Samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 14:53:59 (3574)

2003-02-06 14:53:59# 128. lþ. 74.8 fundur 18. mál: #A samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni# þál., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[14:53]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ég og hv. þm. Drífa Hjartardóttir getum verið sammála um að það fyrirkomulag sem nú hefur ríkt hjá sauðfjárbændum hefur gert þeim mjög erfitt um vik. Við höfum staðið að og lagt fram á hinu háa Alþingi ýmsar hugmyndir um það á hvern hátt bæta megi kjör sauðfjárbænda.

Reyndar hafa þær hugmyndir í gegnum tíðina fallið í mjög grýttan jarðveg og nánast öllu sem við höfum lagt fram í þessum efnum hefur verið snúið upp á okkur á þann hátt að við séum sérstakir óvinir bænda. Oft og tíðum hefur það verið helsta röksemdafærsla bæði sjálfstæðismanna og framsóknarmanna í dreifbýli að við höfum það eina markmið að reyna að gera veg bænda sem minnstan og á því hafa þeir að mörgu leyti þrifist um nokkuð langt skeið.

Við höfum hins vegar lagt fram ýmsar hugmyndir í þessum efnum.

Hv. þm. spurði mig einnig um það sérstaklega hvort ég mundi standa að því að verja hagsmuni bænda eða hagsmuni sauðfjárbænda, eins og hún orðaði það, gegn innflutningi væntanlega þá á sauðfjárafurðum. Ég geri ráð fyrir því. (Gripið fram í: Það var almennt um landbúnaðinn.) Já, ég skildi þetta sem á sauðfjárafurðum eða almennt um landbúnað.

Við höfum sent frá okkur þá pólitísku yfirlýsingu sem er rétt að vitna til. Við höfum sagt að ljóst sé að ef við ætlum að reka landbúnað í harðbýlu landi eins og Íslandi þá verður það ekki gert án styrkja. Það höfum við sagt og við það stend ég.