Samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006

Þriðjudaginn 04. febrúar 2003, kl. 17:13:10 (3388)

2003-02-04 17:13:10# 128. lþ. 71.8 fundur 563. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006# þál., 469. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014# þál., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 128. lþ.

[17:13]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka ráðherra fyrir svörin og hvet hann eindregið til þess að kynna sér þetta mál á Patreksfjarðarflugvelli og láta athuga það með öryggi íbúanna í huga. Breytingin, ef menn telja nauðsynlegt að ráðast í hana, má ekki verða til að rýra gildi flugvallarins hvað varðar þjónustu fyrir sjúkraflug og annað öryggi.

Ég vil leggja áherslu á það, herra forseti, að lokum að náðst hefur samkomulag um það við afgreiðslu byggðaáætlunar á síðasta ári að norðanverðir Vestfirðir verði kjarnasvæði, rétt eins og Akureyri fyrir Eyjafjörð og Miðausturlandið verði þriðji kjarninn. Til þess að slík svæði geti styrkst og þjónað eins og þeim er ætlað, til að efla og styrkja byggðina á sínu svæði, er nauðsynlegt að hafa mjög góðar samgöngur inn á þau svæði frá höfuðborgarsvæði eins og bent er rækilega á í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands sem nýlega kom út. Ég legg mikla áherslu á það, herra forseti, að við vinnslu á þessari þáltill. verði hugað að því að bæta við fjármagni í vegagerð inn á þetta svæði þannig að menn geti lokið góðri vegagerð sem næst á þeim tíma sem þeir settu sér fyrir nokkrum árum.