Verðbréfasjóðir og fjárfestingarsjóðir

Fimmtudaginn 30. janúar 2003, kl. 16:59:16 (3275)

2003-01-30 16:59:16# 128. lþ. 69.11 fundur 518. mál: #A verðbréfasjóðir og fjárfestingarsjóðir# (heildarlög, EES-reglur) frv., viðskrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 128. lþ.

[16:59]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði á þskj. 859, sem er 518. mál þingsins.

Löggjöf um verðbréfasjóði er tiltölulega ný af nálinni hér á landi. Fyrstu lögin voru lög um verðbréfamiðlun nr. 27/1986. Núgildandi lög um verðbréfasjóði eru nr. 10/1993 og taka þau mið af tilskipun um sameiginlega fjárfestingu. Lögunum var breytt lítillega með lögum nr. 21/1996, en þær breytingar miðuðu einkum að því að laga íslenskan rétt betur að tilskipun Evrópusambandsins um verðbréfasjóði og með lögum nr. 17/1999, en þær breytingar gerðu kleift að stofna verðbréfasjóði sem eingöngu höfðu heimild til markaðssetningar hér á landi og lutu ekki ákvæðum tilskipunar um sameiginlega fjárfestingu.

Í frv. þessu er lagt til að sett verði ný heildarlöggjöf um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði og eru lögin m.a. innleiðing á tveimur nýjum tilskipunum ESB á þessu sviði sem EES-ríkjum ber að innleiða fyrir 13. ágúst nk.

[17:00]

Með frumvarpi þessu er stefnt að því að skapa hagstæðara umhverfi til reksturs sjóða um sameiginlega fjárfestingu hér á landi. Það er gert með því að heimila fleiri tegundir sjóða og útvíkka fjárfestingarheimildir þeirra og bjóða upp á fleiri, einfaldari og ódýrari rekstrarform sjóða. Með þessu á að skapast svigrúm til að auka flóru íslenskra sjóða um sameiginlega fjárfestingu. Hömlur á fjárfestingar sjóða eiga síðan að fara eftir hverjir hafa heimildir til að fjárfesta í þeim.

Með frumvarpi þessu er gildissvið laga um verðbréfasjóði útvíkkað þannig að allir sjóðir í eðlislíkri starfsemi falli undir lögin. Þannig er gert ráð fyrir að allir sjóðir um sameiginlega fjárfestingu sem veita viðtöku fé frá almenningi á grundvelli áhættudreifingar samkvæmt fyrir fram kunngerðri fjárfestingarstefnu falli undir gildissvið laganna, óháð rekstrarformi þeirra.

Þetta frv. hefur verið lengi í smíðum í viðskrn., þ.e. í um tvö ár. Nefnd á vegum ráðuneytisins vann að gerð þess. Hana skipuðu fulltrúar ráðuneytisins og að auki fjmrn., Fjármálaeftirlitsins, Kauphallar Íslands og Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja. Helstu atriði frv. eru eftirfarandi:

Verðbréfasjóðir uppfylla öll skilyrði tilskipunar um sameiginlega fjárfestingu. Fjárfestingarheimildir þeirra hafa verið rýmkaðar í samræmi við breytingar á tilskipuninni.

Fjárfestingarsjóðir eru nýtt starfsleyfisskylt form sjóða um sameiginlega fjárfestingu. Tilgangurinn er að auka svigrúm aðila til að stofna fleiri tegundir sjóða um sameiginlega fjárfestingu hér á landi. Fjárfestingarsjóðir uppfylla ekki tilskipun um sameiginlega fjárfestingu og geta þeir því ekki markaðssett skilríki sín á Evrópska efnahagssvæðinu án starfsleyfis í viðkomandi ríki. Slíkir sjóðir eru til í einu formi eða öðru í öllum EES-ríkjum en mjög mismunandi er hvaða ákvæði gilda um slíka sjóði.

Í frumvarpinu er mælt fyrir um einkarétt verðbréfasjóða og fjárfestingarsjóða til að veita viðtöku fé frá almenningi til sameiginlegrar fjárfestingar í fjármálagerningum og öðrum eignum á grundvelli áhættudreifingar samkvæmt fyrir fram kunngerðri fjárfestingarstefnu. Það þýðir að hlutabréfasjóðir og aðrir sjóðir um sameiginlega fjárfestingu falla undir lögin og fá starfsleyfi. Gildandi lög taka ekki til hlutabréfasjóða. Það hefur leitt til þess að tvö kerfi eru hér á landi um sjóði um sameiginlega fjárfestingu. Annars vegar verðbréfasjóðir sem uppfylla ströng skilyrði laga og hins vegar hlutabréfasjóðir og aðrir sjóðir um sameiginlega fjárfestingu sem ekki hafa starfsleyfi stjórnvalda. Engin ákvæði eru í lögum um stjórn, skipulag, hagsmunaárekstra, upplýsingagjöf, innlausn og fjárfestingarstefnu þessara sjóða. Þetta kerfi er ófullnægjandi, tryggir ekki vernd neytenda með þeim hætti sem ætlast er til af löggjöf á fjármálamarkaði og viðgengst ekki í löndunum í kringum okkur.

Rekstrarfélög verðbréfasjóða fá starfsleyfi stjórnvalda og verða fjármálafyrirtæki samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki. Þau fá víðtækari heimildir til starfsemi, m.a. geta þau sinnt eignastýringu og fjármálaráðgjöf.

Verðbréfasjóðir verða stofnaðir og reknir af rekstrarfélagi í stað þess að vera sjálfstæðir lögaðilar. Í gildandi lögum eru verðbréfasjóðir hlutafélög. Það fyrirkomulag hefur verið gagnrýnt enda er hlutverk verðbréfasjóðs það eitt að gera samning við viðeigandi aðila um rekstur og vörslu sjóðsins. Fjárfestingarsjóðir geta hvort heldur sem er verið reknir í formi hlutafélags eða sem hluti rekstrarfélags eins og verðbréfasjóðir.

Fjármálaeftirlitið veitir verðbréfasjóðum og fjárfestingarsjóðum sem gefa út hlutdeildarskírteini staðfestingu og fjárfestingarsjóðum sem gefa út hlutabréf starfsleyfi í stað þess að viðskiptaráðherra veiti verðbréfasjóðum starfsleyfi.

Ný ákvæði eru um upplýsingagjöf verðbréfasjóða í samræmi við breytingar á tilskipun um sameiginlega fjárfestingu, m.a. er kveðið á um skyldu sjóða til að gera útdrátt úr útboðslýsingu.

Hæstv. forseti. Ég mælist til þess að þessu frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.