Ferill 504. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1396  —  504. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um varnir gegn landbroti.

Frá landbúnaðarnefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingibjörgu Ólöfu Vilhjálmsdóttur frá landbúnaðarráðuneyti, Svein Runólfsson og Ketil Sigurjónsson frá Landgræðslu ríkisins, Sigurgeir Þorgeirsson og Ara Teitsson frá Bændasamtökum Íslands, Þórð Skúlason og Jón Jónsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Gísla Viggósson frá Siglingastofnun Íslands og Trausta Baldursson frá Náttúruvernd ríkisins.
    Umsagnir um málið bárust nefndinni frá Akraneskaupstað, Akureyrarbæ, Dalvíkurbyggð, Djúpárhreppi, Djúpavogshreppi, Gnúpverjahreppi, Hafnasambandi sveitarfélaga, Húsavíkurkaupstað, Landgræðslu ríkisins, Landvernd, Landsvirkjun, Mosfellsbæ, Náttúruvernd ríkisins, Norður-Héraði, Rangárvallahreppi, Reykjavíkurborg, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Siglingastofnun Íslands, Skagafirði, Skútustaðahreppi, Sveitarfélaginu Hornafirði, Vegagerðinni, Veiðimálastofnun og Vestur-Eyjafjallahreppi.
    Með frumvarpinu er lagt til að sett verði ný heildarlög um varnir gegn landbroti en ágangur vatna getur valdið miklum gróðurskemmdum og landeyðingu. Gert er ráð fyrir því að Landgræðsla ríkisins fylgist með og stýri aðgerðum við heftingu landbrots. Með frumvarpinu er leitast við að einfalda ferli við undirbúning og aðgerðir til að hefta landbrot af völdum vatna og sett eru ítarleg ákvæði um skiptingu kostnaðar við slíkar framkvæmdir.
    Samkvæmt gildandi lögum er reglan sú að landeigendur sem hag hafa af varnaraðgerðum á landi sínu eða landsnytjum skuli greiða . hluta kostnaðar við fyrirhleðslur. Samkvæmt frumvarpinu er ekki lengur gert ráð fyrir slíkri skiptingu heldur að Landgræðslunni verði heimilt að styrkja framkvæmdir við fyrirhleðslur sem ætlað er að vernda mannvirki eða land í eigu einkaaðila. Nefndin bendir á að af kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytis með frumvarpinu megi ráða að kostnaður einstaklinga af fyrirhleðslum muni aukast verði frumvarpið að lögum. Með 8. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að kostnaðarhlutdeild einstaklinga falli niður en í stað þess geti þeir sótt um styrk til Landgræðslunnar til framkvæmda og getur sá styrkur numið heildarkostnaði við framkvæmdina. Nefndin leggur til að gerðar verði nokkrar breytingar á frumvarpinu og eru þessar helstar:
     1.      Lagt er til að skilgreiningu á hugtakinu landbrot í 2. tölul. 2. gr. verði breytt á þann veg að til landbrots teljist aðeins jarðvegsrof og gróðureyðing sem stafar af ágangi vatna en ekki sjávar enda taka lög nr. 28/1997, um sjóvarnir, til landbrots af völdum sjávar og hefur Siglingastofnun Íslands annast sjóvarnir hingað til.
     2.      Þá er lögð til breyting á 7. gr. á þann hátt að Vegagerðinni verði falið að annast umsjón með verkfræðilegum undirbúningi og framkvæmdum í samráði við Landgræðsluna. Af frumvarpstextanum eins og hann er úr garði gerður má ráða að Vegagerðinni sé ætlað að annast allar verklegar framkvæmdir. Nefndin bendir á að um framkvæmdir á vegum hins opinbera gilda m.a. lög um opinber innkaup, nr. 94/2001, sem mæla meðal annars fyrir um útboðsskyldu á tilteknum framkvæmdum.
     3.      Þá er lagt til að í 8. gr. verði kveðið skýrar á um að Landgræðsla ríkisins greiði kostnað við varnir gegn landbroti eftir því sem fjárlög gera ráð fyrir ár hvert og að kveðið verði skýrar á um hvaða aðilar falli undir 1. og 2. mgr. Með þeirri breytingu sem lögð er til munu ákvæði 1. og 2. mgr. ná til ríkis og sveitarfélaga og stofnana þeirra auk fyrirtækja sem eru að hálfu eða meiri hluta í eigu ríkis og/eða sveitarfélaga.
     4.      Að lokum er lagt til að heiti Landgræðslu ríkisins verði haldið óbreyttu eins og það er í gildandi lögum.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð er grein fyrir hér að framan og lagðar eru til í sérstöku þingskjali.
    Sigríður Jóhannesdóttir og Jónína Bjartmarz voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Guðjón A. Kristjánsson er áheyrnarfulltrúi í nefndinni og er hann samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 19. apríl 2002.Drífa Hjartardóttir,


form., frsm.


Guðjón Guðmundsson.


Karl V. Matthíasson.Einar Oddur Kristjánsson.


Þuríður Backman.


Sigríður Ingvarsdóttir.Kristinn H. Gunnarsson.