Varnarskylda NATO-ríkja gagnvart Tyrklandi

Mánudaginn 10. febrúar 2003, kl. 15:10:03 (3645)

2003-02-10 15:10:03# 128. lþ. 75.1 fundur 414#B varnarskylda NATO-ríkja gagnvart Tyrklandi# (óundirbúin fsp.), SJS
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 128. lþ.

[15:10]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Í fyrsta lagi gekk Ísland í Atlantshafsbandalagið með fyrirvara um að það mundi aldrei segja annarri þjóð stríð á hendur og aldrei taka þátt í stríðsátökum. Þessi fyrirvari er enn í gildi og hæstv. ríkisstjórn væri í lófa lagið að vísa til hans ef hún vildi viðhalda friðararfleifð og friðarhefðum íslensku þjóðarinnar en það vill hún greinilega ekki. Fylgispektin við Bandaríkin er orðin alger í þessum efnum.

Nú er Ísland að skilja sig frá þeim Evrópuþjóðum sem eru þó að reyna að andæfa stríðsæsingamönnunum í Washington og velur að vera ekki í sveit hjá þeim þjóðum sem innan NATO eða á vettvangi alþjóðastjórnmála og öryggisráðsins reyna allt sem mögulegt er til að koma í veg fyrir yfirvofandi styrjöld. Það er dapurlegt að sjá Ísland í þessum félagsskap. Og ég verð að segja að mér fyndist fara betur á því að utanrrh. íslensku þjóðarinnar léti Donald Rumsfeld eftir að halda ræður af því tagi sem hér voru fluttar áðan. Hann er miklu betri í því að skella skuldinni á Saddam Hussein og réttlæta þannig þann hildarleik sem er í vændum.