Lyfjalög og læknalög

Fimmtudaginn 23. janúar 2003, kl. 12:27:01 (2963)

2003-01-23 12:27:01# 128. lþ. 64.6 fundur 423. mál: #A lyfjalög og læknalög# (lyfjagagnagrunnar) frv., heilbrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 128. lþ.

[12:27]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lyfjalögum, nr. 93/1994, og læknalögum, nr. 53/1988. Frv. er komið til í kjölfar mikillar umræðu í þjóðfélaginu um meinta misnotkun mikilvirkra ávana- og fíknilyfja. Þá ákvað ég að skipa stýrihóp þann 8. júlí 2002 sem hefði það hlutverk að skilgreina og meta þarfir Lyfjastofnunar, landlæknisembættisins og Tryggingastofnunar ríkisins fyrir upplýsingar úr lyfjagagnagrunni. Frv. er byggt á skýrslu stýrihópsins og felur í sér breytingar á tveimur lagabálkum, lyfjalögum og læknalögum.

Megintilgangur frv. er sá að skjóta lagastoð undir starfrækslu Tryggingastofnunar ríkisins á tveimur lyfjagagnagrunnum, öðrum ópersónugreinanlegum og hinum persónugreinanlegum, og mæla fyrir um aðgangsheimildir Tryggingastofnunar, landlæknisembættisins og Lyfjastofnunar á þeim grunnum í nánar tilgreindum tilvikum. Þá er hlutverk landlæknisembættisins og Lyfjastofnunar til eftirlits á sviði ávana- og fíknilyfja gert skilvirkara. Nauðsynlegt er að lögfesta skýra heimild Tryggingastofnunar ríkisins til að koma á fót og reka lyfjagagnagrunna. Þá þarf samkvæmt lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga að geta þess hver sé ábyrgðaraðili grunnanna. Lögfesta þarf beinan aðgang landlæknis að persónugreinanlega gagnagrunninum í stað þess að hann þurfi að kalla eftir þeim í tölvutæku formi til viðkomandi lyfsala. Þá er nauðsynlegt að kveða skýrar á um eftirlit landlæknis og Lyfjastofnunar með ávana- og fíknilyfjum.

Það er mikilvægt fyrir landlækni, Lyfjastofnun og Tryggingastofnun að hafa aðgang að ópersónugreinanlegum upplýsingum til almenns eftirlits með lyfjum, lyfjanotkun og lyfjakostnaði til tölfræðirannsókna og vegna erlends samstarfs. Gagnagrunnur sem þessi er mikilvægur fyrir heilbrigðisyfirvöld til að fá góða yfirsýn yfir lyfjanotkun landsmanna, fylgjast með þróun og ákveða aðgerðir, þar með talið greiðsluþátttöku almannatrygginga, og meta árangur þeirra.

Að undanförnu hefur mikil umræða átt sér stað í þjóðfélaginu um meinta misnotkun mikilvirkra ávana- og fíknilyfja. Dæmi eru um að fíkniefnaneytendur gangi á milli lækna og fái ávísun á ávana- og fíknilyf til eigin neyslu eða jafnvel sölu, oft til að fjármagna neyslu. Nauðsynlegt er því að stemma stigu við slíkri óheillaþróun með auknu eftirliti. Þá geta þau tilvik m.a. komið upp að læknar ávísa sjálfum sér óhóflegu magni ávana- og fíknilyfja til eigin nota. Því er mikilvægt að landlæknir geti í undantekningartilvikum fengið beinan aðgang að persónugreinanlegum upplýsingum í rafrænu formi. Þannig getur hann greint vandamálið á mun markvissari og skjótari hátt en áður var hægt og gripið fyrr til viðeigandi aðgerða. Tilgangurinn er að herða eftirlit með ávana- og fíknilyfjum og koma í veg fyrir misnotkun þeirra. Þá er tilgangur ákvæða um aðgang Tryggingastofnunar ríkisins að persónugreinanlegum upplýsingum um sjúklinga í gagnagrunni að auka þjónustu við sjúkratryggða og einfalda vinnslu við endurgreiðslur samkvæmt réttindum þeirra, þó að því skilyrði uppfylltu að sjúklingur samþykki vinnsluna. Augljóst hagræði er fyrir sjúkratryggðan að hafa á einum stað upplýsingar um lyfjanotkun sína auk þess sem það getur auðveldað endurgreiðslur vegna lyfjakostnaðar.

Sá misskilningur virðist vera uppi að persónuupplýsingar og upplýsingar um einstaka sjúklinga séu starfsfólki viðkomandi stofnana aðgengilegar í persónugreinanlega lyfjagagnagrunninum. Til að taka af allan vafa skal tekið fram að gert er ráð fyrir að persónuupplýsingar séu dulkóðaðar í þessum gagnagrunni og engum aðgengilegar nema í einstökum tilvikum þegar rökstuddur grunur um misferli liggur fyrir. Í stað þess að skrá nöfn og kennitölur þeirra sjúklinga sem fá ávísað ávana- og fíknilyfjum hjá Lyfjastofnun eins og hingað til hefur verið gert verða persónueinkenni þeirra dulkóðuð og varðveitt þannig í persónugreinanlega lyfjagagnagrunninum. Rafrænt eftirlit mun gera landlækni viðvart í skilgreindum tilvikum þegar þörf er á að persónuupplýsingar séu skoðaðar. Því verður ekki unnið með persónuauðkennin nema í þeim tilvikum sem eru utan skilgreindra marka. Af þessu leiðir að persónuverndar verður betur gætt gagnvart sjúklingum og læknum en áður auk þess sem viðkvæm gögn fara um færri hendur.

Helstu nýmæli frv. felast í breyttu fyrirkomulagi eftirlits landlæknis og Lyfjastofnunar með ávana- og fíknilyfjum þar sem þessar stofnanir munu nýta sér þær upplýsingar sem eru til í lyfjagagnagrunni hjá Tryggingastofnun, þó þannig að persónuverndarsjónarmiða sé gætt.

Einnig er það nýmæli að landlæknisembættið og Tryggingastofnun munu hafa samvinnu um að vinna með markvissari hætti en áður úr ópersónugreinanlegum upplýsingum um lyfjanotkun og lyfjakostnað sem er að finna í lyfjagagnagrunninum í þeim tilgangi að auka almennt faglegt og fjárhagslegt eftirlit með lyfjaávísun.

Herra forseti. Í ræðu minni hef ég lauslega farið yfir aðdraganda og efnisatriði frv. til laga um breytingar á lyfjalögum og læknalögum. Eftir að frv. var lagt fram komu nokkrar athugasemdir frá Persónuvernd sem ég mun leggja inn til heilbr.- og trn. og bið nefndina að fara vel yfir. Ég tel að þar sé um athugasemdir og lagfæringar að ræða sem rétt sé að taka tillit til og það bréf verður lagt inn til nefndarinnar. Ég tel hins vegar mikilvægt að frv. þetta nái fram að ganga núna á þessu þingi og leyfi mér því, virðulegi forseti, að leggja til að málinu verði vísað til hv. heilbr.- og trn.