Raforkulög

Fimmtudaginn 30. janúar 2003, kl. 15:52:51 (3254)

2003-01-30 15:52:51# 128. lþ. 69.1 fundur 462. mál: #A raforkulög# (heildarlög, EES-reglur) frv., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 128. lþ.

[15:52]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Ég ætla aðeins að bæta inn í umræðuna. Ég tek undir með hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni varðandi áhyggjur hans af neytandanum sem slíkum og beini nú máli mínu til hæstv. iðnrh. út frá neytandanum. Hingað kom í sumar stór sendinefnd evrópskra þingmanna sem við þingmenn áttum kost á að ræða við um margvísleg mál. Þar voru orkumálin mikið rædd og hvernig þeir hefðu nálgast þær breytingar sem þeir væru að gera á orkumálunum. Þar komu m.a. fram þær upplýsingar að þessar breytingar hentuðu best Mið-Evrópu vegna umframgetu í raforkukerfinu þar. Eins og þeir upplýstu og kemur fram í öðrum gögnum var hún um 20%. Eins og fram kom hjá hæstv. ráðherra er ekki óeðlilegt að í Mið-Evrópu hafi framkallast á svæðum lækkun á raforkuverði til heimila upp á 5%, og 16% til iðnaðar eins og kom fram í máli hennar. En eins og dæmin sanna er allt annað upp á teningnum varðandi jaðarsvæði og strjálbýlli svæði.

Þessir þingmenn voru mjög uppteknir af orkugeiranum og upplýstu það t.d. að orkufyrirtæki sem fengju dreifingarrétt í löndum eins og Austurríki væru jafnvel skuldbundin til þess að afhenda rafmagn á strjálbýlustu svæðum og gerðu það í sumum tilfellum með dísli þar sem viðkomandi, bóndi þá væntanlega, væri látinn keyra dísilstöð til eigin nota, ekki ósvipað og við gerum í gegnum Rarik á Grímsstöðum á Fjöllum. Kannski má segja að líkt gildi um Grímsey.

Ég er með þessu að segja, virðulegi forseti, að það er nauðsynlegt fyrir okkur og það er krafa um það af okkar hálfu hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði að það sé algjörlega skýrt hver réttur neytandans sé í breyttu umhverfi. Það á í raun og veru að vera efst á blaði og vekur þess vegna mikil vonbrigði að sá hluti málsins skuli eiga að fara í nefnd samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnarinnar og hæstv. iðnrh. Þetta hlýtur að vera meginmál í öllu dæminu. Ég held líka að við hefðum átt að nálgast þessi mál, eins og raunar kom fram í máli hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar ef ég skildi hann rétt, út frá okkar stöðu miklu meira og athuga gjörbreytingu á raforkukerfinu út frá þeirri stöðu sem við höfum sem einangrað kerfi norður í Atlantshafi, sem ekkert hefur með rafmagnskerfi Evrópu að gera fyrr en kannski eftir einhver ár eða áratugi að það skapaðist möguleiki á því að leggja kapal og flytja rafmagn til Evrópu. Á sínum tíma sagði einhver í sambandi við flutning á rafmagni frá Íslandi til Evrópu og lagningu kapals að það yrði þá að vera tryggt að kapallinn gæti flutt rafmagn í báðar áttir. Sú staða væri oft og tíðum uppi að rafmagnið væri ódýrara hinum megin við pollinn en hér.

Þetta eru því mál sem ég vildi setja inn í umræðuna. Ég tel að við hefðum átt að skoða möguleikana á því að koma hér upp héraðsveitum, ekki á ósvipuðum grunni og Orkubú Vestfjarða, landshlutaveitum. Það hefði mátt nota Rafmagnsveitur ríkisins inn í það púkk og e.t.v. hlutdeildina í Landsvirkjun, en að gera þetta á okkar eigin forsendum með okkar eigin sýn og með það að markmiði að þjóna landsmönnum öllum og iðnaðinum í landinu betur.

Það hlýtur líka að vera áhyggjuefni að allt of stór hluti af okkar iðnaði er knúinn með innfluttu afli, svartolíu eða jafnvel gasi. Það hafa engir tilburðir verið í þá átt að gera mönnum kleift að nota innlenda orku sem auðvitað á að vera okkur keppikefli. Það er kvartað sáran undan því alls staðar úti um landsbyggðina, hvort sem menn reka rækjuverksmiðjur eða fiskmjölsverksmiðjur, að raforkuverðið sé alveg óheyrilega hátt, fari frá 7 og upp í 9 kr. og jafnvel hærra.

Þetta vildi ég setja inn í umræðuna. Ég held að staða neytenda og staða okkar innlendu framleiðslu sé ekki í hávegum höfð þegar verið er að gera þær breytingar sem hér eru á borðinu. Henni þarf að gera hærra undir höfði. Þess vegna held ég að jöfnunarþátturinn og hvernig menn ætla að standa að því að koma rafmagni á viðunandi verði og á sem sambærilegustum kjörum til landsmanna verði að liggja fyrir í því umhverfi sem er verið að búa til, þessu nýja umhverfi, en verði ekki saltað í nefnd og látið bíða betri tíma eins og hæstv. iðnrh. áformar.