Ferill 658. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1400  —  658. mál.




Svar



hagstofuráðherra við fyrirspurn Einars Más Sigurðarsonar um skráningu í þjóðskrá.

     1.      Hvaða reglur gilda um skráningu nafna í þjóðskrá?
    Skráningar nafna í þjóðskrá byggjast á starfsreglum sem Hagstofa Íslands hefur mótað frá því að þjóðskráin varð til árið 1953. Reglurnar hafa tekið mið af því rúmi sem nafnasvæði er ætlað í skránni. Það svæði er nú 31 stafbil. Hjá þeim sem bera fullt nafn (eiginnafn, millinafn og kenninafn) sem er lengra en 31 stafbil þarf að stytta nafnritun í tölvukerfi þjóðskrár. Meginreglan er sú að fyrsta nafn er ekki stytt og sama gildir um kenninafn. Þeir sem bera fleira en eitt eiginnafn ráða hvert nafnanna verði óstytt og verður það þá fyrsta eiginnafnið í tölvukerfinu. Vitaskuld eru öll vottorð þjóðskrár gefin út með fullu nafni fólks, sem samkvæmt gildandi mannanafnalögum getur mest verið þrjú eiginnöfn eða tvö eiginnöfn og millinafn og tvö kenninöfn (ættarnafn og kenning til foreldris eða kenning til beggja foreldra).

     2.      Hvaða stoð hafa þessar reglur í lögum og reglugerðum?
    Reglur Hagstofunnar um skráningu nafna byggjast á almennum heimildum í lögum um þjóðskrá og almannaskráningu, nr. 54/1962, og lögum um mannanöfn, nr. 45/1996, þar sem fram kemur hlutverk Þjóðskrárinnar við skráningu nafna. Í 20. gr. mannanafnalaga er síðan heimild fyrir Hagstofuna til að setja reglur að höfðu samráði við mannanafnanefnd um breytta ritun nafna í þjóðskrá. Slíkar reglur hafa ekki verið settar enn.

     3.      Hve margir hafa ekki fengið fullt nafn skráð í þjóðskrá undanfarin fimm ár, sundurliðað eftir árum?
    Hagstofan hefur ekki haldið sérstaklega saman fjölda þeirra sem óskað hafa eftir að fullt nafn þeirra birtist í tölvukerfi þjóðskrár. Á árabilinu frá 1997 til 2001 hefur verið gerð 37.921 breyting á nafnritunum fólks í þjóðskrá. Mikil vinna fælist í því að kanna hverjir hafi haft full nöfn sem lengri voru en 31 stafbil og hafi því þurft að sæta styttingu þeirra. Hagstofan fullyrðir þó að fjöldi þessara mála er á bilinu 100–200. Í nær öllum tilvikum hefur náðst sátt við fólk um styttingu fulls nafns í tölvukerfinu.

     4.      Hve margir eru ekki skráðir fullu nafni í þjóðskrá?
    Sú þjóðskrá sem er sýnileg til almennra nota, hvort sem það er á pappír eða vélum, hefur aldrei borið með sér fullt nafn viðkomandi nema það hafi komist fyrir vegna stafbila eða viðkomandi hafi viljað sýna það fullum fetum. Margir kjósa af ýmsum ástæðum að birta ekki fullt nafn sitt og hefur svo verið áratugum saman. Það er því ógerningur að svara þessari spurningu frekar.

     5.      Hve margir eru nafnlausir í þjóðskrá vegna þess að þeir eða forráðamenn þeirra sætta sig ekki við gildandi reglur?

    Enginn sjálfráða maður er nafnlaus í þjóðskrá. Núgildandi mannanafnalög tóku gildi 1. janúar 1997. Frá þeim tíma til ársloka 2001 hafa fæðst 20.834 börn hér á landi. Þegar Hagstofunni berst fæðingartilkynning eru börn strax skráð í þjóðskrá sem stúlka eða drengur með kenningu til móður eða föður eftir því sem við á. Einungis í tveimur tilvikum á þessu tímabili hafa forsjármenn barna ekki sætt sig við styttingu eiginnafna. Þessi börn eru því í tölvukerfinu enn skráð sem drengur eða stúlka með kenningu til foreldris.

     6.      Telur ráðherra ástæðu til að breyta reglum um skráningu nafna í þjóðskrá?
    Þjóðskrá til almannanota hefur aldrei verið hugsuð sem skrá sem bæri með sér fullt nafn manna. Skráin hefur verið notuð til að tryggja með óyggjandi hætti aðgreiningu fólks. Hún hefur líka komið til móts við óskir fólks um tiltekna nafnritun innan ákveðinna marka eftir tækni og getu á hverjum tíma. Ef gera ætti tölvukerfi þjóðskrár þannig úr garði að fullt nafn allra yrði sýnilegt við almenn not skrárinnar hefði það óhemju kosnað í för með sér í samfélaginu. Öll tölvukerfi landsins þyrfti þá að laga til samræmis við þetta. Ekki væri þá ljóst hvernig taka ætti á málum þeirra sem neituðu að breyta kerfum sínum vegna kostnaðar. Þeir sem bera langt fullt nafn gætu þá orðið óþekkjanlegir í sumum tölvukerfum. Þá má minna á að stöðluð alþjóðleg gluggaumslög eru álíka löng og núverandi stafbil þjóðskrár enda var það haft til hliðsjónar þegar stafbilið var ákveðið á sínum tíma. Í nágrannalöndum okkar, þar sem eru þjóðskrár, eru alls staðar reglur um styttingu nafna manna til almennra nota. Ekki eru uppi áform um að breyta eðli þjóðskrárinnar frá því sem verið hefur en hins vegar kemur til álita að setja af stað vinnu við nýjar reglur á grundvelli 20. gr. laga um mannanöfn, nr. 45/1996.