Samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006

Þriðjudaginn 04. febrúar 2003, kl. 18:41:35 (3405)

2003-02-04 18:41:35# 128. lþ. 71.8 fundur 563. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006# þál., 469. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014# þál., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 128. lþ.

[18:41]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Út af orðum hv. þm. þá held ég að það muni nú renna tvær grímur á Reykvíkinga. Það munu renna tvær grímur á Reykvíkinga í ljósi þess sem ég sagði áðan, þ.e. að borgarfulltrúar R-listans skuli frekar vilja þremur milljörðum dýrari leið en þá leið sem kölluð er strandleið eða innri leið, og þar með væri hægt að fara að vinna að þessu máli.

Í annan stað kom hv. þm. að því áðan að vegna samþykktar sjálfstæðisfélaganna á Vestfjörðum um samgöngumál þá hafi samgn. og formaður samgn., sá sem hér stendur, brugðið skjótt við og farið vestur og haldið þar fund. Þannig háttar til, til að upplýsa þingmanninn um það, að ekki er langt í landsfund Sjálfstæðisflokksins. Þar er starfandi nefnd, samgöngunefnd. Formaður þeirrar nefndar er Birna Lárusdóttir. Hún er forseti bæjarstjórnar Ísafjarðar. Við fórum þangað og ræddum málin þar og réðum ráðum okkar og það hittist bara þannig á að það var í beinu framhaldi af þessum fundi. Það var ekki í neinum tengslum við hann. Hins vegar höfðum við ákaflega gott af því að fara vestur og sjá og skoða samgöngumálin. Við sáum þetta meira að segja vel úr lofti líka. Þetta var því hin besta ferð og á ábyggilega eftir að gagnast landi og þjóð þá fram líða stundir.