Jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Fimmtudaginn 23. janúar 2003, kl. 17:46:12 (3015)

2003-01-23 17:46:12# 128. lþ. 64.12 fundur 50. mál: #A jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla# (úrskurðir kærunefndar) frv., Flm. JóhS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 128. lþ.

[17:46]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, sem ég flyt ásamt hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur.

Markmið þessa frv. er að styrkja framkvæmd jafnréttislaganna en með þessu frv. leggjum við til að úrskurðir kærunefndar jafnréttismála verði bindandi gagnvart málsaðilum. Þessi breyting gæfi kærunefndinni og niðurstöðu hennar mun meira vægi en nú er og færði framkvæmd þessara mála nær því sem tíðkast annars staðar á Norðurlöndunum.

Tildrög þess að frv. er lagt fram eru þau að eftirlitsnefnd EFTA sem fjallar um réttindi kvenna gagnrýndi í skýrslu sinni um Ísland á fyrri hluta síðasta árs að niðurstöður kærunefndar jafnréttismála skyldu ekki vera bindandi. Nefndin taldi þetta mjög slæmt, sérstaklega þar sem stjórnvöld ættu hlut að máli. Þessi eftirlitsnefnd starfar á vegum Mannréttindastofnunar Sameinuðu þjóðanna og fjallar sérstaklega um það hvernig aðildarríki hafa fylgt eftir ákvæðum sem m.a. miða að því að auka rétt kvenna og tryggja jafnrétti kynjanna. Í nýrri skýrslu nefndarinnar um Ísland er fjallað um stöðuna hér á landi og þau atriði sem hún telur gagnrýnisverð. Fram kemur að fulltrúar Íslands hafi lagt fram upplýsingar og gögn varðandi það hvernig tekist hafi að fylgja eftir alþjóðasamningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi kvenna. Þau gögn náðu fram til loka árs 1997.

Herra forseti. Eitt og annað hafði þessi eftirlitsnefnd að athuga við mál sem fjalla um réttindi kvenna, m.a. gerði hún athugasemdir við tvö mál sem snerta jafnrétti kynjanna hér á landi. Hún taldi til að mynda óþolandi að á Íslandi skuli vera við lýði jafnmikill kynbundinn launamunur og raun ber vitni og hún taldi líka að dómar í mörgum kynferðisafbrotamálum væru óeðlilega vægir. Þá gagnrýndi nefnd Sameinuðu þjóðanna að niðurstöður kærunefndar jafnréttismála væru ekki bindandi, m.a. þegar stjórnvöld ættu hlut að máli, og gerði nefndin að tillögu sinni að álitið yrði gert bindandi. Það er þessum athugasemdum eftirlitsnefndar Sameinuðu þjóðanna sem ég og hv. þm. Rannveig Guðmunsdóttir erum að fylgja eftir með þessu frv. sem hér er lagt fram vegna þess að ekki höfum við orðið varar við það hér í þingsölum að ríkisstjórnin fylgi eftir þessu gagnrýnisatriði frá eftirlitsnefnd Sameinuðu þjóðanna. Hefði nú verið æskilegt, herra forseti, að hæstv. félmrh. hefði verið viðstaddur þessa umræðu. Það er auðvitað brýnt að hann láti í ljósi skoðun sína á því hvernig hann ætlar að framfylgja þessari stóru athugasemd sem fram kemur hjá eftirlitsnefnd Sameinuðu þjóðanna.

Þó að við leggjum til að úrskurðir kærunefndar jafnréttismála séu bindandi gagnvart málsaðilum gerum við ráð fyrir því í frv. að kærunefndin geti ákveðið að fresta réttaráhrifum úrskurðar síns að kröfu annars hvors málsaðila að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Ég held að það sé mikilvægt að hafa þetta inni eins og segir í frumvarpsgreininni sjálfri um þetta atriði: ,,Að kröfu málsaðila getur nefndin ákveðið að fresta réttaráhrifum úrskurðar telji hún ástæðu til þess. Krafa þess efnis skal gerð eigi síðar en 10 dögum frá birtingu úrskurðar. Skal frestun á réttaráhrifum úrskurðar vera bundin því skilyrði að málsaðili beri málið undir dómstóla innan 30 daga frá frestunarúrskurði og óski þá eftir að það hljóti flýtimeðferð. Frestun réttaráhrifa úrskurðar fellur úr gildi ef mál er ekki höfðað innan 30 daga. Sé mál höfðað vegna úrskurðar nefndarinnar er henni heimilt að fresta afgreiðslu sambærilegra mála, sem eru til meðferðar hjá henni, þar til dómur gengur í málinu.`` Með öðrum orðum, úrskurður kærunefndar jafnréttismála verður, ef frv. þetta verður að lögum, bindandi. Dómstólar geta þó breytt því ef málsaðilar óska eftir að fara með málið fyrir þá.

Verkefni kærunefndar jafnréttismála er að taka kærumál til meðferðar og gefa skriflegt rökstutt álit um hvort ákvæði laganna hafi verið brotin. Niðurstöður kærunefndar sæta ekki kæru til æðra stjórnvalds. Þegar um er að ræða mál sem ætla má að geti haft stefnumarkandi áhrif á vinnumarkaðinn í heild skal kærunefnd leita umsagnar hjá heildarsamtökum launafólks og viðsemjendum þeirra áður en álit er gefið út.

Samkvæmt upplýsingum frá kærunefnd jafnréttismála bárust nefndinni 103 erindi á árunum 1991--2001. Í 55 tilvika taldi nefndin að ákvæði laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla hefðu verið brotin en langflest þeirra lutu að stöðuveitingum. Fjöldi þeirra laut einnig að launajafnrétti kynjanna. Það eru sem sagt sérstaklega mál sem snerta stöðuveitingar eða launajafnrétti kynjanna sem fara fyrir kærunefndina.

Herra forseti. Það mætti út af fyrir sig hafa mjög langt mál um bæði þessi atriði sem ég nefndi, ekki síst launajafnrétti kynjanna. Er það alveg ótrúlegt hve illa gengur að ná fram jafnrétti í launamálum kynjanna. Tel ég, herra forseti, fyllilega ástæðu til að skoða ákvæði jafnréttislaga sem heimila í raun jákvæða mismunun og að það sé skoðað, m.a. af hálfu verkalýðshreyfingarinnar, að beita ákvæðinu í 1. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla sem fjallar um það að markmið laganna sé að bæta sérstaklega stöðu kvenna og auka möguleika þeirra í samfélaginu. Ég tel að þetta ákvæði bjóði upp á að hægt sé að grípa til ákveðinna aðgerðaáætlana til einhvers tíma sem miði að því að markvisst verði unnið að því að ná fram launajafnrétti.

Ég tel ástæðu til, herra forseti, að nefna í þessu sambandi, þegar við erum að tala um kærunefndina og launajafnrétti kynjanna, eitt ákveðið mál sem kom fyrir kærunefndina og birtist hér fyrst, í þingsölum. Þar var um að ræða að í fyrirspurn sem ég lagði fyrr hæstv. viðskrh. kom fram að mjög afgerandi munur væri á bifreiðastyrkjum til kynjanna í bankakerfinu sem bryti í bága við jafnréttislög. Þetta kom mjög skýrt fram í svari ráðherrans og þess vegna ákvað þingflokkur jafnaðarmanna þá --- þetta var fyrir sennilega fjórum árum --- að beina því til Jafnréttisráðs eða kærunefndar jafnréttismála að skoðað yrði sérstaklega hvort þarna væri um brot á jafnréttislögum að ræða. Ég man eftir því að Samband íslenskra bankamanna fór líka þess á leit við Jafnréttisráð í kölfar þessarar niðurstöðu að kannað yrði hvort um væri að ræða brot á jafnréttislögum. Niðurstaða kærunefndar sem tók þetta mál til athugunar í kjölfar svars til mín frá ráðherra var sú að um brot á jafnréttislögum væri að ræða og að kerfi fastra bifreiðastyrkja væri notað til þess að hygla körlum á kostnað kvenna í sambærilegum stöðum, sérstaklega innan Landsbankans og Búnaðarbankans.

Það er athyglisvert, einmitt þegar við erum að fjalla um nauðsyn þess að gera álit kærunefndar bindandi, að báðir bankarnr neituðu að ákvæði jafnréttislaga væru brotin í þessu efni og þótt málinu hafi verið fylgt fast eftir, m.a. af Jafnréttisstofu, er ekkert eða lítið vitað um það hvort nokkur leiðrétting hafi yfirleitt fengist á þessum mismun í bifreiðastyrkjum í bankakerfinu. Raunar gildir það sama í mörgum álitum sem kærunefnd hefur afgreitt frá sér. Kannski sýnir þetta dæmi mjög ljóslega, herra forseti, hve nauðsynlegt er að binda álit kærunefndar jafnréttismála, ekki síst af því að það er hlutverk stjórnvalda og það er hlutverk okkar hér á þinginu að tryggja að framkvæmd jafnréttislaga sé virt. Þetta er að mínu viti mjög áhrifarík leið til þess. Í því tilviki sem ég nefndi komust bankarnir upp með að neita því, þrátt fyrir álit kærunefndar jafnréttismála, að þeir væru að brjóta jafnréttislög. Ég geri því ráð fyrir því að þrátt fyrir að þessi niðurstaða hafi legið skýrt fyrir sé enn um að ræða mismunun innan bankakerfisins á bifreiðastyrkjum. Nú er það svo, herra forseti, að þegar búið er að hlutafélagavæða, ég tala nú ekki um selja þessa banka, hafa Alþingi og stjórnvöld lítinn aðgang að upplýsingum um hvort áliti kærunefndar hafi verið fylgt eftir.

Ég þarf út af fyrir sig ekki að hafa mikið lengra mál um þetta. Þetta er mjög skýrt. Samkvæmt 3. gr. jafnréttislaga getur Jafnréttisstofa höfðað mál til viðurkenningar á rétti kærenda á grundvelli álitsgerða kærunefndar jafnréttismála þegar sérstaklega stendur á og ætla má að úrskurður dómstóla geti haft víðtæk áhrif í átt til jafnréttis eða ef hagsmunir kærenda eru metnir þess eðlis að mikilvægt þyki að fá úrlausn dómstóla.

Reynslan sýnir að ákvæðið um kærunefnd virkar ekki eins og til var ætlast þegar veruleg undanbrögð eru á því að álit kærunefndar séu virt. Það er einmitt meginmarkmið þessa frv. að bæta úr þeirri brotalöm. Stjórnvöld hafa þær skyldur að sjá til þess að jafnréttislögum sé framfylgt en þau kveða á um að jafnréttissjónarmiða sé gætt á öllum sviðum samfélagsins og unnið sé að jöfnum áhrifum kvenna og karla við ákvarðanatöku. Jafnréttislögin eru vissulega mjög mikilvægt tæki í baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna á öllum sviðum samfélagsins, ekki síst í launamálum, en það er alveg ljóst að það er framkvæmdin fyrst og fremst sem skiptir máli. Ég hygg að fá lög, herra forseti, séu jafnmikið brotin hér á landi og jafnréttislögin. Því miður sýna mörg dæmi okkur að það er ekki síður hið opinbera, þ.e. ríkisvaldið, sem þar á sök að máli og gengur ekki á undan með góðu fordæmi um að virða jafnréttislögin.

Norðurlöndin hafa víða vakið athygli fyrir framsýni og baráttu fyrir jafnrétti kynjanna og öll kappkostað að ganga eins langt í löggjöf og hægt er alla jafna til að tryggja jafna stöðu karla og kvenna. Með samþykkt þessa frv., herra forseti, er verið að færa framkvæmd þessa ákvæðis jafnréttislaganna nær því sem er annars staðar á Norðurlöndunum.

Herra forseti. Ég ætla að ljúka máli mínu svo að fleiri komist að á þeim tíma sem við höfum á þessum degi. Ég á enn þá 20 mínútur eftir af mínum tíma og hefði gjarnan viljað að fleiri kæmust að til þess að ræða þetta mál. Þess vegna ætla ég að láta hér við sitja en óska eftir því að þegar þessari umræðu lýkur verði málinu vísað til hv. félmn. og 2. umr.