaði með táknrænum hætti með því að kaupa fylgi þingmanna stjórnarflokkana í sjávarútvegsnefnd til fylgis við frumvarpið með sértækum úthlutunum til staða í þeirra eigin kjördæmum.
    Fyrsti minni hluti harmar þessi málalok og leggur til að frumvarpið verði fellt.

Alþingi, 20. apríl 2002.Jóhann Ársælsson,


frsm.


Svanfríður Jónasdóttir.