Flutningskostnaður

Miðvikudaginn 05. febrúar 2003, kl. 14:40:16 (3474)

2003-02-05 14:40:16# 128. lþ. 73.4 fundur 434. mál: #A flutningskostnaður# fsp. (til munnl.) frá samgrh., KLM
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 128. lþ.

[14:40]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að spyrjast fyrir um þetta mál. Hæstv. samgrh. og hæstv. iðnrh. vitna í skýrsluna sem kom út í gær. Ég var mjög spenntur fyrir þessari skýrslu, að sjá hvað kæmi út úr henni og vonaði að þar kæmi eitthvað sem mark yrði á takandi. En því miður verð ég að segja að þar er ekkert nýtt, því miður.

Það er fjallað um háan flutningskostnað. Við vissum af honum. Það er fjallað um hvernig virðisaukaskattur íþyngir landsbyggðarfólki. Við vissum það. Það er fjallað um opinberar álögur á flutningskostnað. Við þekkjum það einnig. Þetta eru nánast sömu upplýsingar, sömu fylgiskjöl og vísanir í tillögur frá Noregi og Svíþjóð. Um þetta mátti allt lesa í þeirri tillögu sem ég hef flutt á hinu háa Alþingi undanfarin tvö eða þrjú ár. Þarna er ekkert nýtt, því miður. Nú kemur þetta fram eftir 15 mánaða skoðun. Eftir 15 mánuði kemur þessi skýrsla fulltrúa þriggja ráðherra með engum krassandi tillögum.

Herra forseti. Brýnasta byggðamálið í dag er að lækka flutningskostnað til og frá landsbyggðinni. Grípa þarf til opinberra aðgerða. Hæstv. ríkisstjórn á að gera það og það strax.