Úrskurður ráðherra um Norðlingaölduveitu

Miðvikudaginn 05. febrúar 2003, kl. 15:55:33 (3504)

2003-02-05 15:55:33# 128. lþ. 73.95 fundur 407#B úrskurður ráðherra um Norðlingaölduveitu# (umræður utan dagskrár), KolH
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 128. lþ.

[15:55]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Virðulegi forseti. Það sem er mikilvægast í úrskurði hæstv. setts umhvrh. er sú staðreynd að framkvæmdinni eins og Landsvirkjun lagði hana upp í matsskýrslu sinni er í raun hafnað á grundvelli þeirra áhrifa sem hún hefði á friðlandið og þar með má segja að í sjálfu sér sé hnekkt fráleitum úrskurði Skipulagsstofnunar frá 12. ágúst.

Hitt er líka mikils virði að í úrskurðinum er viðurkennt mikilvægi friðlanda og það er miður, herra forseti, að hæstv. ráðherra skuli ekki fáanlegur til að segja skoðun sína á því hvert fordæmisgildi þessa úrskurðar sé fyrir framkvæmdir á öðrum friðlöndum.

Það er líka mikilvægt að gert skuli ráð fyrir því að aurnum verði skolað úr Norðlingaöldulóni og í því sambandi má spyrja: Er þá þörf fyrir setlónið? Ef hlutverk þess er fyrst og fremst að vera setlón, safna seti, þá ætti það að vera óþarft. Aurskolunin úr Norðlingaöldulóni ætti að sjá til þess. En ef hlutverk þess er að vera veitulón, þá þarf að svara þeirri spurnigu, herra forseti, hvort það sé réttmætt út frá lögum og eðli þessa máls að framkvæmd, sem Landsvirkjun hefur ítrekað sagt að hætt hafi verið við vegna umhverfisáhrifa og náttúruverndarsjónarmiða, skuli nú vera sett inn í þennan úrskurð á þeirri forsendu að hér sé ekki um sjálfstæða framkvæmd að ræða heldur mótvægisaðgerð.

Forstjóri Landsvirkjunar var að því spurður á fundi iðn.- og umhvn. sl. mánudag hver munurinn væri á þessum tveimur kostum, Kvíslaveitu 6 og mótvægisaðgerðunum í úrskurði hæstv. ráðherra. Hann svaraði því til að Landsvirkjun hefði aldrei hugsað sér að sameina Norðlingaölduveitu og Kvíslaveitu 6 sem eina framkvæmd en samkvæmt úrskurðinum væri veitan skilgreind sem mótvægisaðgerð. Með öðrum orðum er Landsvirkjun að fá það sem þeir hafa litið á sem sjálfstæða framkvæmd upp í hendurnar sem mótvægisaðgerð. Ég er ekki hissa, herra forseti, þó Landsvirkjun sé nokkuð sátt.

En það sem ég vil segja í lokin er að þessi úrskurður er viðurkenning náttúruverndarsjónarmiða. Þau ráða þessum úrskurði og það er auðvitað staðfesting á því að baráttan er að skila árangri.