Umferðarlög

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 16:42:53 (3610)

2003-02-06 16:42:53# 128. lþ. 74.12 fundur 108. mál: #A umferðarlög# (hægri beygja á móti rauðu ljósi) frv., Flm. HjÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[16:42]

Flm. (Hjálmar Árnason):

Herra forseti. Ég mæli nú í í raun í fjórða sinni fyrir sama málinu sem ég flyt ásamt hv. þm. Vilhjálmi Egilssyni. Við höfum flutt þetta tvisvar áður sem þáltill. og einu sinni áður sem frv. en freistum þess nú fjórða sinni að flytja málið, enda teljum við það vera afskaplega skynsamlegt. Það er einfalt og til þess gert að bæta umferðarmenningu.

Þetta snýr að breytingu á umferðarlögum, nr. 50 30. mars 1987, og felur í sér að umferðarlögum verði breytt á þann hátt að upp verði tekin sú meginregla að bílstjóra sem kemur að rauðu ljósi en hyggst beygja til hægri sé það heimilt þótt rautt ljós sé, ef hann meti það svo að aðstæður séu þannig að óhætt sé að beygja.

Flóknara er nú frv. ekki og miðað við þau viðbrögð sem ég og meðflutningsmaður minn og meðflutningsmenn áður hafa fengið við frv. og þar áður þáltill. þegar við fluttum hana, þá er ég í rauninni gáttaður á því að það skuli hafa sofnað í meðförum þingsins. Þeir sem hafa brugðist mjög jákvætt við eru einkum þeir sem eru mikið í umferðinni, svo sem atvinnubílstjórar, en þeir sem einkum hafa lagst gegn hugsuninni á bak við frv. eru þeir sem eru að véla um umferð og veita öðrum ráð.

Herra forseti. Ég get nefnt örfá dæmi til að útskýra hvað við er átt með þessu en minni á um leið að þeim hætti sem mælt er með að verði tekinn upp samkvæmt frv. hefur verið viðhaldið og notaður vestan hafs í Bandaríkjunum, Kanada og reyndar í fleiri löndum með einstaklega jákvæðum árangri, enda telja þeir þar vestra að þar sem þessi hægri beygja á móti rauðu ljósi hefur verið leyfð spari það umferðarmannvirki, greiði fyrir umferð og ekki síst bæti það skap bílstjóra því að það leysi þá fyrr úr óþægilegum umferðarhnútum.

Komi bílstjóri að rauðu ljós á einhverjum tilteknum gatnamótum jafnvel þó lítil eða engin umferð sé og bílstjórinn hyggist beyja til hægri, þá er honum það óheimilt, hann verður að bíða þar til langþráð grænt ljós birtist og þá ekur ökumaðurinn af stað. Ökumanninum er í því tilviki ekki treyst til þess að nýta dómgreind sína um það hvort óhætt sé að beygja til hægri ef umferð á aðalgötu leyfir það.

Ég vil, herra forseti, nefna annað dæmi og það eru svokallaðar afreinar sem hafa verið notaðar sem lausnir gagnvart svona vandamáli getum við sagt. En hvað felst í þessum svokölluðu afreinum? Í þeim felst það að bílstjóra sem hyggst fara til hægri frá akstursstefnu sinni er beint niður á þessa svo kölluðu afrein en þar sem henni lýkur, þar sem hún endar er gjarnan biðskyldumerki og ökumanninum er ætlað að stöðva þar eða a.m.k. að kynna sér aðstæður það vel að hann verði að gera það upp við sig, þá reynir á dómgreind hans, hvort óhætt sé að aka inn á aðalbrautina. Þar er ökumönnum með öðrum orðum treyst, dómgreind þeirra er treyst, hvort þeir þori, geti og vilji fara af afreininni yfir á aðalgötuna. Það skýtur þess vegna, herra forseti, afskaplega skökku við að menn skuli ekki treysta sömu bílstjórum með sömu dómgreind á öðrum gatnamótum. Þetta snýst í rauninni um það að treysta dómgreind og ábyrgð bílstjóra sem alltaf hlýtur að vera útgangspunkturinn í allri umferðarmenningu.

Ég hygg að andstaðan við þetta snúist dálítið um skandinavíska forræðishyggju þar sem spekingar og umferðarljós eigi að hafa vit fyrir öðrum meðan annars staðar er ökumönnum treyst betur og ég vísa enn og aftur til reynslunnar í Kanada og Bandaríkjunum sem er einstaklega jákvæð. Sjálfur bjó ég í Kanada í eitt ár og notaði þessa umferðarmenningu sem gafst alveg sérlega vel.

Herra forseti. Það er engin hætta á öðru, hvort heldur er í Bandaríkjunum eða Kanada, að ef fælist í því mikil slysahætta að treysta ökumönnum með þessum hætti, þá væri búið að afnema þessa meginreglu. Ég segi meginreglu því að samkvæmt frv. er gert ráð fyrir því að að öllu jöfnu sé bílstjórunum heimilt að taka hægri beygju á móti rauðu ljósi en í undantekningartilvikum, á sérlega erfiðum gatnamótum verði heimilt að banna það. Þetta er með öðrum orðum pósitíft ákvæði sem hægt er að upphefja við sérstök skilyrði. Þannig er það í Bandaríkjunum og Kanada t.d. við þung gatnamót í miðborgum og þá er það merkt sérstaklega að bannað eða óheimilt sé að taka hægri beygju á rauðu ljósi.

Herra forseti. Um þetta þarf ekki að segja mikið meira. Þetta snýst um að treysta bílstjórum. Það að treysta bílstjórum og varpa ábyrgðinni í vaxandi mæli til þeirra hygg ég að bæti umferðarmenningu, enda leyfi ég mér að fullyrða að umferðarmenning t.d. í Kanada er eiginlega mun þroskaðri en við eigum að venjast hér, líklega vegna þess að þar gerir löggjöfin ráð fyrir því að bílstjórum sé treyst og þeir beri ábyrgð. Ég held að þetta mundi líka greiða fyrir umferð og jafnvel kæta ýmsa bílstjóra sem stundum sjá lítinn tilgang í því að hanga einbíla á rauðu ljósi þó engin aðvífandi umferð sé sýnileg en rautt ljós bannar þeim að taka eina afskaplega saklausa hægri beygju.

Í þeirri von, herra forseti, að frv. fái farsælan endi af því að ég trúi því að í því sé mikil skynsemi, þá leyfi ég mér, herra forseti, að vísa því til 2. umr. og hv. allshn. þingsins.