Úthlutun á byggðakvóta

Fimmtudaginn 23. janúar 2003, kl. 13:58:07 (2978)

2003-01-23 13:58:07# 128. lþ. 64.94 fundur 367#B úthlutun á byggðakvóta# (umræður utan dagskrár), LB
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 128. lþ.

[13:58]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Karli Matthíassyni fyrir að taka þetta mjög svo þarfa mál hér til umræðu.

Það sem mér finnst að umræðan hafi dregið fram í dag er sú staðreynd að fiskveiðistjórnarkerfið er smám saman að grafa undan flestum sjávarbyggðum í landinu, ella væru menn ekki með uppi á borðinu jafnsértækar aðgerðir og við ræðum nú. Þetta er bara veruleiki og þetta hefur verið staðfest. Og ég heyrði á hæstv. sjútvrh. áðan að hann viðurkenndi að þetta er markmiðið.

Vitaskuld breyta 2.000 tonn engu til eða frá í þessum efnum. En það sem mér finnst að við verðum að hugleiða mjög vandlega er sú staðreynd að frá því að kvótakerfið var tekið upp höfum við aldrei veitt minna. Ef við skoðum nokkra áratugi aftur í tímann höfum við aldrei veitt minna en á meðan það hefur verið við lýði. Þess vegna hljótum við að spyrja okkur mjög vandlega í ljósi þess árangurs, eða árangursleysis, sem kvótakerfið hefur fært okkur hvort það sé verjandi að grafa undan byggðunum með þessum hætti fyrir nánast engan árangur, ef svo má að orði komast.

Úthlutanir á nokkrum tonnum til eða frá breyta að sjálfsögðu engu. Það verða ekki til nein sérstök stór tækifæri í þessum byggðum við það að 3, 4, 5 eða upp í 40 tonn komi þangað tímabundið. Það er líkt og var í einum róðri á góðum vertíðarbát fyrir nokkrum árum. Útlutunin á þessum byggðakvóta, virðulegi forseti, staðfestir einfaldlega fyrir okkur að við erum ekki á réttri leið. Við þurfum að taka þessa hluti til endurskoðunar, og einkaeignarréttur sem ég veit að hæstv. sjútvrh. telur sig standa fyrir á einfaldlega ekki við á þessu sviði.