Ferill 562. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1362  —  562. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

(Eftir 2. umr., 23. apríl.)


1. gr.


         Við 1. mgr. 3. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir sem orðast svo: Afli sem veiddur er í rannsóknarskyni á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar reiknast ekki til heildarafla. Þá er ráðherra heimilt að fenginni umsögn Hafrannsóknastofnunarinnar að ákveða að afli sem fenginn er við vísindalegar rannsóknir annarra aðila skuli ekki að hluta eða öllu leyti reiknast til heildarafla.

2. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „veiðitíma og reglum settum skv. 2. mgr. 4. gr.“ í 1. mgr. kemur: og veiðitíma.
     b.      Orðin „sbr. þó 4. málsl. þessarar málsgreinar“ í 2. mgr. falla brott.

3. gr.


    Við 1. mgr. 8. gr. laganna bætist nýr málsliður sem orðast svo: Hafi skip sem aflareynsla er bundin við, sbr. 1. málsl., horfið úr rekstri þegar úthlutun á sér stað er síðasta eiganda skipsins áður en það hvarf úr rekstri heimilt að ákveða á hvaða skip sú hlutdeild skuli skráð.

4. gr.


    Í stað 1.–3. mgr. 9. gr. laganna koma tvær nýjar málsgreinar er orðast svo:
    Á hverju fiskveiðiári skal ráðherra hafa til ráðstöfunar aflaheimildir er nema allt að 12.000 lestum af óslægðum botnfiski í þorskígildum talið til að mæta áföllum sem fyrirsjáanleg eru vegna verulegra breytinga í aflamarki einstakra tegunda. Af þeim 12.000 lestum sem ráðherra hefur til ráðstöfunar skv. 1. málsl. er ráðherra heimilt, að höfðu samráði við Byggðastofnun, að ráðstafa allt að 1.500 lestum af óslægðum botnfiski í þorskígildum talið til skipa sem gerð eru út frá byggðarlögum sem hafa lent í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi.
    Ráðherra skal í reglugerð kveða á um ráðstöfun aflaheimilda skv. 1. mgr. og kveða þar á um hvaða botnfisktegundir komi til úthlutunar.

5. gr.


    Við lögin bætist ný grein, 9. gr. a, sem orðast svo:
    Á hverju fiskveiðiári skal úthluta árlega 3.000 lestum af þorski. Þessum aflaheimildum skal úthlutað til báta sem höfðu aflahlutdeild 1. desember 1998 og voru þann dag minni en 200 brúttótonn, enda hafi þeir landað þorskafla á fiskveiðiárinu 1996/1997 eða 1997/1998. Aflaheimildir þessar miðast við óslægðan fisk og skulu þær dregnar frá leyfðum heildarafla þorsks áður en honum er skipt á grundvelli aflahlutdeildar. Úthlutun til einstakra báta skal miðast við heildaraflamark þeirra í þorskígildum talið. Við útreikning þennan skal miða við aflahlutdeildarstöðu þeirra 1. desember 1998, úthlutað heildaraflamark fiskveiðiársins 1998/1999 og verðmætastuðla á því fiskveiðiári, þó þannig að enginn bátur fái meira en 100% aukningu á þorskaflamarki og enginn hærri úthlutun en 10 lestir miðað við óslægðan fisk. Aldrei skal þó úthlutun samkvæmt þessari grein leiða til þess að heildaraflaheimildir einstakra skipa verði meiri en 450 þorskígildislestir samtals. Verði breytingar á skipakosti útgerðar er henni heimilt að flytja rétt til úthlutunar samkvæmt þessari grein yfir á annan bát í sinni eign. Jafnframt skal sjávarútvegsráðherra heimilt að úthluta samkvæmt reglum þessarar greinar viðbótaraflaheimildum til báta sem hafa komið í stað annarra á tímabilinu frá 1. september 1997 til gildistöku þessara laga, enda hafi allar aflaheimildir verið fluttar yfir á hinn nýja bát af þeim sem endurnýjaður var og skerðir slík úthlutun ekki rétt annarra samkvæmt greininni.

6. gr.


    Í stað orðanna „6 brl. eða 6 brúttótonnum“ í 2. málsl. 6. mgr. 11. gr. laganna kemur: 15 brúttótonnum.

7. gr.


    11. gr. a laganna orðast svo:
    Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 7. gr. og 11. gr. má samanlögð aflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra aðila, einstaklinga eða lögaðila, eða í eigu tengdra aðila, aldrei nema hærra hlutfalli af heildaraflahlutdeild eftirtalinna tegunda en hér segir:

Tegund Hámarksaflahlutdeild
Þorskur 12%
Ýsa 20%
Ufsi 20%
Karfi 35%
Grálúða 20%
Síld 20%
Loðna 20%
Úthafsrækja 20%

Nemi heildarverðmæti aflamarks annarra tegunda en að framan greinir, sem sæta ákvörðun um leyfðan heildarafla samkvæmt lögum þessum, við upphaf fiskveiðiárs hærra hlutfalli en 2% af heildarverðmæti aflamarks allra tegunda, sem sæta ákvörðun um leyfðan heildarafla, má samanlögð aflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra aðila, einstaklinga eða lögaðila, eða í eigu tengdra aðila aldrei nema hærra hlutfalli af heildaraflahlutdeild viðkomandi tegunda en 20%. Skal ráðherra við upphaf fiskveiðiárs tilgreina í reglugerð þær tegundir sem um er að ræða. Við mat á heildarverðmæti aflamarks skal annars vegar miða við verðmætahlutföll einstakra tegunda á viðkomandi fiskveiðiári eða veiðitímabili samkvæmt lögum um veiðieftirlitsgjald og hins vegar úthlutað aflamark einstakra tegunda á tímabilinu.
    Þá má samanlögð aflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra aðila, einstaklinga eða lögaðila, eða í eigu tengdra aðila ekki nema meira en 12% af heildarverðmæti aflahlutdeildar allra tegunda sem sæta ákvörðun um leyfðan heildarafla samkvæmt lögum þessum og 5. gr. laga nr. 151/1996. Við mat á heildarverðmæti aflahlutdeildar skal annars vegar miða við verðmætahlutföll einstakra tegunda á viðkomandi fiskveiðiári eða veiðitímabili samkvæmt lögum um veiðieftirlitsgjald og hins vegar úthlutað aflamark einstakra tegunda á tímabilinu.
    Til aflahlutdeildar fiskiskipa í eigu einstakra aðila skv. 1. og 2. mgr. telst einnig aflahlutdeild fiskiskipa sem aðilar hafa á kaupleigu eða leigu til sex mánaða eða lengur.
    Tengdir aðilar teljast:
     1.      Aðilar, þar sem annar aðilinn, einstaklingur eða lögaðili, á beint eða óbeint meiri hluta hlutafjár eða stofnfjár í hinum aðilanum eða fer með meiri hluta atkvæðisréttar. Fyrrnefndi aðilinn telst móðurfyrirtæki en hinn síðarnefndi dótturfyrirtæki.
     2.      Aðilar, þar sem annar aðilinn, einstaklingur eða lögaðili, hefur með öðrum hætti en greinir í 1. tölul. raunveruleg yfirráð yfir hinum. Fyrrnefndi aðilinn telst móðurfyrirtæki en hinn síðarnefndi dótturfyrirtæki.
     3.      Lögaðilar, þar sem svo háttar til að sami aðili eða sömu aðilar, einstaklingar eða lögaðilar, eða tengdir aðilar skv. 1. eða 2. tölul., eiga meiri hluta hlutafjár, stofnfjár eða atkvæðisréttar í báðum eða öllum lögaðilunum enda nemi eignarhlutur hvers þeirra um sig a.m.k. 10% af hlutafé, stofnfé eða atkvæðafjölda í viðkomandi lögaðilum. Sama á við ef aðili eða aðilar, einstaklingar eða lögaðilar eða tengdir aðilar skv. 1. eða 2. tölul., sem eiga meiri hluta hlutafjár, stofnfjár eða atkvæðisréttar í lögaðila og hver um sig á a.m.k. 10% hlutafjár, stofnfjár eða atkvæðisréttar í lögaðilanum, eiga ásamt viðkomandi lögaðila meiri hluta hlutafjár, stofnfjár eða atkvæðisréttar í öðrum lögaðila. Til eignarhluta og atkvæðisréttar einstaklinga í lögaðilum samkvæmt þessum tölulið telst jafnframt eignarhluti og atkvæðisréttur maka og skyldmenna í beinan legg.

8. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Þegar fiskiskipi hefur verið úthlutað aflamarki er heimilt að flytja aflamarkið milli skipa enda leiði flutningurinn ekki til þess að veiðiheimildir skipsins verði bersýnilega umfram veiðigetu þess. Tilkynning um flutning aflamarks skal hafa borist Fiskistofu eigi síðar en 15 dögum eftir að veiðitímabili lýkur.
     b.      Orðin „fyrir fram“ í 2. mgr. falla brott.
     c.      1. málsl. 7. mgr. orðast svo: Á hverju fiskveiðiári er einungis heimilt að flytja af fiskiskipi aflamark, umfram aflamark sem flutt er til skips, sem nemur 50% af samanlögðu aflamarki sem fiskiskipi er úthlutað.
     d.      Lokamálsliður 7. mgr. orðast svo: Heimilt er Fiskistofu að víkja frá þessari takmörkun á heimild til flutnings á aflamarki vegna breytinga á skipakosti útgerðar eða þegar skip hverfur úr rekstri um lengri tíma vegna alvarlegra bilana eða sjótjóns, samkvæmt nánari reglum sem ráðherra setur um skilyrði flutningsins.
     e.      Í stað orðanna „6 brl. eða 6 brúttótonnum“ í 8. mgr. kemur: 15 brúttótonnum.

9. gr.


    14. gr. laganna fellur brott.

10. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 15. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „og lánastofnunum“ í 2. mgr. kemur: lánastofnunum og opinberum stofnunum.
     b.      Við bætist ný málsgrein er orðast svo:
             Eigendaskipti á fiskiskipi, eða aðra breytingu á útgerðaraðild fiskiskips, sem leyfi hefur til veiða í atvinnuskyni, skal innan 15 daga frá undirritun samnings tilkynna til Fiskistofu. Bæði seljandi og kaupandi, eða leigusali og leigutaki þegar um leigu er að ræða, skulu sameiginlega undirrita tilkynningu um breytta útgerðaraðild á sérstöku eyðublaði sem Fiskistofa leggur til í þessu skyni. Afrit af kaupsamningi eða leigusamningi skal fylgja tilkynningu. Ábyrgð á tilkynningu til Fiskistofu hvílir á kaupanda skips eða leigutaka þess eftir atvikum. Ráðherra getur í reglugerð kveðið nánar á um framkvæmd tilkynningarskyldu. Vanefndir á tilkynningarskyldu varða viðurlögum skv. 25. gr.

11. gr.


    Á eftir III. kafla laganna koma tveir nýir kaflar, IV. kafli, Þorskígildi, með einni nýrri grein, 19. gr., og V. kafli, Veiðigjald, með fjórum nýjum greinum, 20.–23. gr., svohljóðandi:

    a. (19. gr.)
    Sjávarútvegsráðuneytið skal reikna þorskígildi fyrir 15. júlí ár hvert fyrir hverja tegund sem sætir ákvörðun um stjórn veiða, sbr. 20. gr., og taka mið af tólf mánaða tímabili sem hefst 1. maí næstliðið ár og lýkur 30. apríl. Sé tekin ákvörðun um stjórn veiða á tegund sem ekki hefur áður sætt slíkri ákvörðun skal þegar reikna þorskígildi fyrir tegundina miðað við sama tímabil og greinir í 1. málsl. Þorskígildi skulu reiknuð sem hlutfall verðmætis einstakra tegunda sem sæta ákvörðun um stjórn veiða af verðmæti slægðs þorsks. Til grundvallar verðmætaútreikningi skal leggja heildaraflamagn og heildarverðmæti þessara tegunda samkvæmt upplýsingum Fiskistofu þar um. Þegar fiskur er seldur ferskur erlendis skal miða við 88% af söluverðmæti hans. Varðandi botnfisk, að undanskildum karfa, skal miða við slægðan fisk. Miða skal við slitinn humar.

    b. (20. gr.)
    Leggja skal á veiðigjald fyrir veiðiheimildir sem veittar eru á grundvelli þessara laga, laga um fiskveiðar utan lögsögu Íslands eða annarra laga er kveða á um stjórn fiskveiða í samræmi við 22. gr.
    Ráðherra er heimilt að mæla nánar fyrir um útreikning, álagningu og innheimtu veiðigjalds á grundvelli þessa kafla.

    c. (21. gr.)
    Ráðherra skal ákvarða veiðigjald komandi fiskveiðiárs samkvæmt þessari grein fyrir 15. júlí ár hvert. Til grundvallar veiðigjaldinu skal leggja aflaverðmæti miðað við tímabil sem hefst 1. maí næstliðið ár og lýkur 30. apríl. Frá aflaverðmætinu skal draga reiknaðan olíukostnað, reiknaðan annan rekstrarkostnað og reiknaðan launakostnað á sama tímabili.
    Fiskistofa skal reikna aflaverðmæti fyrir tegundir sem sæta ákvörðun um stjórn veiða, sbr. 20. gr., og miða við tímabil 1. mgr.
    Frá aflaverðmæti skv. 2. mgr. skal draga eftirfarandi liði:
     a.      Reiknaðan olíukostnað að fjárhæð 6.218 millj. kr. sem taki breytingum miðað við meðaltal á skráðu verði á gasolíu á Rotterdammarkaði frá meðaltali ársins 2000 til meðaltals tímabils 1. mgr.
     b.      Reiknaðan annan rekstrarkostnað að fjárhæð 17.568 millj. kr. sem taki breytingum miðað við vísitölu neysluverðs frá meðaltali ársins 2000 til meðaltals tímabils 1. mgr.
     c.      Reiknaðan launakostnað sem miðast við 39,8% af aflaverðmæti, sbr. 1. mgr.
    Aflaverðmæti skv. 2. mgr. að frádregnum liðum 3. mgr. skal skipt jafnt á aflamagn sama tímabils umreiknað til þorskígilda miðað við þorskígildisstuðla næsta fiskveiðiárs, sbr. 19. gr. Veiðigjald komandi fiskveiðiárs skal síðan reiknað sem 9,5% af niðurstöðutölu 1. málsl. í krónum á þorskígildiskílógramm.

    d. (22. gr.)
    Fiskistofa leggur á veiðigjald. Eigendur skipa skulu greiða veiðigjald fyrir hvert þorskígildiskílógramm úthlutaðra veiðiheimilda eða landaðs afla einstakra tegunda eins og það er ákvarðað í 21. gr. Gjald á hvert skip skal þó aldrei vera lægra en 5.000 kr.
    Þegar um er að ræða tegundir sem úthlutað er til einstakra skipa skal gjaldið miðast við úthlutaðar veiðiheimildir í kílógrömmum talið. Fari stjórn veiða fram með öðrum hætti en greinir í 1. málsl. skal gjaldið miðast við landaðan afla skips í viðkomandi tegund samkvæmt aflaupplýsingakerfi Fiskistofu á tólf mánaða tímabili sem lýkur einum mánuði fyrir upphaf fiskveiðiárs eða veiðitímabils. Miða skal við landaðan afla krókabáta í þeim tegundum sem þeir eru ekki bundnir aflatakmörkunum í en sæta ákvörðun um heildarafla.

    e. (23. gr.)
    Fiskistofa skal innheimta veiðigjald. Gjaldið fellur í gjalddaga með þremur jöfnum greiðslum ár hvert, 1. september, 1. janúar og 1. maí. Taki úthlutun veiðiheimilda gildi á tímabilinu 2. september til 31. ágúst fellur gjaldið þó í gjalddaga við útgáfu tilkynningar um úthlutaðar veiðiheimildir. Gjaldið er ekki afturkræft þótt veiðiheimildir séu ekki nýttar.
    Eindagi er 15 dögum eftir gjalddaga. Hafi greiðsla ekki borist innan mánaðar frá gjalddaga fellur veiðileyfi skips niður. Lögveð er í skipi fyrir gjaldinu. Ef gjald er ekki greitt á eindaga reiknast dráttarvextir af fjárhæð gjalds frá gjalddaga til greiðsludags í samræmi við reglur laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.
    Sé tekin ákvörðun um að lækka á tímabilinu 1. september til 31. ágúst áður leyfðan heildarafla einstakra tegunda skal Fiskistofa endurgreiða eiganda skips hluta gjaldsins sem nemur sömu grunnfjárhæð og innheimt var fyrir hvert þorskígildi sem aflaheimildir skips skerðast um.

12. gr.


    Ákvæði XXV til bráðabirgða í lögunum fellur brott.

13. gr.


    Við ákvæði XXVI til bráðabirgða í lögunum bætist ný málsgrein er orðast svo:
    Í lok fiskveiðiársins 2005/2006 skulu 1.500 þorskígildislestir bætast við þær aflaheimildir sem ráðherra hefur til ráðstöfunar skv. 9. gr. og skulu þær bætast við þær aflaheimildir sem ráðherra er heimilt, að höfðu samráði við Byggðastofnun, að ráðstafa til skipa sem gerð eru út frá byggðarlögum sem hafa lent í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi.

14. gr.


    Við lögin bætast tvö ný ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:

     a.      (I.)
             Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. 10. gr. skal heimilt að flytja allt krókaaflamark í ýsu, steinbít og ufsa frá fiskveiðiárinu 2001/2002 til fiskveiðiársins 2002/2003.

     b.      (II.)
             Á fiskveiðiárunum 2001/2002 til og með 2005/2006 hefur ráðherra til sérstakrar ráðstöfunar aflaheimildir sem nema 500 lestum af óslægðum þorski. Þessum aflaheimildum skal ráðstafað til tilrauna með áframeldi á þorski í samráði við Hafrannsóknastofnunina sem fylgist með tilrauninni og birtir niðurstöður um gang hennar. Ráðherra setur frekari reglur um skilyrði fyrir úthlutun aflaheimilda samkvæmt þessari grein.

15. gr.


    Ákvæði 1., 2., 3., 5., 6., 7., 8., 9., 12., 13. og 14. gr. öðlast þegar gildi.
    Ákvæði 4. og 10. gr. öðlast gildi 1. september 2002. Þó er ráðherra heimilt, að höfðu samráði við Byggðastofnun, á grundvelli 4. gr., að úthluta á fiskveiðiárinu 2001/2002 allt að 500 lestum af óslægðum botnfiski í þorskígildum talið til skipa sem gerð eru út frá byggðarlögum sem hafa lent í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi.
    Ákvæði 11. gr. öðlast gildi 1. september 2004.
    Þrátt fyrir ákvæði c-liðar 11. gr. skal miða við 6% í stað 9,5% árið 2004, 6,6% árið 2005, 7,3% árið 2006, 8,0% árið 2007, 8,7% árið 2008 og 9,5% árið 2009.