Ferill 607. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1409  —  607. mál.
Breytingartillögurvið frv. til l. um breyt. á l. nr. 28/1998, um verslunaratvinnu, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.     1.      Við 8. gr. Efnismálsgrein a-liðar orðist svo:
             Þegar sérstaklega stendur á getur lögreglustjóri veitt aðilum leyfi til að halda lokað uppboð í umdæmi sínu í því skyni að styrkja viðurkennt líknarstarf og kirkjustarf, menntir, vísindi og menningu, m.a. íþróttastarfsemi. Þegar um lokað uppboð á listmunum er að ræða skal vekja sérstaka athygli á ákvæðum V. kafla laga þessara varðandi frjáls uppboð og reglugerð menntamálaráðherra um fylgiréttargjald. Jafnframt skal innheimtuaðila, Myndhöfundasjóði Íslands Myndstefi, tilkynnt um veitingu leyfisins.
     2.      Við 9. gr. 1. og 2. málsl. 2. efnismgr. orðist svo: Sá sem vanrækir tilkynningar til firmaskrár, hlutafélagaskrár, samvinnufélagaskrár eða skrár á grundvelli löggjafar um sjálfseignarstofnanir, eftir því sem við á, skal sæta sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. Brot gegn ákvæðum IV. kafla um sölu notaðra ökutækja eða gegn 7. mgr. 23. gr. um sendingu skilagreina um sölu listmuna skal sæta sektum eða fangelsi allt að einu ári.
     3.      Við frumvarpið bætist ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
             Fyrir útgáfu leyfis til sölu notaðra ökutækja skv. 1. mgr. 12. gr. laganna skal greiða 25.000 kr. gjald þar til kveðið verður á um gjaldið í lögum um aukatekjur ríkissjóðs. Gjaldið rennur í ríkissjóð.