Mótvægisaðgerðir vegna stóriðjuframkvæmda á Austurlandi

Þriðjudaginn 21. janúar 2003, kl. 13:43:56 (2817)

2003-01-21 13:43:56# 128. lþ. 61.97 fundur 356#B mótvægisaðgerðir vegna stóriðjuframkvæmda á Austurlandi# (umræður utan dagskrár), forsrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 128. lþ.

[13:43]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Við Íslendingar höfum góða reynslu af rekstri álvera hér á landi. Álverin í Straumsvík og Hvalfirði hafa styrkt íslenska þjóðarbúið svo um munar og átt ríkan þátt í því að bæta lífskjör þjóðarinnar allrar. Engin ástæða er til að ætla annað en að álver það sem nú stendur til að reisa í Reyðarfirði muni reynast efnahagslífi okkar jafn vel.

Talið er að árlegur hagvöxtur á framkvæmdatímanum muni verða 1,5% hærri en ella og jafnframt er áætlað að landsframleiðsla verði um 1% hærri þegar til lengri tíma er litið. Þetta er gríðarlega mikilvægt fyrir þjóðina sem heild. Aukinn hagvöxtur, sé rétt á málum haldið, er ávísun á aukinn kaupmátt almennings í bráð og lengd. Þar með heldur kaupmátturinn áfram að aukast eins og hann hefur gert undanfarin átta ár samfleytt. Meiri hagvöxtur styrkir ríkissjóð og gerir stjórnvöldum kleift að halda áfram að greiða niður skuldir þjóðarinnar, lækka skatta á fyrirtæki og almenning og reka öflugt velferðarkerfi. Við þessi almennu áhrif sem þjóðin mun öll njóta góðs af bætast jákvæð áhrif á byggð og byggðaþróun á Austurlandi. Hressileg viðbrögð Austfirðinga þegar fréttir bárust um ákvörðun Alcoa að hefja byggingu álversis sögðu allt um hversu miklu þessi framkvæmd skiptir fyrir fjórðunginn. Bjartsýni og framkvæmdahugur einkennir nú mannlífið á fjörðunum eystra og það blandast engum hugur um hversu mikilvæg Kárahnjúkavirkjun og álverið á Reyðarfirði er fyrir byggðaþróun í fjórðungnum.

[13:45]

Undanfarin missiri var ríkisstjórnin harðlega gagnrýnd af stjórnarandstöðunni í þingsölum vegna þenslu í þjóðarbúskapnum. Kallað var eftir aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að koma á hana böndum og voru margir býsna stóryrtir um meint aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar. Ríkisstjórninni tókst, í góðu samstarfi við aðila á vinnumarkaði, að koma böndum á þensluna og koma þannig í veg fyrir að allar þær hrakspár sem hver þuldi upp eftir öðrum gengju eftir.

Nú er svo komið að verðbólga er innan þeirra marka sem Seðlabanka er gert að halda henni innan. Sú spenna sem ríkti á vinnumarkaði er horfin og talið er að hagvöxtur hafi verið um hálft prósent á árinu sem var að líða. Við þessar aðstæður er mjög gleðilegt að þjóðin fái ráðist í þessar miklu framkvæmdir á Austfjörðum. Einmitt nú er gott svigrúm til þess, eftir að svo vel tókst til við að slá á þensluna á síðasta ári. Umfang framkvæmdanna gefur hins vegar tilefni til að vera á varðbergi gagnvart mögulegum þensluáhrifum þeirra vegna. En það er á hinn bóginn argasta öfugmælavísa að tala eins og þar sé á ferðinni einhver sérstakur voði eða vá sem kalli á skyndiákvarðanir í ríkisfjármálum eða varðandi stjórn peningamála á þessari stundu.

Meginþungi framkvæmdanna verður á árunum 2005 og 2006. Það er engin leið að sjá fyrir með öruggri vissu hvert ástand efnahagsmála verður á þeim tíma. Það liggur t.d. ekki fyrir í dag hver þorskafli verður á árinu 2005, hverjar aðstæður verða á helstu útflutningsmörkuðum okkar eða t.d. hvernig kjarasamningar hafa þá gengið fyrir sig. Allt eru þetta þættir sem miklu ráða um ganginn í efnahagslífinu.

Það er því engan veginn við hæfi nú að lýsa því til hvaða aðgerða eigi að grípa í ríkisfjármálum. Slíkar ákvarðanir hljóta að verða teknar við vinnslu fjárlaga á árinu 2004 og á næstu árum þar á eftir. Sama gildir um aðgerðir við stjórn peningamála. Þær hljóta að taka mið af efnahagsástandinu á hverjum tíma. Því er engan veginn hægt að fullyrða um að þróun vaxta verði okkur óhagstæð á þessum tíma. Í augnablikinu er reyndar mikilvægast að lækka vextina eins og kunnugt er.

Það er mikilvægt að hafa í huga að íslenska hagkerfið hefur eflst mjög á undanförnum áratug. Jafnframt er það mun sveigjanlegra en nokkru sinni fyrr. Þetta mátti gjörla sjá þegar viðskiptahallinn, sem ýmsir töldu óviðráðanlegan, hvarf eins og hendi væri veifað. Geta íslenska hagkerfisins til þess að taka á móti fjáfestingu á borð við þá sem ráðist verður í á Austurlandi er miklu meiri og hagfelldari en nokkru sinni fyrr. Jafnframt er rétt að líta til þess að hlutfallslegt umfang framkvæmdanna nú er síst meira en t.d. þegar ráðist var í framkvæmdir vegna álversins í Straumsvík og virkjanaframkvæmdir þeim tengdar.

Herra forseti. Aðalatriði þessa máls er að komi til þess að grípa þurfi til einhvers konar sérstakra aðhaldsaðgerða vegna Kárahnjúkavirkjunar og álversins þá eru slíkar aðgerðir einungis tímabundnar. En ávinningurinn af fjárfestingunni verður til langs tíma og hann verður verulegur. Allt hagkerfið styrkist og hagvöxtur verður meiri en ella. Útflutningur eykst, atvinna eykst, ríkissjóður styrkist og byggðin á Austfjörðum eflist til muna. Lífskjör þjóðarinnar batna því óumdeilanlega og það er ábyrgðarleysi að standa gegn þessari miklu atvinnuuppbyggingu sem nú er fram undan á Austfjörðum vegna þess eins að aðlaga þurfi efnahagsstarfsemina í landinu þessum framkvæmdum um örskamma hríð.