Afgreiðsla forsætisnefndar á beiðni um skýrslu

Mánudaginn 03. febrúar 2003, kl. 15:13:09 (3290)

2003-02-03 15:13:09# 128. lþ. 70.92 fundur 392#B afgreiðsla forsætisnefndar á beiðni um skýrslu# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 128. lþ.

[15:13]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Það er vísað í álitsgerðir lögfræðinga. Ég skil mjög vel að menn vilji hafa leynd yfir starfslokasamningum fyrrverandi forstjóra Símans. Ég skil hins vegar ekki að það skuli vera viðskiptaleyndarmál. Í álitsgerðum lögfræðinganna er vísað í hagsmuni fyrirtækisins. En hvað um eigendurna? Verða hagsmunir fyrirtækis og eigenda, sem er íslenska þjóðin, greindir í sundur?

Herra forseti. Hætt er við því að í skjóli leyndar þrífist spilling og ég spyr um handhafa hlutabréfs þjóðarinnar í þessari stofnun, hæstv. samgrh. Hvers vegna í ósköpunum hefur hann ekki beitt sér fyrir því að opnað verði á þessar upplýsingar því að sjálfsögðu verður ekki hætt fyrr en þær liggja hér á borðum?