Vísinda- og tækniráð

Þriðjudaginn 21. janúar 2003, kl. 17:44:00 (2849)

2003-01-21 17:44:00# 128. lþ. 61.1 fundur 336. mál: #A Vísinda- og tækniráð# frv. 2/2003, 357. mál: #A opinber stuðningur við vísindarannsóknir# (heildarlög) frv. 3/2003, 345. mál: #A opinber stuðningur við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins# frv. 4/2003, menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 128. lþ.

[17:44]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich) (andsvar):

Herra forseti. Af því sem fram hefur komið hjá hv. síðasta ræðumanni, Ögmundi Jónassyni, þá tel ég að ég geti tekið alveg mark á því sem hann segir. Ég get vel tekið á mig gagnrýni fyrir það sem menntmrh. að hafa boðið formönnum nefndanna. Ég taldi hins vegar að það væri ekki beinlínis hlutverk framkvæmdarvaldsins að kosta þingmenn, það væri hlutverk þingsins.

Ég tel að mikil og víðtæk sátt ríki um þetta mál þó að ekki hafi allir fengið sínum athugasemdum framfylgt og þær viðurkenndar samanber það að Háskóli Íslands vill hafa rektor í ráðinu. Það hafa fjölmargar stofnanir viljað hafa sína menn í ráðinu. Það er hluti af liðinni tíð og ég hef enga samúð með slíkum málflutning satt best að segja. Mér finnst hann ekki tilheyra nútímanum.

Hártoganirnar um sparnaðinn eru bara beint teknar upp eftir þeim ummælum sem hér voru höfð. Vitnað var í að frv. ætti að leiða til sparnaðar, það er stjórnsýslulegur sparnaður og þess vegna leyfi ég mér að hafa þau þungu orð að kalla þetta hártoganir en ég sæki það ekki fast að sú nafngift verði látin blífa.

Hins vegar er það mikilvægasta sem mér finnst rétt að taka fram í lokin og ég hef kannski ekki vikið nægilega vel að í ræðu minni og vil reyna aðeins að bæta úr því. Það er að ekki er meiningin að draga úr frelsi vísindanna. Vísindamenn munu áfram hafa frelsi til að sinna hugðarefnum sínum. Hins vegar munu stjórnmálamennirnir fá tækifæri til að marka forgangsröðun ákveðinna vísindasviða þar sem þeir vilja að menn beiti sér sérstaklega og ég sé fyrir mér að uppbygging íslensks samfélags mun leiða til þess að ákveðin svið munu lenda í forgangsröðun og eru raunar þegar komin í forgangsröðun. Ég sé að ég mun ekki hafa tíma til þess að nefna þau öll en ég tel það mikilsvert að stjórnmálamenn hafi tækifæri til þess án þess að ganga á frelsi vísindanna að marka sér sérstök forgangssvið fyrir samfélagið í heild.