Stimpilgjald

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 17:04:22 (3612)

2003-02-06 17:04:22# 128. lþ. 74.16 fundur 121. mál: #A stimpilgjald# (lækkun gjalds) frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[17:04]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Það mál sem hér hefur verið mælt fyrir og er flutt af hv. þm. Margréti Frímannsdóttur er stórmál, bæði fyrir fyrirtæki og einstaklinga í þessu landi. Það er alveg ástæða til þess að árétta að stjórnarflokkarnir hafa svikist um það, núna þegar þetta kjörtímabil þeirra er að enda, að fara í það að afnema eða lækka þennan skatt, stimpilgjöldin. Við tókum mikla umræðu um þetta mál í tengslum við skattalagabreytingar ríkisstjórnarinnar á haustdögum 2001 og þá var það loforð stjórnarflokkanna að þetta mál yrði tekið fyrir í næsta áfanga og yrði lagt fram frv. um það á haustdögum 2002, þ.e. á þessu yfirstandandi þingi, að stíga skref í að lækka stimpilgjöld. Það var gert ráð fyrir því í fjárlögum, þegar þau voru samþykkt í haust, að lækka stimpilgjöldin um 900 millj. kr. en stimpilgjöld eru sennilega nálægt 3,2 eða 3,3 milljörðum kr.

Nú hafa þeir runnið á rassinn með það, herra forseti, að lækka stimpilgjöldin sem margir biðu eftir. Líklega var það gert vegna þess að tryggingagjaldið sem ríkisstjórnin hækkaði á sínum tíma --- á haustdögum 2001 þegar stóra skattalagafrv. var lagt fram hækkaði hún tryggingagjaldið verulega, um 2,4 milljarða kr., sem kom sér afar illa fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki og sprotafyrirtæki. Á síðasta ári knúði verkalýðshreyfingin í gegn lækkun á þessu tryggingagjaldi í tengslum við kjarasamninga eða rauðu strikin sem mikið voru til umræðu á síðasta ári. Sú lækkun kostar þá ríkissjóð á næsta ári um einn milljarð, og þá bæta þeir sér mismuninn upp, þessir ágætu herrar, með því að svíkja loforðið um lækkun á stimpilgjöldunum. Það hefur ekki skilað sér eins vel til fyrirtækjanna og þau bjuggust við enda er sá hluti af hækkun á tryggingagjaldinu sem var tekinn til baka um síðustu áramót greiddur með stimpilgjaldinu.

Það er alveg ljóst, herra forseti, að það er óhætt að halda því fram að stimpilgjöldin séu bein samkeppnishindrun fyrir íslensk fjármálafyrirtæki sem og íslenska útgefendur verðbréfa sem hyggjast skrá þau á erlendum mörkuðum. Þetta er, eins og við höfum komið inn á hér í þessari umræðu, mjög ósanngjarn skattur gagnvart einstaklingum, einkum þeim sem eru að koma sér upp húsnæði. Með innheimtu stimpilgjalda af lánum einstaklinga til húsnæðiskaupa eða annarra nauðsynja er í raun og veru verið að innheimta, eins og framsögumaður nefndi hér, nokkurs konar fátækraskatt en þessi lán eru oftast veitt þeim sem ekki hafa efni á að fjármagna húsnæðiskaup eða aðrar nauðsynjar af eigin fé. Og það er óeðlilegt að við skuldbreytingar á lánum sem fjölskyldur hafa tekið sé stimpilgjald innheimt æ ofan í æ. Þar er á ferðinni gjaldtaka sem er langt umfram það sem þjónustan kostar.

Herra forseti. Eins og ég nefndi mundu bæði einstaklingar og fyrirtæki hagnast verulega á þessari breytingu. Einstaklingar borga um 1,2--1,3 milljarða stimpilgjaldsins, þ.e. um þriðjung, og fyrirtækin um 2,1 milljarð. Herra forseti, við erum mjög áfram um að ná því í höfn að stimpilgjöld verði lækkuð með það að markmiði að afnema þau algjörlega og munum halda því sjónarmiði á lofti.

Þegar skattalagabreyting ríkisstjórnarinnar var tekin til atkvæðagreiðslu í desembermánuði 2001 fluttum við brtt. þess efnis að stíga fyrsta skrefið í þessu efni og lækka stimpilgjöldin um þriðjung, þ.e. um 1 milljarð kr., sem átti þá að taka gildi 1. janúar 2003. Herra forseti. Stjórnarflokkarnir felldu þá tillögu um leið og þeir lofuðu bót og betrun og lofuðu að gera þetta við fjárlagaafgreiðsluna fyrir þetta ár. Við það hefur ekki verið staðið, og því ber að halda til haga.

Í því frv. sem hér hefur verið mælt fyrir gerum við tilraun til þess, herra forseti, að fá stjórnarflokkana til að stíga þá heldur minna skref en við lögðum til 2001 ef vera mætti að hægt yrði að ná samkomulagi um það. Við leggjum til að það verði lækkað um fimmtung árlega frá 1. janúar 2003 fram til 1. janúar 2007 og teljum að stjórnarflokkarnir ættu að geta skoðað þá leið með opnum huga.

Herra forseti. Afgreiðslan á þessu máli ríkisstjórnarinnar við fjárlagaafgreiðsluna núna þar sem þeir hættu við að lækka stimpilgjaldið sýnir enn eina ferðina að þessi ríkisstjórn er á rangri leið í öllum aðgerðum sínum í skattamálum og þetta er ein sönnun þess. Það frv. sem hér er flutt af hv. þm. Margréti Frímannsdóttur sýnir eindregna og afdráttarlausa stefnu Samfylkingarinnar í skattamálum.