Fjárhagslegur aðskilnaður útgerðar og fiskvinnslu

Fimmtudaginn 23. janúar 2003, kl. 15:40:48 (2996)

2003-01-23 15:40:48# 128. lþ. 64.7 fundur 17. mál: #A fjárhagslegur aðskilnaður útgerðar og fiskvinnslu# þál., KPál
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 128. lþ.

[15:40]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Það er búið að ræða oft um tillögur sem lúta að því að aðskilja veiðar og vinnslu og er ekkert nema gott um það að segja að menn vilji reyna að auka fisk á mörkuðum, efla vinnsluna með því og koma fleirum að þessum potti en þar hafa verið. Þetta hefur samt ávallt strandað á því að vinnslan og útgerðin eru á sömu hendi, fiskmarkaðirnir sjálfir eru nánast á sömu hendi þannig að það eru í rauninni alls staðar sömu mennirnir sem eru að fjalla um þessi mál, sama hvort það er á mörkuðunum, í vinnslunni eða hjá útgerðinni.

Ég man eftir því þegar við vorum að velta fyrir okkur kvótasetningu 1983 á fiskiþingi. Hv. flm. Guðjón A. Kristjánsson var á því sama fiskiþingi, ef ég man rétt. Þá voru útgerðir í vandræðum, þjóðfélagið var í vandræðum eftir mjög mikla sókn í stofnana og við sáum fram á hrun með skrapdagakerfinu sem þá var í gildi. Þess vegna féllust menn á að reyna kvótakerfið. Ég hef persónulega stutt það síðan og var einn af þeim sem taldi það leið sem gæti dugað.

Það hefur oft komið fram í þessum ræðustóli að kerfið, eins og það var hugsað þá, er orðið allt annað kerfi í dag. Þá var fyrst og fremst verið að hugsa um eina tegund, þorskinn, en í dag, eins og hv. flm. segir, er búið að setja nánast allt í kvóta nema kannski tindabikkju, háf og einhverjar aukategundir. Að mínu áliti hefur verið gengið miklu lengra í kvótasetningu en nauðsynlegt er ef við erum eingöngu að hugsa um verndun fiskstofnanna. Mér finnst alveg óþarfi að setja löngu, keilu, skötusel, þennan meðafla sem kemur alltaf hvort sem er, í einhvern kvóta. Það er alltaf verið að afskræma þetta kerfi sem hugsað var til þess að reyna að halda utan um veiðarnar, það er verið að afskræma það meira og meira og gera það harðneskjulegra en nokkrum manni gat dottið í hug að það gæti orðið. Það hefur leitt til þess að raddir um breytingar hafa orðið háværar, og þær hafa komið fram hér í þinginu, raddir um breytingar eins og um að taka þetta af í áföngum með einhvers konar úreldingu og að þjóðin mundi kaupa þetta til baka þannig að útgerðarmenn mundu ekki skaðast. Ég tel að breytingar síðustu ára hafi gert þetta þannig að menn standa frammi fyrir því að þjóðin borgi allan kvótann til baka. Ástæðan fyrir því að þetta er komið á þennan veg er veðsetningin sem heimiluð var. Þá var útgerðarmönnum gefin heimild til að veðsetja kvótann. Þar með var hann geirnegldur.

Þannig hefur kerfið undið upp á sig og nú er svo komið að útgerðarmenn um landið verða sífellt færri og færri. Þeir eru líka að verða stærri og þeirra yfirráð yfir byggðunum eru orðin slík að enginn þorir orðið að hreyfa legg eða lið til að andmæla einu eða neinu því að þá er voðinn vís fyrir viðkomandi. Ég verð að segja eins og er að mér finnst þessi þróun á allt annan veg en ég hafði séð hana fyrir mér og á allt annan veg en ég hygg að þeir hugsjónamenn, sem stofnuðu og voru frumkvöðlar að þessum stóru fyrirtækjum sem mörg hver eru enn til, hafi séð hlutina fyrir sér.

[15:45]

Mér finnst því dálítið erfitt að horfa upp á það núna að útgerðarmenn eru enn að biðja um að hækka hið svokallaða kvótaþak, sem í dag er 12%. Þeir vilja að það fari jafnvel upp í 20%. Þar með gætu orðið fimm útgerðarmenn á landinu eftir nokkur ár sem sætu uppi með allan kvótann, alla vinnsluna og allt sjávarútvegskerfið. Ég sé það í blöðum í dag að útgerðarmenn kvarta sáran yfir því að gengi krónunnar sé orðið allt of hátt og í raun, eftir því sem útgerðarmenn segja, sé verið að mergsjúga útgerðarmenn og fiskvinnslurnar þannig að enginn grundvöllur sé fyrir rekstrinum.

Þá er það strax komið upp í umræðunni að fiskvinnslan gæti vel hugsað sér að færa vinnsluna til annarra landa, að færa vinnsluna úr landi. Ég bara spyr: Hvað er hægt að ganga langt í þessu? Hve lengi á að hóta mönnum? Gæti það orðið á borðinu hér að öll fiskvinnsla landsmanna verði flutt úr landi vegna þess að menn sætti sig ekki við gengisþróun í landinu? Þá er nú valdið orðið ansi mikið í höndum þessara manna geti þeir neytt menn til hlýðni með því að hóta að flytja alla vinnsluna úr landi. Ég vona sannarlega að það komi aldrei til.

Aftur á móti varð ég var við það í fyrra þegar ég flutti tillögu um að skylda fullvinnsluskip til að koma með allan afla að landi, að hótanir og yfirgangur útgerðamanna í minn garð og annarra út af því máli var með ólíkindum. Mér fundust þær hótanir ekki sæmandi þeim útgerðarmönnum sem tóku þátt í þeirri umræðu og þeim skrifum sem fóru fram.

Menn hafa reynt að leita leiða til þess að auka verðmæti sjávarfangs. Þessi tillaga gengur út á það. Okkar tilgangur með þeirri tillögu sem þá var til umræðu var sá sami. Í hafið er hent milljörðum vegna þess að menn hirða ekki hausana, hryggina og aukaafla. Þar fyrir utan er nýtingarprósentan hér miklu hærri þannig að þar munar kannski 10 þúsund tonnum sem útgerðarmenn fullvinnsluskipa fá gefins, miðað við þá nýtingarstuðla sem í gildi eru í Noregi. Ég vil vara við þessari þróun og vona virkilega að tekin verði umræða um það hér í þinginu.