Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 11:43:54 (3532)

2003-02-06 11:43:54# 128. lþ. 74.4 fundur 538. mál: #A Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins# (heildarlög) frv., GÖ
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[11:43]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Virðulegur forseti. Hæstv. félmrh. hefur mælt fyrir afar þörfu frv. sem að vísu hafði komið fram áður, þ.e. á 126. löggjafarþingi, en síðan þá hafa verið gerðar breytingar á frv. og ég fæ ekki betur séð en að þær séu til bóta frá fyrri tillögum. Flestir sem hér eru inni þekkja kannski þessa forsögu sem hæstv. ráðherra fór yfir en vinna við þetta mál hófst þegar rætt var um að flytja málefni fatlaðra yfir til sveitarfélaganna og steypa saman í ein lög lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga og lögum um málefni fatlaðra. Sú sem hér stendur var mjög hlynnt því en af því varð ekki. Í tengslum við það var hins vegar talið mikilvægt að Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins væri undir sérlögum enda er þar veitt afar mikilvæg og sértæk þjónusta.

Þar sem ég fæ ekki betur séð en að hér sé um gagnlegt og gott frv. að ræða hef ég eiginlega litlar sem engar athugasemdir við það. Núna er skilgreint mjög vel það hlutverk og þjónusta sem stofnunin á að veita. Auðvitað vitum við vel að saman þurfa að fara fjármunir og sú faglega vinna sem þar er. Reynsla og sú vinna sem fram hefur farið í stjórnarnefndinni undir forsæti Þórs G. Þórarinssonar úr félmrn. er líka afar mikilvæg og ekki síst það að horfa til nokkurra ára og reyna að sjá hlutina komast í horf.

[11:45]

En að sjálfsögðu hefur maður áhyggjur af ákveðnum hópi sem ekki er kannski tekið á sérstaklega í þessu frv. en það er sá hópur skólabarna sem er með vægari þroskatruflanir, þ.e. börn geta verið misþroska, með athyglisbrest, með einhverfu og hæstv. ráðherra nefndi einmitt að það þyrfti kannski að gefa örlítið meira í og tryggja þá þjónustu betur.

Ég hef áhyggjur af þeim hópi skólabarna sem á við lestrarörðugleika að etja, vægar hreyfihamlanir og stærðfræðivanda. Með því að grípa ekki inn í hvað þennan hóp varðar og stuðla að því að hann fái þá greiningu sem er þá viðurkennd þótt ekki sé hún gerð á vegum Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins, getum við verið að sjá þyngri og erfiðari vandamál til framtíðar. Ég lít svo á að við fyrirbyggjum til framtíðar með því að skoða og skilgreina þann hóp frekar.

Við þekkjum umræðuna um að Lestrarmiðstöð Kennaraháskólans hefur verið lögð niður. Það er spurning hvort ekki þyrfti að gera einhverja ámóta annexíu við Greiningarstöð sem tæki þá á þeim sértæka vanda, en yfirsýnin héldist á einum stað. Ég vil varpa þessari hugmynd fram, kannski til ráðherra og við munum eflaust ræða það líka í nefndinni með þeim gestum sem við munum fá. En skilgreiningar í lögunum um Greiningar- og ráðgjafarstöð eru afar mikilvægar og afar skýrar en, eins og ég segi, við erum þarna með örlítið grátt svæði sem ég átta mig ekki alveg á hvernig væri hægt að taka á. En það sem er ekki síður í þessu frv. er einmitt sú skilgreining um stöðu stofnunarinnar gagnvart sveitarfélögunum. Og kannski er sá vandi sem ég er að tala um hjá skólabörnum með lestrarörðugleika, vægar hreyfihamlanir og stærðfræðivanda og annað, að það komi þar inn. Það skýrist vonandi í umræðu í nefndinni. Ég tel þetta vera sístækkandi hóp eða í öllu falli sýnilegri. Foreldrar eru meira á vaktinni gagnvart þessum hópi. Það er öðruvísi að vera með barn sem er með mjög sýnilega fötlun og afar mikilvægt að halda undir þann styrka stuðning við þá foreldra sem þar eiga í hlut.

Oft er talað um það sem maður vill láta kannski bæta í en ég fagna framkomnu frv. og segi það alveg eins og er að ekki mun ég liggja á liði mínu til að það fari út úr nefnd fyrir þinglok.