Flutningur fjarvinnsluverkefna og starfa út á land

Miðvikudaginn 05. febrúar 2003, kl. 14:13:20 (3461)

2003-02-05 14:13:20# 128. lþ. 73.3 fundur 482. mál: #A flutningur fjarvinnsluverkefna og starfa út á land# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 128. lþ.

[14:13]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Samkvæmt lögum um niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar sem samþykkt voru á 127. löggjafarþingi, í maí 2002, fékk Orkustofnun það nýja hlutverk að annast nánast alla framkvæmd laganna. Um er að ræða eitt starf á stjórnsýslusviði og var ákveðið að starfsmaðurinn yrði staðsettur á Akureyri. Starfið var auglýst sl. sumar og bárust á fimmta tug umsókna. Fyrir valinu varð heimamaður og hefur hann hafið störf.

Áætlað er að færa til Akureyrar að hluta eða öllu leyti þau önnur stjórnsýsluverkefni Orkustofnunar sem tengjast sérstaklega landsbyggðinni. Hér er t.d. um að ræða svokallað jarðhitaleitarátak, orkusparnaðarmál, smávirkjanir o.fl. Því má búast við að stjórnsýsluútibúin muni fljótlega vaxa í nánustu framtíð og þess má geta að á rannsóknasviði Orkustofnunar voru starfandi þrír einstaklingar fyrir þessa viðbót.

Nýsköpunarmiðstöð á Akureyri sem er hluti af nýsköpunarmiðstöð Impru á vegum Iðntæknistofnunar var stofnsett í desember 2002. Gengið var frá ráðningu þriggja starfsmanna sem allir eru sérfræðingar á sínu sviði. Um 80 manns sóttu um eitt eða fleiri af þessum þremur störfum og sýnir það að mikill áhugi er á að starfa á Akureyri ef í boði er áhugavert og krefjandi starf. Tveir starfsmannanna voru búsettir í Reykjavík. Áætlað er að tveir nýir starfsmenn verði ráðnir til Nýsköpunarmiðstöðvarinnar á Akureyri á þessu ári.

Á undanförnum aldarfjórðungi hefur verið unnið að uppbyggingu Rafmagnsveitna ríkisins á landsbyggðinni með flutningi verkefna til rekstrarumdæma. Nú vinna starfsmenn Rariks meira og minna við tölvukerfi sem samtengd eru á landsvísu þannig að saman fer vinna, miðlægt upplýsingakerfi fyrirtækisins og styrking hins samtengda nets. Stöðug hreyfing er á vinnslu verkefna í fjarvinnslu en leitast er við að efla fjarvinnslu í öllum landshlutum. Störfin felast m.a. í vinnu við sölukerfi, bókhaldskerfi, fjárhags- og verkáætlanakerfi, viðamikil tæknikerfi, landsupplýsingakerfi, ýmis stýrikerfi o.s.frv. Þróun í starfsmannafjölda fyrirtækisins hefur verið sú, eins og í svo mörgum öðrum fyrirtækjum, að störfum hefur fækkað verulega á undanförnum árum þrátt fyrir aukin umsvif. Árið 1983 voru til að mynda 368 starfsmenn hjá Rarik en eru í dag um 215. Fækkunin er því um 42%. Aftur á móti hefur aukin áhersla verið á starfsemi á landsbyggðinni. Það sést best á því að árið 1983 voru 56% starfsmanna á landsbyggðinni en eru í dag um 75%. Fækkun hefur því hlutfallslega verið mest í Reykjavík.

Í sambandi við þá fyrirspurn sem hv. þm. bætti við í lok máls síns og varðar Ólafsfjörð er þetta rétt eftir haft hjá hv. þingmanni, ég lét þessi orð falla í lok fundarins og það sem ég þá hafði í huga var verkefni sem tengist dómsmrn. og var ekki um það að ræða að ég hefði forsvar í málinu. Þar við situr.