Aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 12:24:35 (3540)

2003-02-06 12:24:35# 128. lþ. 74.5 fundur 550. mál: #A aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum# (vinnutímatilskipun, EES-reglur) frv., GÖ
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[12:24]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Virðulegur forseti. Hæstv. félmrh. hefur nú mælt fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.

Þetta er í þriðja sinn að frv. af þessu tagi er lagt fram. Sams konar frv. voru lögð fram á 126. þingi og síðan á 127. löggjafarþingi. Á síðustu dögum hef ég reynt að bera saman það sem er í þessu frv. og það sem var í hinum fyrri. Það hefur hins hins vegar verið erfitt. Hér er eiginlega um nýtt frv. að ræða og meiri endurskoðun á lögunum sjálfum, umfram þessa vinnutímatilskipun Evrópusambandsins.

Í félmn. hafa verið miklar umræður um fyrri frv. tvö og m.a. náðum við að afgreiða það frá nefndinni síðast með álitum og öðru. En þá kom læknamálið upp, þ.e. varðandi læknanemana, og eins voru hagsmunaaðilar, bæði verkalýðshreyfingin og vinnuveitendur, ósáttir.

Frv. sem hér liggur nú fyrir er hins vegar unnið í ráðuneytinu ekki af nefnd eins og fyrri frv. voru unnin, samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið. Jafnframt hafa verið gerðar ýmsar tillögur í þessu frv. um að hverfa frá þessu samráði á milli verkalýðshreyfingar og vinnuveitenda sem hefur gert það þó að verkum að þeir hafa komist að ákveðinni niðurstöðu en ekki bara komið með tillögur hvor úr sinni áttinni. Svo mun auðvitað verða nú og mun þá ráðherra úrskurða um tillögurnar.

Mér finnst þetta afar slæmt og við eigum auðvitað eftir að fara yfir þetta í nefndinni. Það er viðbúið að við séum að búa til viðbótar hund og kött með þessu fyrirkomulagi. Eins er rökstutt með stjórnsýslulögum að hverfa frá því að stjórn Vinnueftirlitsins geti komið með tillögur að breytingum eftir því hvernig mál þróast en núna er það fyrst og fremst ráðherra sem kemur með slíkt. Það er hann sem setur nánari reglur samkvæmt umsögn, ekki samkvæmt tillögum Vinnueftirlitsins.

Það eru mjög margar breytingar sem erfitt er að átta sig á fyrsta kastið. Þess vegna vil ég ekki ræða þetta mikið nánar sem stendur. Fara þarf mjög vel yfir það í nefndinni. Það þarf líka að bera saman öll fyrri mál um þetta efni. Ég harma að vissu leyti að þetta frv. skuli ekki hafa komið fram fyrr ef ætlunin var að reyna að afgreiða það á þessu vorþingi. Félmn. hefur haft það vinnulag að fara vandlega í svona stór mál og þannig hefur það verið varðandi bæði fyrri frv. Nefndin fer mjög vel yfir málið. Við erum náttúrlega líka orðin sjóuð í þessum málum og munum því sjá hvað setur.

Mér segir hins vegar svo hugur um að það eigi eftir að verða talsverður ágreiningur um að ekki skuli meira um þetta formlega samráð, þ.e. að það skuli ekki vera í jafnríkum mæli og áður í mikilvægum málum. Ætlunin virðist fyrst og fremst að ráðherra muni skera þar úr. Eins og ég segi þá eigum við eftir að fara vel yfir þetta mál í nefndinni og kalla til sérfræðinga. Það verður fróðlegt.