Lyfjalög og læknalög

Fimmtudaginn 23. janúar 2003, kl. 12:34:05 (2964)

2003-01-23 12:34:05# 128. lþ. 64.6 fundur 423. mál: #A lyfjalög og læknalög# (lyfjagagnagrunnar) frv., ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 128. lþ.

[12:34]

Ásta Möller:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breytingu á lyfjalögum og læknalögum. Hæstv. heilbrrh. hefur farið vel yfir tilgang frv. og meginatriði þess í framsöguræðu sinni. Þar kom m.a. fram að frv. er fyrst og fremst ætlað að skjóta lagastoð undir heimildir landlæknis, Lyfjastofnunar og Tryggingastofnunar ríkisins til þess að afla upplýsinga um lyfjaávísanir í þeim tilgangi að auka eftirlit með lyfjaávísunum lækna á ávana- og fíkniefnum og til að tryggja betur rétt sjúkratryggðra og einfalda vinnslu við endurgreiðslu samkvæmt réttindum þeirra.

Jafnframt er hægt að afla almennra upplýsinga um lyfjanotkun og lyfjakostnað hér á landi. Í þeim tilgangi eru tveir lyfjagagnagrunnar settir á laggirnar, annar persónugreinanlegur og hinn ópersónugreinanlegur. Upplýsinga úr persónugreinanlegum lyfjagagnagrunni er aflað af landlækni í sérstökum tilvikum þar sem grunur leikur á misnotkun á ávana- og fíkniefnum, m.a. í auðgunarskyni, og af Tryggingastofnun ríkisins til þess að tryggja rétt sjúklinga til endurgreiðslu lyfjakostnaðar. Þá eru tölfræðilegar upplýsingar sem fást úr ópersónulegum lyfjagrunni mikilvægar þessum eftirlitsstofnunum, m.a. til þess að bera saman við lyfjanotkun í öðrum löndum og til stefnumótunar á sviði lyfjamála. Þegar frv. verður að lögum, sem ég geri ráð fyrir, er þessum þremur eftirlitsstofnunum á sviði lyfjamála gefið öflugra tæki í hendur en þær hafa yfir að ráða í dag til þess að sinna hlutverki sínu.

Þessar stofnanir hafa í raun heimildir í dag til þess að afla slíkra upplýsinga en hafa hins vegar ekki heimild til þess að vinna þær og varðveita. Þegar frv. verður að lögum verður þeim gert kleift að nálgast slíkar upplýsingar með auðveldari og skjótari hætti en mögulegt er í dag. Jafnframt er þeim aðilum fækkað sem koma að öflun upplýsinga, t.d. um hugsanlega lyfjamisnotkun, en nefna má að heimild landlæknis til þess að afla slíkra upplýsinga í dag er í ákveðnum tilvikum þegar grunur leikur á að læknir eða einstaklingur er að afla sér lyfja í þeim tilgangi að misnota þau eða í auðgunarskyni.

Heimild landlæknis er takmörkuð við að kalla eftir tölvuskráðum upplýsingum frá apótekum þar sem margir aðilar koma að söfnun upplýsinga og setja má spurningarmerki við persónuvernd í því sambandi. Í rauninni er gerir þetta frv. ráð fyrir því að persónuvernd verði verulega aukin frá því sem nú er í vinnslu þessara upplýsinga.

Ekki leikur nokkur vafi á mikilvægi þess að setja þessa tvo gagnagrunna á laggirnar. Hins vegar er það ekkert launungarmál að við söfnun slíkra viðkvæmra upplýsinga á einn stað þarf að beita ýtrustu varkárni til þess að gæta persónuverndarsjónarmiða. Mér er kunnugt um að Persónuvernd varð höfð með í ráðum við samningu þessa frv. og því komu mér í raun viðbrögð stofnunarinnar nokkuð á óvart þegar frv. var kynnt í desember sl., en þar kom fram ákveðin gagnrýni á ýmsa þætti frv. sem snúa að persónuvernd.

Hæstv. heilbrrh. gerði í ræðu sinni grein fyrir því að athugasemdir Persónuverndar verði lagðar inn til hv. heilbr.- og trn. til skoðunar og við munum gera það. Hins vegar langar mig í framhjáhlaupi, svona til þess að átta mig á þessum viðbrögðum Persónuverndar, að varpa fyrirspurn til ráðherra um að hve miklu leyti Persónuvernd kom að samningu þessa frv. og hvernig hann skilur þessi viðbrögð Persónuverndar, hvort þeir hafa breytt um skoðun eða hvernig það er.

Í heildina tel ég að um gott og nauðsynlegt frv. sé að ræða og munum við taka það til ítarlegrar skoðunar í hv. heilbr.- og trn. En í lokin eru það tvö atriði sem ég hef áhuga á að spyrja hæstv. heilbrrh. um til viðbótar því sem ég varpaði fram rétt áðan. Í fyrsta lagi segir eftirfarandi í athugasemdum með frv., með leyfi forseta:

,,Til þess að unnt sé að sinna þessu eftirliti á fullnægjandi hátt verður að gera ráð fyrir viðbótarstarfsmanni við landlæknisembættið.``

Hins vegar segir í athugasemdum fjárlagaskrifstofu fjmrn. með frv., með leyfi forseta:

,,Hvorki er gert ráð fyrir viðbótarkostnaði hjá Lyfjastofnun né landlæknisembætti vegna frumvarps þessa þrátt fyrir áform sem fram koma í athugsemdum frumvarpsins að auka eftirlit með notkun ávana- og fíknilyfja.``

Mig langar til þess að heyra frekar frá hæstv. heilbrrh. um þetta misræmi sem kemur fram annars vegar í greinargerð og hins vegar í umsögn fjárlagaskrifstofunnar.

Mig langaði að heyra betur af öðru atriði og vísa þá í frétt Morgunblaðsins frá 15. janúar sl. Þar er frásögn frá læknadögum þar sem m.a. var rætt um svokallað læknadóp og þar kemur fram í eftirfarandi frásögn, með leyfi forseta:

,,Nánari samvinna heilbrigðisstarfsfólks, þar með talinna lyfjafræðinga, og rafrænn gagnagrunnur með upplýsingum um lyfjanotkun sjúklinga og sjúkrasögu þeirra eru einar helstu forsendur þess að hægt verði að draga úr misnotkun lyfseðilsskyldra lyfja hér á landi. Þetta kom m.a fram á málþingi um lyfjaávísanir og eftirlit með þeim á læknadögum sem nú standa yfir.

Á þinginu kom fram að í kjölfar mikillar umræðu um svokallað ,,læknadóp`` sl. vor hafi ýmsar tillögur til úrbóta komið fram. Nú liggi t.d. fyrir Alþingi tillögur um breytingar á lyfjalögum, læknalögum og almannatryggingalögum í þessum tilgangi. Á þinginu komu einnig fram þau sjónarmið að hert eftirlit eitt og sér væri ekki nóg, læknar þyrftu að geta með einföldum hætti séð hvort viðkomandi sjúklingur hafi fengið ávísun á lyf hjá öðrum lækni, hversu mikið og hversu oft, í þeim tilgangi að koma auga á hugsanlega misnotkun.

Enn sem komið er er enginn slíkur persónugreinanlegur gagnagrunnur til en með breytingu á lækna- og lyfjalögum gæti hann orðið að veruleika að sögn Hauks Valdimarssonar, aðstoðarlandlæknis. Hann segir að gerð slíks gagnagrunns gæti tekið tvö ár.``

Það er ljóst miðað við það sem lagt er til hér, upplýsingar sem lagt er til að dregnar verði úr lyfjagagnagrunninum sem við erum að fjalla um hér í dag og rætt hefur verið á læknadögum, að ekki er heimild fyrir slíkri vinnslu samkvæmt frv. Því spyr ég hæstv. heilbrrh. hvort það komi til greina frá hans hendi eða hvert álit hans er á því að víkka út lyfjagagnagrunnana í þá veru sem aðstoðarlandlæknir ræðir um. Í því sambandi langar mig til þess að vísa í umræður á fundi heilbr.- og trn. nú í morgun. Þar var fjallað um lyfjamál. Þar voru m.a. fulltrúar frá heilbrrn. og frá Tryggingastofnun ríkisins. Þar kom fram að þeir teldu að þeir gagnagrunnar sem við erum að fjalla um í þessu frv. mundu nýtast í þessum tilgangi. En þá þurfa náttúrlega að vera heimildir fyrir því. Í því sambandi bentum við m.a. á að slíkir gagnagrunnar þar sem læknar hafa aðgang að upplýsingum um hvaða lyfjaávísanir hafa verið gefnar út á þeirra sjúklinga --- ég geri ráð fyrir að þá sé um heimilislækna að ræða sérstaklega --- að slíkir gagnagrunnar hafi þegar verið búnir til í Noregi og annaðhvort Svíþjóð eða Danmörku. Mig brestur minni hvort landið var nefnt. Alla vega er svo á tveim Norðurlöndum. Það er alveg ljóst eins og kemur fram í frétt Morgunblaðsins að slíkar upplýsingar eru mjög mikilvægar einmitt í þeim tilgangi að tryggja það að fólk fái afgreidd rétt lyf og að ekki sé um misnotkun að ræða. Það er oft svo að fólk man ekki eða hefur ekki upplýsingar með sér er það fer til læknis hvaða lyfjum það er á nema það gangi með lyfjakort sem fólk hefur verið að reyna að nota í gegnum árin. En oft vill brenna við að það er ekki haft með í heimsókn til læknis.

Þetta voru þær spurningar sem mig langaði til að varpa fram til heilbrrh. út af þessu frv.