Þjónustugjald á fjölsóttum náttúruverndarsvæðum

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 17:48:26 (3620)

2003-02-06 17:48:26# 128. lþ. 74.20 fundur 142. mál: #A þjónustugjald á fjölsóttum náttúruverndarsvæðum# þál., Flm. ÁMöl (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[17:48]

Flm. (Ásta Möller):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um þjónustugjald á fjölsóttum náttúruverndarsvæðum. Flutningsmenn auk þeirrar sem hér talar eru hv. þm. Gunnar Birgisson, Drífa Hjartardóttir, Guðmundur Hallvarðsson, Árni Ragnar Árnason og Guðjón A. Kristjánsson.

Þáltill. hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela umhverfisráðherra að undirbúa og ákveða fyrirkomulag innheimtu sérstaks þjónustugjalds á fjölsóttum náttúruverndarsvæðum sem stæði undir uppbyggingu og þjónustu á slíkum svæðum.``

Þáltill. var lögð fyrir á síðasta þingi og fór til hv. umhvn. án umræðu og er nú mælt fyrir henni í fyrsta sinn og vonandi eina. Var hún send til umsagnar fjölmargra aðila.

Mikil vakning hefur orðið meðal Íslendinga á undanförnum árum að ferðast um eigið land. Jafnframt hefur erlendum ferðamönnum fjölgað verulega á síðustu árum. Milli áranna 1990 og 2000 fjölgaði erlendum ferðamönnum sem komu til landsins um 113%, úr um 142 þúsund í rúmlega 303 þúsund talsins og gert er ráð fyrir að fjöldi erlendra ferðamanna sem sækja landið heim verði um hálf milljón árið 2020.

Fullyrða má að íslensk náttúra sé eitt meginaðdráttarafl erlendra ferðamanna. Íslensk náttúra er því auðlind sem íslensk ferðaþjónusta byggir á og hún er bæði atvinnuskapandi og gjaldeyrisskapandi. Það skiptir því þá atvinnugrein og þjóðina alla afar miklu máli hvernig búið er að íslenskri náttúru og hvernig aðstöðu ferðamönnum er boðið upp á.

Þrátt fyrir að verulegu fjármagni hafi verið varið til uppbyggingar til móttöku ferðamanna á vinsælum ferðamannastöðum á síðustu árum er ljóst að margir þeirra standast tæpast kröfur um aðgengi, aðstöðu og fræðslu sem ferðamenn vænta. Fæstir vinsælla ferðamannastaða eru undir það búnir að taka á móti þessum aukna fjölda ferðamanna. Afleiðingin er að víða hefur land látið á sjá en slíkt leiðir fljótt til minni virðingar fyrir umhverfinu og verri umgengni.

Samhliða auknum áhuga á ferðalögum um landið hefur áhugi á verndun landsins aukist. Það endurspeglast m.a. í stofnun nýrra þjóðgarða og nefni ég þar m.a. þjóðgarðinn Snæfellsjökul sem var formlega opnaður sumarið 2001 og Vatnajökulsþjóðgarð sem er enn á teikniborðinu og sem Skaftafellsþjóðgarður mun sennilega verða hluti af. Auk þess eru þjóðgarðar í Jökulsárgljúfrum og á Þingvöllum. Þjóðgarðar hafa alþjóðlega tilvísun í huga ferðamanna enda eru þeir stofnaðir til að varðveita sérstakar náttúruheildir sem verðugt er að njóta. Í hugtakinu felst ákveðinn gæðastimpill og eru tilteknar kröfur gerðar til aðbúnaðar og umbúnaðar á slíkum stöðum.

Í úttekt OECD árið 2001 á stöðu og þróun umhverfismála á Íslandi segir m.a. eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Í flestum þjóðgörðum og á öðrum verndarsvæðum þarf fleiri eftirlitsmenn og framkvæmdaáætlanir ... Mikil aukning varð í ferðaþjónustu á síðasta áratug og þar með jókst einnig þörfin fyrir það að hafa hemil á því mikla álagi á náttúru landsins sem þessu fylgir, og þörfin fyrir auknar fjárveitingar til uppbyggingar á betri aðstöðu og fleiri eftirlitsmenn á vinsælustu ferðamannasvæðunum.``

Í skýrslu OECD eru lagðar fram ýmsar tillögur sem geta stuðlað að auknum árangri landsins á sviði umhverfismála. Þar er m.a. lagt til, með leyfi forseta, að:

,,... fjölgað verði landvörðum á náttúruverndarsvæðum og fjármagn til náttúruverndar aukið, t.d. með því að beita nytjagreiðslureglunni í ferðaþjónustu og með gjaldtöku af ferðamönnum á friðuðum svæðum ...``

Með hliðsjón af auknum fjölda ferðamanna sem kjósa að ferðast um Ísland, þörf á auknu fjármagni til að standa undir uppbyggingu aðstöðu til móttöku þeirra á vinsælum ferðamannastöðum og um leið nauðsyn þess að vernda íslenska náttúru og koma í veg fyrir landspjöll vegna aukins ágangs er þessi þingsályktunartillaga lögð fram.

Á síðari árum hefur svokölluð mengunarbótastefna rutt sér rúms í umhverfismálum, en meginhugsunin að baki henni er að þeir sem menga greiði fyrir förgun mengunarefna. Á sama hátt hefur stefnan í nágrannalöndum okkar verið að þeir sem njóta náttúrunnar greiði fyrir þá þjónustu og aðstöðu sem þörf er á til að taka á móti ferðamönnum á viðunandi máta. Erlendis þykir það sjálfsagt að ferðamenn greiði aðgangseyri að náttúrufyrirbærum sem eru sérstakt aðdráttarafl ferðamanna. Þjónustugjald að þjóðgörðum er erlendis meginreglan, enda stendur slíkt gjald undir tiltekinni þjónustu sem veitt er innan þjóðgarðsins, svo sem öryggisþjónustu, bæklingum, leiðarlýsingum, aðgangi að fræðslusetrum og annarri fræðslu eða leiðbeiningum. Einnig stendur það undir gerð og viðhaldi göngu- eða hjólastíga, bílastæða og tjaldstæða, auk þjónustuhúsa, t.d. salerna og þvottaaðstöðu, að ónefndri verndun náttúru svæðisins, sem er meginástæða þess að fólk kýs að sækja staðinn.

Hér á landi þykir eðlilegt að greiða fyrir aðgang að sögusýningum, fornminjum og merkum sögustöðum. Hins vegar hefur ekki þótt eins sjálfsagt að greiða þjónustugjald fyrir aðgang að náttúrufyrirbærum eða þjóðgörðum. Mörg rök hafa verið færð fyrir því. Mun ég ekki tíunda þau hér en vísa í greinargerð með tillögunni. Hins vegar er ljóst að ákveðin hugarfarsbreyting hefur átt sér stað að undanförnu og hafa ýmsir hagsmunaaðilar sem áður þvertóku fyrir allar slíkar hugmyndir opnað á þær nú.

Herra forseti. Í umsögnum sem bárust umhvn. um tillöguna mæltu m.a. Vegagerðin, Samtök sunnlenskra sveitarfélaga og Náttúruvernd ríkisins með samþykkt hennar.

Í jákvæðri umsögn Ferðamálaráðs kemur m.a. fram að ráðið hafi verið og sé, með leyfi forseta:

,,... þeirrar skoðunar að eðlilegt sé að innheimta þjónustugjöld fyrir skilgreinda þjónustu á umræddum svæðum enda sé gjaldinu varið til að byggja upp þjónustu á viðkomandi svæði.``

Ferðamálaráð leggur jafnframt áherslu á í umsögn sinni að ekki sé um að ræða almennan aðgangseyri að svæðunum, heldur þjónustugjöld fyrir skilgreinda þjónustu. Einnig bendir ráðið á að mikilvægt sé að gera sér grein fyrir á hvaða svæðum slík innheimta sé raunhæf bæði hvað varðar að veita þjónustu til ferðamanna og einnig með vísan til þess að kostnaður við innheimtuna á vissum svæðum gæti orðið meiri en umrætt þjónustugjald.

Umsögn Bændasamtakanna er hliðstæð umsögn umsögn Ferðamálaráðs og leggur jafnframt áherslu á að ekki verði farið út á þessa braut nema í góðri sátt við hagsmunaaðila í ferðaþjónustu.

Í tillögunni sem hér er mælt fyrir er lagt til að tekið verði upp þjónustugjald sem endurgjald fyrir tiltekna þjónustu en ekki er gert ráð fyrir almennum aðgangseyri að náttúruverndarsvæðum. Slíkt gjald vilja sumir kalla góngjald eða glápjald þar sem einungis er greitt fyrir að horfa og njóta. Um það er ekki að ræða í þessari tillögu.

Í umsögn Ferðamálaráðs er bent á þá staðreynd að aðsókn á suma ferðamannastaði sé ekki í þeim mæli að innheimta af þjónustugjaldi standi undir meiru en kostnaði við innheimtu.

Ég er sammála umsögn Ferðamálaráðs varðandi það að ekki sé vit í að leggja þjónustugjald á við slíkar aðstæður. Ég bendi á hinn bóginn á að ýmsir vinsælir ferðamannastaðir eru tilvaldir í þessu sambandi, bæði af landfræðilegum ástæðum en einnig vegna fjölda ferðamanna og þeirrar þjónustu sem þarf að standa til boða. Hér má nefna staði eins og Dimmuborgir, Gullfoss, Geysi, Þórsmörk og Öskju, að ónefndum þjóðgörðunum Snæfellsjökli, í Skaftafelli og í Jökulsárgljúfrum. Þar eru Ásbyrgi og Dettifoss innifalin. Þar er fullkomlega eðlilegt að leggja á þjónustugjald við aðgang, enda þarf að gera miklar kröfur til öryggisgæslu, aðstöðu og þjónustu á slíkum stöðum eðli málsins samkvæmt. Þjónustugjald gæti í ákveðnum tilvikum, t.d. í Þórsmörk, einnig virkað takmarkandi á aðgang, þar sem þegar er um oftroðslu á landi að ræða.

Herra forseti. Að gefnu tilefni vil ég taka fram að ég er þeirrar skoðunar að þjóðgarðurinn á Þingvöllum verði ávallt undanskilinn þjónustugjaldi, enda hefur hann slíka sérstöðu meðal þjóðarinnar að eðlilegt er að kostnaður við hann sé alfarið greiddur úr sameiginlegum sjóðum landsmanna.

Sem dæmi um fjölda ferðamanna á einstökum stöðum má nefna að um 140 þúsund ferðamenn komu í þjóðgarðinn í Skaftafelli á árinu 2001 og um 200 þúsund manns koma að Gullfossi á ári hverju. Ef hver ferðamaður sem skoðar Gullfoss og nýtur þjónustu þar greiðir sem nemur 200--250 kr. gætu árlegar tekjur numið 40--50 millj. kr. Á sama hátt gæfu árleg þjónustugjöld fyrir aðgang að Skaftafelli 28--35 millj. kr. eða 23--28 millj. kr. ef miðað er við að börn fái ókeypis aðgang og að þau séu 20% gesta. Innheimtukostnað þar má áætla 4--5 millj. kr. á ári miðað við að þjónustugjald sé innheimt einungis yfir sumartímann. Þess má geta að algengt aðgangsgjald og þjónustugjald í þjóðgörðum í Kanada er sem samsvarar um 130--350 kr. íslenskar eftir því hvort um börn, fullorðna eða eftirlaunaþega er að ræða. Þessi gjöld standa að mestu undir rekstri viðkomandi þjóðgarða. Þar er litið svo á að greiðsla aðgangseyris jafngildi því að fjárfest sé í verndun garðsins fyrir óbornar kynslóðir.

Í greinargerð með þáltill. er fjallað um ástand og uppbyggingu vinsælla ferðamannastaða og vísað í skýrslu sem unnin var og gefin út af Ferðamálaráði, Náttúruvernd ríkisins og Vegagerðinni frá 1999. Þar kemur m.a. fram það álit að vegna stóraukins fjölda ferðamanna sé nauðsynlegt að fara í ýmsar framkvæmdir á friðlýstum svæðum og öðrum vinsælum ferðamannastöðum í mun ríkara mæli en áður hefur verið gert, enda sé aðstaða og aðgengi ferðamanna að helstu náttúruperlum landsins víðast hvar í mjög bágu ástandi.

Í greinargerð með þáltill. er gert grein fyrir að lagaheimild er fyrir lagningu þjónustugjalds á náttúruverndarsvæðum, en sú heimild hefur ekki verið notuð. Heimildin er í 32. gr. laga um náttúruvernd og er áskilið að gjaldið skuli renna til verndunar og fegrunar eða uppbyggingar á því svæði.

Því er ljóst að lagaheimild er fyrir því að innheimta þjónustugjald á náttúruverndarsvæðum. Hins vegar þarf sennilega lagabreytingu ef nýta á þjónustugjöld á einum stað einnig til uppbyggingar á öðrum stöðum, þar sem aðstæður, fjöldi ferðamanna eða aðrar ástæður eru í vegi fyrir innheimtu þjónustugjalda, þ.e. ef niðurstaða umhvrh. yrði á þann veg eftir að þessi þáltill. hefur verið samþykkt og fengið umfjöllun hjá umhvrh.

Að lokum, herra forseti: Ljóst er að verulegt viðbótarfé þarf til að byggja upp aðstöðu á vinsælum ferðamannastöðum svo að unnt verði að taka á móti auknum fjölda ferðamanna og vernda um leið íslenska náttúru. Vægt þjónustugjald sem innheimt yrði við aðgang að fjölsóttum náttúruverndarsvæðum gæti mætt þessari fjárþörf að hluta.

Lögð skal á það áhersla að gjaldtaka á vinsælum ferðamannastöðum er fyrst og fremst hugsuð til að standa undir óskum ferðamanna um þjónustu og aðbúnað á slíkum svæðum.

Núverandi umhverfisráðherra hefur margoft lýst því yfir að hún telji að í framtíðinni verði tekin upp gjöld í formi aðgangseyris og rekstrarleyfisgjalda á stöðum sem margir ferðamenn fara um. Þá hefur fyrrverandi forstjóri Náttúruverndarráðs, sem nú hefur verið lagt niður, lýst því yfir að augljóst sé að slík gjaldtaka væri markmið sem stefna bæri að. Í úttekt OECD 2001 á stöðu og þróun umhverfismála á Íslandi var íslenskum stjórnvöldum bent á að til að stuðla að auknum árangri landsins á sviði umhverfismála þyrfti meira fjármagn til náttúruverndar sem yrði aflað m.a. með því að beita nytjagreiðslureglunni í ferðaþjónustu og með gjaldtöku af ferðamönnum á friðuðum svæðum.

Það eru hagsmunir ferðaþjónustunnar, íslenskrar náttúru og þjóðarinnar allrar að staðinn sé vörður um fjölsótt náttúruverndarsvæði. Fjármagn til þessa þáttar hefur á undanförnum árum ekki verið nægilegt og ljóst að munar um þótt ekki sé nema hóflegt þjónustugjald við aðgang að tilteknum stöðum.

Í bláendann, herra forseti, um leið og ég þakka forseta áheyrnina, sem er einn fárra hér inni, legg ég til þáltill. verði send til umhvn. til umfjöllunar og afgreiðslu.