Úrvinnslugjald

Mánudaginn 03. febrúar 2003, kl. 17:04:46 (3323)

2003-02-03 17:04:46# 128. lþ. 70.27 fundur 566. mál: #A úrvinnslugjald# (frestun gjaldtöku, brottfall tollnúmera) frv., Frsm. MS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 128. lþ.

[17:04]

Frsm. umhvn. (Magnús Stefánsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir breytingu á lögum um úrvinnslugjald, nr. 162/2002, frá umhvn.

Lög um úrvinnslugjald voru samþykkt frá Alþingi þann 13. desember sl. og tóku gildi um áramót. Eftir gildistöku laganna kom í ljós að gera þyrfti tvær breytingar á þeim af praktískum ástæðum. Hefur umhvn. fjallað um það og því er þetta frv. hér flutt í samráði við fjmrh. og umhvrh.

Frv. er í tveimur greinum. Í fyrsta lagi er um að ræða að í 5. gr. laganna er mælt fyrir um að skráður eigandi ökutækis skuli á hverju gjaldtímabili greiða 520 kr. í úrvinnslugjald fyrir hvert gjaldskylt ökutæki í hans eigu samkvæmt lögum um bifreiðagjald, nr. 39/1988. Gjaldið á að innheimta með bifreiðagjaldi með sömu gjalddaga og eindaga. Með 1. málsl. 2. mgr. 5. gr. laganna er kveðið á um að eigendur bifreiða sem undanþegnir eru bifreiðagjaldi skuli greiða úrvinnslugjald. Í 1. gr. frv. er lagt til að gjaldtöku úrvinnslugjalds á þennan hóp verði frestað til 1. júlí nk. Eru ástæðurnar fyrst og fremst framkvæmdalegs eðlis þar sem ekki reyndist unnt að hefja gjaldtöku úrvinnslugjalds samkvæmt lögunum þann 1. janúar sl. og því er lagt til að fyrsti gjalddaginn verði 1. júlí.

Í öðru lagi er í 2. gr. frv. lagt til að nokkur tollnúmer í viðauka II við lögin verði felld brott. Í viðaukanum er fjallað um samsettar pappaumbúðir fyrir drykkjarvörur. Orðalag við nokkur af tollskrárnúmerunum í frv. til laga um úrvinnslugjald náðu yfir fleira en slíkar pappaumbúðir. Skipta varð því hverju tollskrárnúmeri fyrir sig upp í tvö ný tollskrárnúmer, sbr. auglýsingu nr. 169/2002, þar sem fyrra númerið í hverri uppskiptingu hefur þetta orðalag, ,,samsettar pappaumbúðir fyrir drykkjarvörur``, til þess að hægt yrði að leggja á það úrvinnslugjald. Seinna númerið átti að vera án úrvinnslugjalds og er lagt til að þau númer verði felld úr lögunum.

Herra forseti. Ég legg til að frv. verði vísað til 2. umr. og þar sem það er flutt af umhvn. legg ég ekki til að því verði vísað til nefndar.