Samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006

Þriðjudaginn 04. febrúar 2003, kl. 20:54:01 (3424)

2003-02-04 20:54:01# 128. lþ. 71.8 fundur 563. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006# þál., 469. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014# þál., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 128. lþ.

[20:54]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Þetta voru engin stóryrði af minni hálfu. Ég hlustaði á hæstv. samgrh. lýsa því yfir að jarðgangagerð yrði fjármögnuð með sölu ríkiseigna. (Samgrh.: Meðal annars.) Ég spurði síðan hæstv. ráðherra hvaða ríkiseignir ætti að selja. Þá komu engin svör önnur en þau að það væri almenn stefna ríkisstjórnarinnar að einkavæða og selja ríkiseignir.

Þá segi ég: Þetta finnst mér ódýr málflutningur. Við stöndum frammi fyrir því hér á Alþingi að afgreiða frv. ríkisstjórnarinnar um opnun á einkavæðingu raforkugeirans. Sama á við um vatnsveiturnar sem þó eru á vegum sveitarfélaganna. Þetta er sú hætta sem við stöndum frammi fyrir ef þjóðin verður svo ógæfusöm að sitja uppi með sömu ríkisstjórn áfram, að þessar ágætu framkvæmdir sem hér eru tíundaðar verði einfaldlega fjármagnaðar með sölu á þessum eignum.

Er til of mikils ætlast, herra forseti, að ríkisstjórnin og sá hæstv. ráðherra sem fer með þennan málaflokk geri okkur grein fyrir því hvaða eignir á að selja og afgreiði ekki umræðuna á þann ódýran hátt að segja: ,,Við ætlum bara að selja eitthvað?``